Hvað geta Sameinuðu þjóðirnar gert til að binda enda á stríð?

0
649
Maður tekur myndir af skemmdum á íbúðarhúsi í Kyiv.
Maður tekur myndir af skemmdum á íbúðarhúsi í Kyiv. Mynd: Globe and Mail

Sameinuðu þjóðirnar voru stofnaðar árið 1945 í kjölfar Síðari heimsstyrjaldarinnar. Markmiðið var skýrt eins og fram kom í stofnsáttmála samtakanna. „Að bjarga komandi kynslóðum undan hörmungum ófriðar, sem tvisvar á ævi vorri hefur leitt ósegjanlegar þjáningar yfir mannkynið“.

Nú þegar brotist hefur út í styrjöld í Evrópu spyrja margir hvað Sameinuðu þjóðirnar geti gert til að binda enda á stríð. Hér á eftir fylgja fimm spurningar og svör um þau úrræði sem Sameinuðu þjóðirnar búa yfir á sviði friðar og öryggis.

Getur Öryggisráðið stöðvað stríð?  

Öryggisráðið á fundi.
Öryggisráðið. Mynd: UN Photo/Loey Felipe

Lítum fyrst á hlutverk ráðsins. Hlutverk og völd Öryggisráðsins eru skilgreind í Stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna, stofnskrá samtakanna.

Fimmtán ríki eiga hverju sinni sæti í ráðinu. Fimm ríki; Bandaríkin, Bretland, Frakkland, Kína og Rússland, eiga þar fast sæti. Tíu ríki eru kosin til tveggja ára á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Innan samtakanna er það Öryggisráðið sem ber fyrst og fremst ábyrgð á að viðhalda alþjóðlegum friði og öryggi.

Í 25.grein stofnsáttmálans segir að öllum aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna beri að „fallast á og framkvæma ákvarðanir öryggisráðsins.“ Með öðrum orðum eru samþykktir Öryggisráðsins bindandi fyrir öll aðildarríkin.

António Guterres ávarpar fund um gildi Stofnsáttmálans á 75 ára afmæli Sameinuð þjóðanna
António Guterres ávarpar fund um gildi Stofnsáttmálans á 75 ára afmæli Sameinuð þjóðanna

Þegar friði er ógnað getur Öryggisráðið í samræmi við ákvæði stofnsáttmálans gripið til ýmissa aðgerða.

Í 6.kafla Stofnsáttmálans er kveðið á um að ráðið geti krafist þess að deilendur geri upp ágreiningsefni sín. Það getur mælt með „hæfilegum aðgerðum eða aðferðum til leiðréttingar á deilumáli eða vandamáli“. Ráðið getur einnig vísað ágreiningsmálum til Alþjóðadómstólsins.

Þá getur Öryggisráðið í vissum tilfellum, með vísan til 6.kafla stofnsáttmálans, beitt refsiaðgerðum. Þegar öll önnur úrræði til friðsamlegrar lausnar eru þrotin getur Öryggisráðið heimilað valdbeitingu. Annað hvort af hálfu aðildarríkja, hóps aðildarríkja eða friðargæslusveita á vegum samtakanna til að viðhalda eða endurreisa frið og öryggi á alþjóðlegum vettvangi.

Hvað er neitunarvald og hvernig má beita því?

Vassilí Nebenzia fastafulltrúi Rússlands á fundi Öryggisráðsins.
Vassilí Nebenzia fastafulltrúi Rússlands á fundi Öryggisráðsins. Mynd: UN Photo/Mark Garten

Atkvæðagreiðslur í Öryggisráðinu fara fram samkvæmt 27.grein Stofnsáttmálans. Hvert aðildarríki ráðsins hefur eitt atkvæði.

Þegar atkvæði eru greidd um „fundarsköp“ (procedural matters), nægir að níu ríki greiði atkvæði með tillögu til þess að hún nái fram að ganga. Í öllum öðrum málum þarf níu atkvæði, „að meðtöldum atkvæðum hinna föstu meðlima.“

Með öðrum orðum þá nægir að eitt ríkjanna fimm, sem hafa fast sæti í Öryggisráðinu, greiði atkvæði gegn tilllögu til að hún nái ekki fram að ganga.

