Ísland hafði áhrif á Sjálfbæru þróunarmarkmiðin

0
486
barbershop

barbershop

24.október 2015. Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra segir að umbóta sé þörf á starfi Öryggisráðsins, ekki sé von á nýju framboði af Íslands hálfu til þess eða Mannréttindaráðsins en að við getum verið stolt af framlagi okkar til Sameinuðu þjóðanna á afmælisári þeirra. Norræna fréttabréf UNRIC tók viðtal við Gunnar Braga í tilefni afmælisins.

UN70 Logo Icelandic horizontal outlinedÞegar litið er til baka er hægt að fullyrða að Sameinuðu þjóðirnar hafi staðið undir þeim væntingum sem til þeirra hafa verið gerðar?

Við stofnun Sameinuðu þjóðanna í kjölfar blóðugra átaka seinni heimstyrjaldar voru vissulega uppi miklar væntingar. Friðarþráin var slík og enginn vildi upplifa slíkt stríð aftur eins og kristallast í texta fyrstu greinar sáttmála SÞ þar sem kveðið er á um að „bjarga komandi kynslóðum undan hörmungum ófriðar, sem tvisvar á ævi vorri hefur leitt ólýsanlegar þjáningar yfir mannkynið“.

GunnarBragiöryggisSameinuðu þjóðirnar hafa ætíð sætt gagnrýni og hægt er að benda á mörg tilfelli þar sem SÞ hafa ekki staðið sig sem skyldi. Öryggisráðið er langt frá því að vera fullkomið, notkun neitunarvaldsins þar er of tíð og það virðist vera mjög erfitt fyrir ráðið að grípa inn í átök ef um hagsmuni eins fasts aðildarríkis er að ræða. Á hinn bóginn er mjög erfitt að ímynda sér heiminn án Sameinuðu þjóðanna.

Fyrir Ísland hefur þróun alþjóðalaga eins og hafréttarsamningsins verið afar mikilvæg. Þá hefur mannréttindayfirlýsing SÞ og mannréttindasáttmálarnir lagt grunn að því hvernig fulltrúar ríkisvalds eigi að koma fram gagnvart samborgurum sínum. Sjálfsagt er mörgu ábótavant en eftirlitskerfi mannréttindaráðsins og fleiri nefndir og ráð styrkja verulega stöðu mannréttinda í heiminum og styðja framþróun.

Ef nokkuð er kannski of mikið einblínt á hlutverk öryggisráðsins. Framkvæmdastjórinn gegnir lykilhlutverki í að fyrirbyggja að átök brjótist út – til þess beitir hann sérlegum erindrekum. Núverandi framkvæmdastjóri Ban Ki-moon hefur, eins og allir fyrirrennarar hans, unnið hörðum höndum í að vinna á bak við tjöldin í þágu friðar.

SÞ hafa gegnt mikilvægu hlutverki í þróun fátækra ríkja. Þúsaldarmarkmiðin hafa lýst stefnumiðum og hafa verið mörgum ríkjum mikilvægur GBEliassonleiðarvísir til að bæta verulega úr. Nú hafa aðildarríkin sett sér ný altæk markmið um sjálfbæra þróun, heimsmarkmið, sem miðað er við að náist fyrir árið 2030. Það er von okkar að með þeim verði gagnger breyting á hugarfari fólks hvað varðar aukna sjálfbærni í nýtingu auðlinda og að hagur fátækasta fólks jarðar muni batna til muna.

Hvaða úrbætur telur þú vera nauðsynlegar?

Öryggisráðið hefur ekki staðið sig sem skyldi undanfarin ár eins og til dæmis staðan í Sýrlandi sýnir glöggt. Þá blasir við sú staðreynd að ekki hefur tekist að finna lausn á deilu Ísraels og Palestínu sem hefur þó verið á borði SÞ næstum frá upphafi. E.t.v. er ekki raunhæft að ætla sér að afnema neitunarvaldið, en hins vegar þarf að finna leiðir til að takmarka notkun þess. Þess vegna hefur Ísland til dæmis stutt frumkvæði Frakka og Mexíkó um að fá fastaríkin fimm til að skuldbinda sig til beita ekki neitunarvaldi ef um fjölda- eða þjóðarmorð er að ræða. Þá höfum við ítrekað bent á að skipan mála í öryggisráðinu, ekki síst með tilliti til fastaríkjanna, tekur mið af heimsmyndinni árið 1945. Síðan þá hefur augljóslega margt breyst.

