Jöfn laun kynjanna eftir 257 ár

0
747
Jafnlaunadagur
Mynd: Malu Laker/Unsplash

Antonío Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna segir að heimsfaraldurinn hafi aukið launamun kynjanna. Alþjóðlegur dagur jafnlauna er haldinn 18.september.

„COVID-19 hefur dregið fram í dagsljósið djúpstætt óréttlæti: ógreidda vinnu kvenna við að ala upp börn og sjá um fólk sem ekki getur séð umsig sjálft,“ segir Guterres í ávarpi á alþjóðlega jafnlaunadeginum.

„Með því að ýta umönnunarstörfum út úr formlega efnahagslífinu hefur heimdsfaraldurinn ýtt undir launabil kynjanna.“

Jafnlaunadagurinn er haldin í annað skipti til þess að minna á þann árangur sem náðstð hefur og það sem verk sem óunnið er.

Barátta fyrir mannréttindum

Mynd: ILO

Alþjóðlegi dagurinn er haldinn í samræmi við stefnumið Sameinuðu þjóðanna og baráttu þeirra fyrir mannréttindum og gegn hvers kyns mismunun. Á Alþjóðlega jafnlaunadaginn er minnt á nauðsyn þess að kynja og jafnréttissjónarmiða sé gætt í viðleitni til að jöfnuðar í efnahagsþróun.

Þessi sjónarmið rúmast innan tveggja Heimsmarkmiðanna. Annars vegar heimsmarkmiðs númer fimm um jafnrétti kynjanna og hins vegar númer átta um sómasamlega vinnu og hagvöxt.

Þótt markmiðin séu vel skilgreind hefur árangur við að jafna laun kynjanna verið hægur. Hvarvetna í heiminum standa konur höllum fæti efnahagslega og er launamunur kynjanna á heimsvísu nútalinn vera 23%.

Á Norðurlöndum hefur náðst árangur en langt er í land engu að síður. Launamunurinn er enn töluverður og því er átaks þörf.

Launamunur karla og kvenna hefur dregist saman á Íslandi síðustu ár samkvæmt rannsóknum Hagstofu Íslands.  Konur voru að jafnaði með 4,3% lægri laun en karlar árið 2019 í stað 6,2% árið 2010 sé tekið mið af leiðréttum launamun. Leiðréttur launamunur metur hvort karlar og konur með sömu eiginleika eða þætti (að meðaltali) fái sambærileg laun. Óleiðréttur launamunur var 13,9% árið 2019. Ef horft er til atvinnutekna, þar sem ekki er tekið tillit til áhrifaþátta sem geta skýrt misháar tekjur svo sem vinnutíma og starfs, voru konur að jafnaði með 25,5% árið 2019.

Í Noregi fá konur sem eru í fullu starfi 20% lægri laun en karlar og í Svíþjóð eru meðalmánaðarlaun kvenna 90.2% af launum karla.

Heimlisstörf og hlutastörf  

 Rannsóknir hafa leitt í ljós að kynbundin uppbygging vinnumarkaðarins er helsta orsök launabilsins. Störf kvenna og störf þar sem konur eru fjölmennar eru vanmetin. Að auki þróast launabilið á árunum þegar konur eru að sinna ungum börnum.

Jöfn laun kynja
Mynd: Lukasz Radziejewski/Unsplash

Þriðja hver kona í Svíþjóð vinnur hlutastarf en aðeins tíundi hver karl. Ein ástæðan er skortur á hentugum heilsdagsstörfum fyrir konur. Önnur ástæða er hve konur eru hlutfallslega fjölmennar í umönnun barna og aldraðra.

Pólitískar aðgerðir

Pólitískar aðgerðir og fjölskylduvæn stefnumörkun stuðlar að góðu jafnvægi á milli atvinnu og einkalífs. Hér má sérstaklega nefna leikskóla á viðráðanlegu verði. Þeir koma vitaskuld báðum kynjum til góða. Á Norðurlöndum hafa slíkar aðgerðir skilað miklum árangri. En þetta er algjör undantekning í heiminum.

Aukin þátttaka kvenna í stjórnmálum hefur haft í för með sér aukna áherslu á jöfn laun og jafnrétti kynjanna. Enga að síður eru karlar ráðandi víðast hvar í stjórnmálum.

Án jafnrar þátttöku kynjanna í lands- og sveitastjórnarmálum, er líklegt að framfarir verði hægfara í málefnum sem snerta konur sérsatklega og sameiginlegum aðgerðum til að efla jafnrétti. Þetta á við um efnahagslega þátttöku og tækifæri.

Breytingar á löggjöf eru þýðingarmiklar til að greiða fyrir jöfnum tækifærum og launum. En breyttrar félagslegra viðhorfa er þörf um ógreidd heimilisstörf og virði svokallaðra „kvennastarfa“.

Það yrði bylting í baráttunni fyrir auknum mannréttindum og jafnrétti ef launabil kynjanna yrði brúað. Alþjóðlegi jafnlaunadagurinn er áminning um það verk sem þarf að vinna. Hann er líka ákall um raunhæfar aðgerðir um allan heim.

 Vissir þú?

  • Konur fá í laun 77 cent fyrir hvern dollar sem karlar fá eða 77 aura fyrir hverja krónu fyrir sömu störf. Bilið er enn breiðara hjá konum með börn.
  • Á núverandi hraða mun það taka 257 að brúa launabilið í heiminum.
  • Konur eru hlutfallslega fjölmennastar í lægri hluta launastigans, þar sem lítillar hæfni er þörf og atvinnuöryggi er lítið. Þær eru hlutfallslega of fáar þar sem ákvarðanir eru teknar.
  • Konur vinna tvisvar og hálfum sinnum meiri ógreidda vinnu á heimilinu en karlar.