Hamingja á tímum ófriðar og loftslagsbreytinga

0
362
Alþjóðlegi hamingjudagurinn
Cao Lãnh, Vietnam. © MI PHAM/ Unsplash

 Alþjóðlegi hamingjudagurinn. Að öðlast hamingju og velsæld er markmið fólks um allan heim. Sameinuðu þjóðirnar halda 20.mars ár hvert Alþjóðlega hamingjudaginn.

Ekki nóg með það heldur hvetja Sameinuðu þjóðirnar aðildarríki sín til að taka tillit til hamingju þegnanna í innlendum áætlunum og stefnumörkun.

Alþjóðlegi hamingjudagurinn
Dönsk kona brosir út að eyrum. Mynd: Michael Dam / Unsplash

Bútan átti frumkvæðið að því að halda hamingjudaginn á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Þetta litla ríki í Himalajafjöllunum hefur frá því í upphafi áttunda ártugarins tekið hamingju landsmanna fram yfir þjóðartekjur. Tekið er tillit til hamingju við ákvarðanir sem tengjast hagvexti.

Tröllauknar áskoranir á borð við styrjaldir, eftirköst heimsfaraldurs, djúpstæðar loftslagsbreytingar og aukinn ójöfnuð einkenna okkar tíma. Allt þetta hefur aukið álag og áhyggjur og ógnar hamingju okkar. Ekki síst þess vegna er mikilvægt að viðurkenna og meta að verðleikum gildi hamingjunnar í lífi fólks.

Fyrri niðurstöður hamingjuskýrslna

Alþjóðlegi hamingjudagurinn
Freweyni ristar kaffibaunir á kolaeldavél. Hún kennir öðrum konum listina svo þær geti aflað sér lífsviðurværis. Mynd: . © UNHCR/Samuel Otieno

 Undanfarin ár hefur verið tekin saman skýrsla um hamingju í heiminum með lista yfir hamingju í 150 ríkjum heims. Í henni er einnig reynt að komast til botns í því hvers vegna þjóðir heims eru mis-hamingjusamar. Oft og tíðum eru Norðurlöndin efst á lista, en Simbabwe, Líbanon og Afganistan voru neðst síðast.

Í fyrri skýrslum hefur verið sýnt fram á að sælustu einstaklingarnir eru þeir sem hafa góða menntun og tekjur, njóta góðrar heilsu, finna fyrir stuðningi í samböndum, treysta öðrum og búa í samfélögum sem einkennast af örlæti, frelsi og spillingarleysi.

Hamingjusamastur í heimi

 Hvort heldur sem er litið til austurs eða vesturs er augljóst að skilgreiningar á hamingju eru afar mismunandi.

Alþjóðlegi hamingjudagurinn
Matthieu Ricard. Mynd © Jon Schmidt

Matthieu Ricard er búddamúnkur, rithöfundur og ljósmyndari. Hann er fæddur 1946, sonur þekkts fransks heimspekings, Jean-François Revel og málarans Yahne Le Toumelin. Hann lauk doktorsprófi í erfðafræði áður en hann venti kvæði sínu í kross og helgaði sig búddisma.

Vísindamenn sem gerðu rannsókn á heilastarfsemi hans í 12 ár, lýstu því yfir að hann væri hamingjusamasti maður heims. Þeir komust að því að hann væri gæddur miklum hæfileikum til að vera hamingjusamur og lítilli getu til að vera neikvæður. Ricard segir þetta afrakstur íhugunar og andlegrar þjálfunar.

Alþjóðlegi hamingjudagurinn
Fólk af Falata-kyni stígur hefðbundinn dans í Al Zubir vellinum í El Fasher, í norður Darfur. Mynd: © UN Photo/Albert Gonzalez Farran

Að mati Ricard einkennist hamingja af æðruleysi og lífsfyllingu og er ástand sem liggur til grundallar hvers kyns tilfinningum.

Hann telur að hægt sé að þjálfa heilann til að njóta hamingju og raunverulegrar velsældar, hugarróar og fyllingu. Ricard telur að vissulega geti ytri aðstæður haft áhrif. Á hinn bóginn geti fólk, sem hafi sterka innri tengingu, haldið fast í hugarró, innri styrk og traust, jafnvel við mjög erfiðar aðstæður.

Aðgerðir til að bæta geðheilsu og lífsgæði

 Norska lýðheilsustofnunin hefur kynnt raunhæfar aðgerðir til að efla geðheilsu og lífsgæði. Þær eru almennar og eiga erindi við alla. Einstaklingar geta fært sér þær í nyt en einnig má nota þær á víðtækari hátt.

Fyrsta atriðið er að tengjast öðrum og bæta félagsleg tengsl í því skyni að vera virkari í umhverfinu. Þá leggur stofnunin áherslu á líkamlega virkni og vera til staðar hér og nú og gefa augnablikinu gaum. Enn er bent á ágæti þess að halda sífellt áfram námi og freista þess að þróast sem manneskja, auk þess að leggja öðrum lið og bæta samfélagið.

Heimsmarkmiðin eru mikilvæg fyrir hamingjuna

Alþjóðlegi hamingjudagurinn
Alþjóðlegi hamingjudagurinn. Mynd UN Photo

 Lífsgæði auka þolgæði okkar þegar álag, geðrænir kvillar og líkamleg veikindi hrjá okkur. Okkur ber að vinna saman að því að tryggja öllum góð lífsgæði til að byggja upp framtíð þar sem heilsan er sett á oddinn, auk réttlætis og sjálfbærni.

Í þessu felst að berjast gegn fátækt, draga úr ójöfnuði og vernda plánetuna. Allt er þetta á meðal helstu ákvæða Heimsmarkmiðanna um sjálfbæra þróun.

Sjá einnig hér.