Getur Allsherjarþingið gripið inn í þegar Öryggisráðið nær ekki samstöðu um að stöðva hernað?

Fjölskylda sem leitaði hælis í Berdyszcze í Póllandi.
Fjölskylda sem leitaði hælis í Berdyszcze í Póllandi. Mynd: UNICEF/Tom Remp

Árið 1950 samþykkti Allsherjarþingið ályktun 377A (V), sem oft er kennd við „Sameinuð í þágu friðar.“ Samkvæmt henni er Allsherjarþinginu gefin völd til að mæla með að aðildarríkin grípi til sameiginlegra aðgerða til að viðhalda eða koma á alþjóðlegum friði og öryggi.

Að auki má boða Allsherjarþingið til sérstaks neyðarfundar ef níu aðildarríki Öryggisráðsins eða meirihluti aðildarríkja samtakanna óska þess.

Munurinn er hins vegar sá að ólíkt samþykktum Öryggisráðsins eru ályktanir Allsherjarþingsins ekki bindandi og því ber ríkjum ekki skylda til að fara eftir þeim.

Er hægt að binda enda á aðild ríkja að Sameinuðu þjóðunum?

Allsherjarþingið harmaði brot Rússlands á Stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna með árásinni á Úkraínu.
Allsherjarþingið harmaði brot Rússlands á Stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna með árásinni á Úkraínu. Mynd: UN Photo/Loey Felipe

Í 6.grein Stofnsáttmálans segir: „Allsherjarþingið getur eftir tillögu öryggisráðsins tekið úr bandalaginu meðlim, sem hefur hvað eftir annað brotið grundvallarreglur þessa sáttmála“.

Þetta hefur aldrei gerst í sögu Sameinuðu þjóðanna.

Í 5.grein margnefnds Stofnsáttmála segir hins vegar að „allsherjarþingið (geti) þá eftir tillögu öryggisráðsins tekið af honum heimild til að nota réttindi og sérréttindi meðlima.“ Þetta felur í sér að hægt sé að víkja ríki af Allsherjarþinginu, en eingöngu að tillögu Öryggisráðsins.

Ef eitt af þeim ríkjum sem þar á fast sæti á í hlut, þyrfti það því að samþykkja sjálft brottrekstur sinn eða tímabundna brottvikningu af Allsherjarþinginu. Önnur leið til að víkja slíku ríki úr samtökunum væri að breyta Stofnsáttmálanum, eins og kveðið er á um í 18.kafla hans.

Nelson Mandela, þá varaforseti Afríska þjóðarráðsns ávarpar sérstaka nefnd SÞ um kynþáttaaðskilnað 1990.
Nelson Mandela, þá varaforseti Afríska þjóðarráðsns ávarpar sérstaka nefnd SÞ um kynþáttaaðskilnað 1990.

Dæmi er um að Sameinuðu þjóðirnar haf svipt ríki tímabundið setu á Allsherjarþingi, en það ríki átti ekki fast sæti í Öryggisráðinu. Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna neitaði að samþykkja umboð fulltrúa Suður-Afríku frá 1970 til 1974. Svo fór að Suður-Afríku settist ekki aftur á Allsherjarþingið fyrr en kynþáttaaðskilnaðarstefnan var afnumin 1994.

Hvaða hlutverki hefur aðalframkvæmdastjórinn að gegna?

Þótt ekkert sé kveðið á um það í Stofnskránni hefur aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna haft hlutverki að gegna í friðarviðleitni. Ýmist beitir hann sér, opinberlega eða að tjaldabaki í krafti hlutleysis síns og óhlutdrægni, í því skyni að hindra að deilur brjótist út á alþjóðavettvangi, stigmagnist eða breiðist út.

Í lok marsmánaðar fól núverandi aðalframkvæmdastjóri, António Guterres, Martin Griffiths, framkvæmdastjóra hjálparstarfs Sameinuðu þjóðanna, að kanna möguleika á vopnahléi í mannúðarskyni í stríði Rússlands og Úkraínu.

Sá nánar hér.