Jafnrétti: Íslandi hrósað

0
551
Greta

Greta

17. febrúar 2016. Nefnd Sameinuðu þjóðanna um afnám misréttis gegn konum (CEDAW) fór í dag yfir sjöundu og áttundu reglubundnu skýrslur íslenskra stjórnvalda um frammistöðu landsins í að framfylgja Alþjóðsáttmála um þetta efni sem Ísland á aðild að.

Gréta Gunnarsdóttir, mannréttindasendiherra Íslands sagði meðal annars að þátttaka íslenskar kvenna í atvinulífi hefði stöðugt aukist undanfarna áratugi, þrátt fyrir fjármálakreppuna 2008.

Hún benti á að Ísland hefði verið hæst á lista World Economic Forum um jafnrétti sjöunda árið í röð þegar hann var birtur í nóvember 2015.

Samt sem áður væri mikið verk að vinna til að brúa bilið í jafnréttismálum; til dæmis að tryggja jöfnuð hvað pólitískt- og efnahagslegt vald snertir, og útrýma hvers kyns kynbundnu ofbeldi.

Gréta Gunnarsdóttir, kynnti lagasetningu og aðgerðir Íslands til að valdefla konur, berjast gegn mismunun á vinnumarkaði, launamun, aðgengi að menntun og atvinnu og aðgerðir til að hindra kynbundið ofbeldi.

Í umræðum í kjölfarið hrósuðu sérfræðingar árangri Íslands í að draga úr mismunun gegn konum, auk aðgerða til að mæta efnahagskreppunni 2008. Sérfræðingar hörmuðu þó að ekki væri hægt að taka Sáttmálann um afnám mismununar gegn konum beint upp í íslensk lög. Hins vegar var viðleitni Íslands til að tryggja jöfnuð á milli kynjanna fagnað, en bent á að við ramman reip væri að draga staðbundið og innan opinbera geirans.

Mismunun gegn konum væri þrálátt vandamál á vinnumarkaði. Þá væri það áhyggjuefni hve fáar kærur bærust vegna kynferðislegs ofbeldis.

Auk mannréttindasendiherrans sátu fulltrúar utanríkis-og velferðarráðuneyta fundinn og fulltrúar fastanefnda Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum í Genf og í New York.

Sjá einnig hér. 

Á myndinni sést Gréta Gunnarsdóttir afhenda Ban Ki-moon, trúnaðarbréf sem fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum en hún er nú mannréttindasendiherra í Utanríkisráðuneytinu. 

(Frétt frá Sameinuðu þjóðunum í Genf).