Heimsins mikilvægasta ár

0
488

Foto - Bettnina Stuhr Lindskow Aktion Børnehjælp

Janúar 2015. Dönsku samtök Heimsins bestu fréttir sem gefa út samnefnt blað, hafa fengið byr í seglinn.

Hróður átaksins hefur borist út fyrir landsteina Danmerkur og nú hyggjast þau á landvinninga á þessu mikilvæga ári.

Regnhlífarsamtök danskra almannafélaga sem vinna að þróunarmálum (NGO FORUM siðar Globalt fokus) hleyptu af stokkunum kynningarátaki um Þúsaldarmarkmiðin um þróun árið 2010 í samvinnu við Sameinuðu þjóðirnar og Danida, dönsku þróunarsamvinnustofnunina. Átakið var kallað Heimsins bestu fréttir og var markmiðið að segja frá markmiðunum og árangri danskrar þróunarsamvinnu á einfaldan og uppbyggilegan hátt. 

Verkefnið féll í góðan jarðveg, ekki aðeins í Danmörku heldur víðar og hefur merkið verið tekið upp annars staðar til dæmis á Íslandi, Írlandi og Hollandi.

Finnar hafa nú ákveðið að nota Heimsins bestu frétta hugmyndina til að fagna sjötugsafmæli Sameinuðu þjóðanna í ár, en að baki því standa Félag Sameinuðu þjóðanna í Finnlandi, UNICEF, og fleiri samtök.

Svipaða sögu má segja í Noregi en þar er sams konar verkefni í undirbúningi af hálfu æskulýðs- og stúdentasamtaka í samvinnu við norska félag Sameinuðu þjóðanna. Dönsku samtökin taka ekki beinan þátt í erlendum verkefnum af svipuðu tagi, en láta sér vel líka að vera öðrum fyrirmynd.

„Hugmyndin að baki Heimsins bestu fréttum er að taka höndum saman um segja frá því sem er að gerast í heiminum á uppbyggilegan hátt. Okkar hugsunarháttur er að viljum að sem flestir geti nýtt sér okkar starf og vitneskju. Það er jákvætt að við höfum orðið öðrum innblástur,” segir Thomas Ravn-Pedersen, sem stýrir Heimsins bestu fréttum.

Heimsins mikilvægasta ár

Árangur átaksins og hið mikilvæga ár sem er framundan, hefur eflt samtökunum kjark til þess að nema ný lönd. Dönsku samtökin hafa tekið upp samstarf við alþjóðlegu samtökin Action 2015 um að þrýsta á stjórnmálamenn til að semja þegar í stað um aðgerðir til að takast á við þær mörgu áskoranir sem heimurinn stendur frammi fyrir.

„Við viljum í samvinnu við þróunarsamtök senda út þau skilaboð að 2015 sé heimsins mikilvægasta ár. Við viljum því vera ennþá virkari og sýnilegri í fjölmiðlum og reyna að þrýsta á stjórnmálamenn um að grípa til aðgerða,”segir Thomas Ravn Pedersen.

Frumkvæðið er þegar komið á fullt skrið. 15.janúar birtist fjórðblöðungur með fríblaðinu Metroexpress í Danmörku með heimsins bestu fréttum sem að þessu sinni fjölluðu að mestu um Sjálfbær þróunarmarkmið, loftslagsbreytingar, og MyWorld2015 átakið.

Efnið hefur verið þýtt og verið dreift á sama hátt í ýmsum löndum til dæmis Suður-Afríku, Simbabve, Venesúale, Finnlandi og Austurríki.

Þá hafa samtökin gert bandalag við Evrópusambandið vegna Evrópuárs þróunar.

Að mörgu er að hyggja í ár

Í júlí á að semja um fjármögnun þróunar á þriðju ráðstefnu SÞ um það efni í Addis Ababa

Í september á að samþykkja Sjálfstæðu þróunarmarkmiðin til ársins 2030.

Og að lokum á að ganga frá Loftslagssáttmála á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í París í desember.