GunnarBragiBan Ki-moon hefur látið gera þrjár mikilvægar skýrslur um friðaraðgerðir, friðaruppbyggingu og stöðu kvenna í friðaraðgerðum og öryggismálum. Ísland styður eindregið tillögurnar sem eru settar fram í þessum skýrslum. Meðal annars er bent á að vernd óbreyttra borgara sé verulega ábótavant og að kynferðismisnotkun af hálfu friðagæsluliða verði ekki liðin.

Ísland leggur mikla áherslu á jafnréttismálin og við teljum að SÞ, sem eru æðsti vettvangur alþjóðasamskipta, eigi að endurspegla þá sjálfsögðu kröfu sem uppi er um jafnan rétt kvenna og karla. Ég tel mikilvægt, og nefndi það í ræðu minni á allsherjarþinginu í síðasta mánuði, að næsti framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna verði kona og mun ég gera mitt til að afla því stuðnings.

Hvað telur þú það mikilvægasta sem Ísland hefur haft fram að færa á vettvangi Sameinuðu þjóðanna? Og hvað hefur verið Íslandi mikilvægast sem Sameinuðu þjóðirnar hafa haft fram að færa?

Ísland hefur á undanförnum árum beitt sér fyrir vitundarvakningu á þeim fjórum sviðum sem við höfum mesta reynslu af að takast á við. Í gegnum Háskóla Sameinuðu þjóðanna höfum við getað miðlað reynslu okkar á sviði landgræðslu, endurnýjanlegrar orku, sjávarútvegs og kynjajafnréttis til sérfræðinga alls staðar að úr heiminum . Það er því við hæfi að við sinnum einnig alþjóðlegri stefnumótun á þessu sviði.

Ísland lagði til dæmis sín lóð á vogaskálarnar í samningaviðræðum um heimsmarkmiðin og náði inn áherslum sem við teljum skipta miklu máli. Í þessu samhengi má nefna markmið um að stemma við landeyðingu en með róttækum aðgerðum í þeim málaflokki má lyfta Grettistaki, bæði hvað varðar fæðuöryggi og loftlagsbreytingar. Þannig eru öll heimsmarkmiðin tengd og ekkert þeirra mun nást án þess að hugsað verði um þau heildstætt.

Það sama á við um sjálfbæra orku og málefni sjávar sem bæði hafa áhrif á loftlagsbreytingar auk margra annarra þátta. Jafnréttið og valdeflingBarbershop2 kvenna kemur við sögu í nær öllum málaflokkum. Til að mynda mun aukin dreifing og nýting sjálfbærrar orku létta störf kvenna í fátækustu ríkjunum þar sem ómæld vinna fer í að sækja eldivið. Aukin tækifæri fyrir konur til að taka þátt í samfélaginu og efnahagskerfinu bætir ennfremur kjör og menntunarstig barna. Margfeldiáhrifin eru augljós og ég trúi því að okkar framlag hafi skipt verulegu máli. Að síðustu má nefna taugasjúkdóma, en þeir eru óumdeilanlegur hluti af markmiðum sem lúta að ósmitbærum sjúkdómum.

Að lokum: Telur þú koma til greina að Ísland sækist eftir frekari vegtyllum hjá Sameinuðu þjóðunum, svo sem aðild að Mannréttindaráðinu eða jafnvel nýtt framboð til Öryggisráðsins?

Ísland hefur margt fram að færa og við eigum alltaf að hafa metnað til að láta gott af okkur leiða. Undanfarin ár höfum við einbeitt okkur að ákveðnum málefnum og viðfangsefnum þar sem við höfum verulega sérþekkingu fram að bjóða, líkt og í jafnréttismálum og sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda. Við skulum ekki útiloka neitt til framtíðar litið en eins og sakir standa er ekki á döfinni að sækja um sæti í Mannréttindaráðinu eða öryggisráðinu. Við hefðum vitanlega þar margt fram að færa, en við verðum líka að sníða okkur stakk eftir vexti hverju sinni. Slík framboð kalla á mikinn undirbúning og fjármuni, og sem stendur tel ég kröftum okkar betur varið í önnur brýn viðfangsefni á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, og tel raunar að við getum verið mjög stolt af okkar framlagi á þessu merka afmælisári.

Myndir: 1. ) Á efstu myndinni sést Gunnar Bragi utanríkisráðherra í klippingu í tilefni af ráðstefnunni um jafnréttismál sem kennd var við rakarastofu í New York fyrir tæpu ári. 2.) Utanríkisráðherra ávarpar Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna á opnum fundi þess. 3.) Gunnar Bragi ásamt Jan Eliasson, vara-aðalframkvæmdastjóra SÞ. 4.) Ban Ki-moon boðinn velkominn fyrir utan ráðherrabústaðinn, Gréta Gunnarsdóttir, sendiherra, fyrir miðju. 5.) Rakarstofuráðstefnan í New York.