Hafið er hjarta og lungu og ruslahaugur jarðar

0
534

Hafið rusl

8.júní 2014. Við eigum hafinu allt að þakka: rigningin, drykkjarvatnið, veðrið, strendurnar, stór hluti fæðu okkar og meira að segja súrefnið sem við öndum að okkur , -allt á þetta uppruna sinn í sjónum. Í dag er Alþjóðlegur dagur hafsins. 

Atferli mannsins snertir allt að 40% hafsins, sem verður mengun að bráð, ofveiði, og ágangi á strandlínur. Meir en þrír milljarðar manna nýta sér líffræðilegan fjölbreytileika hafs og stranda sér til lífsviðurværis. 

Þar að auki eru höfin mikilvæg fyrir viðskipti og flutninga. Höfin eru um 71% af yfirborði jarðar og þau hýsa 97% alls vatns jarðar, að ógleymdum óteljandi lífverum og ómisssandi hluta fæðu milljarða manna.Markaðsvirði sjávarafurða og vinnslu þeirra er talið nema 3 billjónum Bandaríkjadala á ári eða um 5% af þjóðarframleiðslu alls heimsins. Vísindamenn telja að við höfum aðeins kannað 5% alls hafsins. Með öðrum orðum leynast mikil tækifæri í hafinu til að afla sér lífsviðurfæris, viðskipta, fæðu og því miður eru þau einnig ruslahaugur jarðarbúa.

Stærð vandans sést á því að nú er talað um að ný meginlönd hafi myndast úr aragrúa örsmárra plasteinda sem safnast saman í risastórum hringiðum á úthöfunum. Margir halda að þessar plasthringiður sjáist auðveldlega en svo er í raun ekki. Plastið er svo smátt að það sést oft og tíðum ekki með berum augum en er hins vegar skeinuhætt sem best sést á þeim fjölda dauðs fiskjar, fugal og sjávarspendýra sem eru hluti af plast-hringiðunum.

Höfin drekka í sig 30% af koltvíserýngi sem verður til af mannavöldum og draga þar með úr hlýnun jarðar. Höfin líða á sama tíma fyrir verstu fylgifiska loftslagsbreytinga.  Bráðnun jökla er farin að hafa áhrif á höfin enda hækkar yfirborð sjávar í kjölfarið. Þetta ógnar nú smáeyríkjum svo mjög að mörg þeirra gætu hreinlega horfið í sjóinn. Þegar við fögnum degi hafsins beinist athyglin að því að vernda höfin og að þörfinni á að hreinsa og hlúa að hjarta og lungum jarðarinnar. Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna segir í ávarpi í tilefni dagins: “Ef við viljum að höfin gagnist okkur að fullu, verðum við að snúa við hrörnun umhverfis sjávar vegna mengunar, rányrkju og súrnunar.”