Ísland lagði áherslu á mikilvægi fjölþjóðasamvinnu

0
608
Ávarp utanríkisáðherra á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna
Ávarp utanríkisáðherra á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna

Mikilvægi fjölþjóðasamvinnu var meginstefið þegar Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra ávarpaði allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í dag. Sameinuðu þjóðirnar fagna 75 ára afmæli sínu á árinu. En vegna heimsfaraldurs hafa hátíðarhöld og allsherjarþingið verið með öðru sniði en fyrri ár.  

Guðlaugur Þór ávarpaði 75. allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í almennum umræðum þjóðarleiðtoga og ráðherra sem stendur nú yfir. Ráðamenn geta ekki sótt þingið í New York vegna heimsfaraldursins. Var því ávarp utanríkisráðherra flutt af myndbandi.

Guðlaugur Þór brýndi ríki heims til að fylkja sér um fjölþjóðlega samvinnu. Hún væri nauðsynleg til að ráða fram úr helstu áskorunum samtímans. Þá benti Guðlaugur Þór á að rétt eins og þegar Sameinuðu þjóðirnar voru stofnaðar fyrir 75 árum væru nú uppi miklir óvissutímar í heiminum. Þá eins og nú væri mannkyninu betur þjónað með samvinnu en sundrungu. „Á þessum tímamótum eigum við að minnast þess hvernig Sameinuðu þjóðirnar hafa stuðlað að þróun og framförum. Þær eru jafnframt veigamesta friðarframtak vorra tíma,“ sagði Guðlaugur Þór.

Endurnýjanlegir orkugjafar -kynjamsrétti

Ávarp utanríkisráðherra
Séð úr sæti Íslands á Allsherjarþinginu

Þá vakti ráðherra máls á þýðingu endurnýjanlegra orkugjafa í baráttunni gegn loftslagshlýnun. Sjálfbær nýting hafsins og aðgerðir til að sporna við mengun væri brýn. Þar væri alþjóðahafréttur sá grundvöllur sem byggja þyrfti á. Ísland byggi í þessum sviðum yfir reynslu og sérþekkingu sem áfram yrði unnið að því að deila með öðrum þjóðum.

Guðlaugur Þór undirstrikaði einnig mikilvægi kynjajafnréttis. Hann sagði of hægt miða í áttina að því að ná fimmta heimsmarkmiðinu. Það kveður á um jöfn tækifæri og réttindi kynjanna. Þar hefði heimsfaraldurinn gert illt verra. Ísland myndi áfram leggja sitt af mörkum. Landið myndi beita sér fyrir framförum sem forysturíki í átaksverkefninu Kynslóð jafnréttis, sem sett var á laggirnar fyrr á árinu. Aðgerðabandalagið sem Ísland leiðir hefur að markmiði að uppræta kynbundið ofbeldi í heiminum.

Mannréttindi

Utanríkisráðherra gerði mannréttindi jafnframt að sérstöku umtalsefni enda ættu þau víða undir högg að sækja. „Meðan á setu Íslands í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna 2018-2019 stóð var það einarður vilji íslenskra stjórnvalda að sýna fram á að jafnvel smærri ríki geti lagt þung lóð á vogarskálarnar í þágu þeirra sem sæta kúgun og mannréttindabrotum,“ sagði Guðlaugur Þór. Hann sagði mannréttindaráðið alls ekki gallalaust. Of mörg aðildarríki sinntu í engu þeirri meginskyldu sinni að sýna gott fordæmi. Það fæli í sér að leita sér fyrir því að bæði verja og efla mannréttindi. Baráttunni yrði hins vegar að halda áfram og á þeim grunni hefði Ísland ákveðið að sækjast aftur eftir setu í ráðinu kjörtímabilið 2025-2027.

Alheimsvopnahlé

Þá þakkaði Guðlaugur Þór António Guterres, aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, fyrir að beita sér fyrir alheimsvopnahléi. Allar þjóðir ættu að styðja þá viðleitni, ekki síst þær sem hefðu völd til að hafa áhrif á framvinduna. Í þessu sambandi hvatti hann meðal annars til þess að pólitískra lausna yrði leitað til að koma á friði í Sýrlandi, Jemen og Líbíu, það yrði að gerast með stuðningi stríðandi fylkinga. Þá yrði jafnframt að blása nýju lífi í friðarferlisins fyrir botni Miðjarðarhafs. Pattstaðan sem þar ríkti gerði vonir um tveggja ríkja lausnina enn veikari. “Nærri mínum heimahögum í Evrópu halda viðvarandi brot Rússa á fullveldi Úkraínu og Georgíu og friðhelgi yfirráðasvæðis þeirra að grafa undan friði og stöðugleika. Þróunin að undanförnu í Hvíta-Rússlandi er líka mikið áhyggjuefni,” sagði Guðlaugur Þór í ræðunni.

Heimild: texti og myndir  Utanríkisráðuneytið