Hvað er Mannréttindaráðið?

0
13
Fundarsalur Mannréttindaráðsins.
Fundarsalur Mannréttindaráðsins. Mynd: UN Photo/Jean-Marc Ferrer

 Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna. Stríðsglæpir, kynþáttahatur, handtökur af handahófi og nauðganir sem vopn í stríðsátökum: þetta eru aðeins nokkur þeirra þýðingarmiklu alþjóðamála, sem koma til kasta Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna.

Þriggja barna einstæð móðir nýtur stuðnings Flóttamannahjálpar SÞ við að endurreisa heimili sitt.
Þriggja barna einstæð móðir í Úkraínu nýtur stuðnings Flóttamannahjálpar SÞ við að endurreisa heimili sitt. Mynd: UNHCR/Nikola Ivanovski

Nýjasta fundahrina ráðsins, sem hófst mánudaginn 26.febrúar verður sú lengsta hingað til enda er dagskráin þétt og lýkur ekki fyrr en 5.apríl. Átökin á Gasaströndinni, í Súdan og Úkraínu verða til umræðu, sem og andstreymi sem mannréttindaforkólfar mæta víða um heim. Þá verður mannréttindaástand í 50 ríkjum til skoðunar.

Margar fjölskyldur búa við þröngan kost í Rafah, Gasasvæðinu.
Margar fjölskyldur búa við þröngan kost í Rafah, Gasasvæðinu. Mynd: UNICEF/Eyad El Baba

En hvað gerir Mannréttindaráðið og hvers vegna skiptir það máli?

Hvað felst í starfi ráðsins?

Mannréttindaráðið, sem situr í Genf, er í stuttu máli milliríkjavettvangur alþjóðasamfélagsins til að ræða um hvaðeina sem snertir mannréttindi um víða veröld.

Það kemur saman til fundar þrisvar sinnum á ári til að ræða hvort heldur sem er pólitísk-, borgaraleg-, félagsleg-, eða menningarleg réttindi. Auk stjórnarerindreka ríkja koma við sögu embættismenn Sameinuðu þjóðanna, óháðir sérfræðingar og rannsakendur og almannasamtök.

Ráðið setur á stofn sendinefndir og rannsóknarnefndir til að brjóta til mergjar einstök málefni.

Hvernig starfar það?

Helsta nýjungin, sem bryddað var upp á þegar Mannréttindaráð tók við af Mannréttindanefnd árið 2006, var reglubundin almenn yfirferð mannréttinda í einstökum ríkjum. Farið er yfir mannréttindaástandið í öllum 193 aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna á fjögurra ára fresti.

Yfirferðin er leidd áfram af ríkjunum á vettvangi ráðsins. Hvert ríki fyrir sig fær tækifæri til að kynna nýjustu aðgerðir til að bæta mannréttindi og þær áskoranir sem við er að glíma heima fyrir til að mæta alþjóðlegum skuldbindingum.

Mannréttindaráðið starfar í Þjóðahöllinni í Genf.
Mannréttindaráðið starfar í Þjóðahöllinni í Genf. Mynd: UN Photo/Emmanuel Hungrecker

Ráðið skipar einnig rannsóknarnefndir til að fara í saumana á brotum í einstökum ríkjum eða á einstökum sviðum. Dæmi um þetta var verkferli til að efla kynþátta-rétttlæti og jöfnuð í löggæslu.

Ráðið skipar óháða sérfræðinga, þar á meðal Sérstaka erindreka til að kanna og fylgjast með mannréttindabrotum. Þeir starfa á eigin vegum og fá enga þóknun frá Sameinuðu þjóðunum. Þeir eru stundum kallaðir “augu og eyru” ráðsins.

Hvernig gagnast ráðið mannréttindum um allan heim?

Mannréttindaráðið er þýðingarmikill hluti mannréttindastarfs Sameinuðu þjóðanna. Ráðið hefur vald til þess að samþykkja ályktanir, senda á vettvang nefndir til að safna upplýsingum og rannsaka og skipa sérstakar úttektarnefndir.

Gamall fangaklefi í Péturs og Pálsvirkinu í Pétursborg
Gamall fangaklefi í Péturs og Pálsvirkinu í Pétursborg. Mynd: Don-vip/ Creative Commons Attribution-Share Alike 4.0

Sérstaklega er vert að nefna að ráðið getur skipað óháða sérfræðinga um tiltekin málefni. Sem dæmi má nefna að árið 2023 skipaði ráðið í fyrsta skipti Sérstakan erindreka um mannréttindaástandið í Rússlandi. Árið 2021 var viðurkennt að það fælust mannréttindi í að njóta hreins og öruggs umhverfis.

Öll slík verkferli eiga að tryggja að vakin sé athygli á alvarlegum mannréttindabrotum. Þau séu dregin fram í dagsljósið á alþjóðlegum vettvangi, rannsökuð, rædd og -þegar hægt er- gripið til aðgerða. Slíkar aðgerðir geta breytt atburðarás til hins betra.

55.fundur Mannréttindaráðsins hófst í dag
55.fundur Mannréttindaráðsins í Genf. Mynd:UN Photo / Elma Okic

Hver á rétt á sæti í Mannréttindaráðinu?

Leynileg kosning er til Mannréttindaráðsins á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna árlega. Hvert ríki er kosið til þriggja ára. 47 ríki sitja hverju sinni í ráðinu og er skipt á milli fimm heimshluta. Slíkt er gert til að koma í veg fyrir að athygli dreifist og beinist ekki að einum eða fáum heimshlutum eða ríkjum og að hvert ríki njóti sanngirni.

Hverju ríki er í sjálfsvald sett hverjum það greiðir atkvæði til setu í ráðinu og er ástand mannréttindamála ekki sérstakt skilyrði.

Hverjir sitja þar nú?

Í síðustu kosningum til ráðsins 10.október 2023 var kosið um fimmtán sæti. Náðu Albanía, Brasilía, Búlgaría, Búrúndí, Dóminíkanska lýðveldið, Frakkland, Fílabeinsströndin (Côte d’Ivoire), Gana, Holland, Indónesía, Japan, Kína, Kúba, Kúveit og Malaví kjöri. Þau tóku sæti í ráðinu 1.janúar.