Hútar lýstir hryðjuverkasamtök: dauðadómur yfir milljónum Jemena

0
779
Jemen hungur
Muna, tveggja ára, fær matarskammt frá WFP sem sérstaklega er ætlaður að vinna gegn vannæringu. Mynd: WFP/Issa Al-Raghi

David Beasley forstjóri Matvælastofnunar Sameinuðu þjóðanna (WFP) segir að sú ákvörðun Bandaríkjstjórnar að lýsa uppreisnarmenn Húta í Jemen hryðjuverkamtök feli í sér dauðadóm yfir hundruð þúsund ef ekki milljóna íbúa landsins.

Beasley var á meðal þeirra sem lögðu mat á ákvörðunina á fundi Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.

Hindra almenna hungursneyð

Jemen hungur
Matvæladreifing í Zinjibar í Abyanhéraði í Jemen.
Mynd: WFP/Mahmoud Fadel

„Áður en þessi ákvörðun lá fyrir var við ramman reip að draga. Yfirlýsingin mun hafa hrikalegar afleiðingar í för með sér. Þetta er ekkert annað en dauðadómur yfir hundruð þúsunda ef ekki milljóna saklausra Jemenbúa,“ sagði hann.

Talið er að 16 milljónir manna muni líða hungur á þessu ári í Jemen. 50 þúsund manns eru þessa stundina í raun og veru að svelta til bana, enda hefur ekki tekist að afla neyðaraðstoðar. Mark Lowcock samræmingarstjóri mannúðaraðstoðar hjá Sameinuðu þjóðunum sagði á fundi Öryggssráðsins að helsta markmiðið væri að koma í veg fyrir hrikalega hungursneyð.

Hjálparsamtök geta ekki komið í stað innflytjenda

Lowcock hvatti til þess að ákvörðuninni yrði breytt. Þar sem Jemen treysti á innflutning matvæla væri ákvörðunin reiðarslag því hún hefði áhrif á neyðaraðstoð.

Hungur Jemen
Styrjöldin í Jemen hefur verið mannskæð og valdið mikilli eyðileggingu. Myndin er frá Taiz. Mynd: WFP/Mohammed Awadh

Hjálparsamtök í Jemen afhenda nauðstöddum ávísanir á matvæli sem fólk getur notað til að kaupa nauðþurftir á mörkuðum. Lowcock sagði að nú þegar blasti við að birgjar, bankar, tryggingafélög og skipafélög væru að hætta viðskiptum við Jemena af ótta við refsiaðgerðum Bandaríkjamanna.

„Hjálparsamtök eru engan vegin í stakk búin til að koma í stað innflutningskerfisins” sagði Lowcock.

Mikil hömstrun matvæla á sér nú þegar stað í Jemena af ótta við matarskort vegna aðgerða Bandaríkjanna.

Ákvörðun Bandaríkjanna var tekin eftir meinta árás Húta á flugvöllinn í Aden. Talið er að skotmark þeirra hafi verið ráðherrar í ríkisstjórn Jemen sem voru nýkomnir frá Sádi Arabíu.

Þess má geta að UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna á Íslandi safnar fé til stuðnings börnum i Jemen, sjá hér.