Kreppan hefur konuandlit

0
731
Alþjóðlegur dagur kvenna
Mynd: David Ramos/Unsplash

António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna birtir í dag grein í tilefni af Alþjóðlega kvennadeginum í fjölmörgum dagblöðum í heiminum, þar á meðal Morgunblaðinu.

Greinin fer hér á eftir í heild.

Kreppan hefur konuandlit

-eftir António Guterres aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna

Haldið er upp á Alþjóðlega kvennadaginn í miðjum heimsfaraldri. Segja má að COVID-19 kreppan hafi konuandlit.

Faraldurinn hefur aukið á þrálátan og djúpstæðan ójöfnuð sem konur og stúlkur glíma við. Hann hefur þurrkað út árangur sem náðst hefur á mörgum árum í átt til jafnréttis kynjanna.

Konur eru líklegri til að vinna í þeim greinum sem harðast hafa orðið úti í faraldrinum. Konur eru fjölmennastar í framlínustörfum. Margar þeirra tilheyra hópum sem eru jaðarsettir sökum kynþáttar eða uppruna og eru neðstir í efnahagslegri goggunarröð.

Ógreidd umönnun aukist

Alþjóðlegur dagur kvenna
Mynd: Aditya Nara/Unsplash

Konur eru 24% líklegri til að missa vinnuna og verða fyrir tekjuhruni. Kynbundinn launamunur sem var verulegur fyrir, hefur enn aukist, þar á meðal í heilbrigðisgeiranum.

Ógreidd umönnun hefur aukist verulega vegna fyrirskipana um að halda sig heima og lokun skóla og barnagæslu. Milljónir stúlkna munu kannski aldrei snúa aftur í skóla. Mæður, sérstaklega einstæðar, hafa mátt þola skelfilegt andstreymi og kvíða.

Faraldurinn hefur verið olía á eld samhliða faraldurs kynbundins ofbeldis. Mikill vöxtur hefur hlaupið í heimilisofbeldi, mansal, kynferðislega minsotkun og barnahjónabönd.

Konur vinna – karlar ákveða

Jafnvel þótt konur séu meirihluti heilbrigðisstarfsmanna bendir nýleg rannsókn til að aðeins 3.5% COVID-19 átakshópa séu jafnt skipaðir konum og körlum. Í heimsfréttum af faraldrinum er aðeins fimmti hver sérfræðingur sem vitnað er til kvenkyns.

Öll slík útilokun felur í sér neyðarástand. Þörf er á alheims-átaki til að koma konum í forystu og tryggja jafna þátttöku. Og það er ljóst að slíkt átak kæmi öllum til góða.

Þar sem konur eru í forystu

Guterres Konur
María Fernanda Espinosa Garcés forseti 73.Allsherjarþings SÞ, Kersti Kaljulaid, forseti Eistlands, Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, og Paula-Mae Weekes, forseti Trínídad og Tobago á fundi um konur í forystu á vegum SÞ. UN Photo/Mark Garten

Viðnámið við COVID-19 hefur sýnt fram á afl og skilvirkni kvenna þar sem þær eru í forystu. Síðastliðið ár hefur tíðni smita verið minni í ríkjum sem stýrt er af konum og þau eru oft betur í stakk búin til að takast á við endurreisnarstarf.

Kvennasamtök hafa víða hlaupið í skarðið þar sem skortur hefur verið á þýðingarmikilli þjónustu og upplýsingum.

Hvarvetna þar sem konur hafa stýrt ríkisstjórnum hefur verið fjárfest meira í félagslegri vernd og baráttu gegn fátækt. Þar sem konur sitja á þingi, hafa ríki samþykkt ákveðnari aðgerðir í loftslagmálum. Þar sem konur eiga sæti við samningaborðið í friðarviðræðum er friður varanlegri.

Engu að síður eru konur aðeins fjórðungur þingmanna á löggjafarþingum í heiminum, þriðjungur sveitarstjórnarmanna og fimmtungur ráðherra. Miðað við núverandi þróun næst jöfnuður á þjóðþingum fyrir 2063. Taka mun heila öld að jafna stöðuna í forystu ríkisstjórna.

Jafnrétti í forystu SÞ

Alþjóðlegur dagur kvenna
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra

Takast verður á við þetta ójafnvægi til að bæta framtíðina. Konur hafa jafnan rétt til að tala af ábyrgð um þær ákvarðanir sem snerta líf þeirra. Ég er stoltur af því að segja frá því að við jafn margar konur og karlar eru í forystusveit Sameinuðu þjóðanna.

Endurreisnin að loknum faraldrinum gefur okkur tækifæri til að marka nýja og jafnari braut. Stuðnings- og hvata-áætlunum ber að beinast sérstaklega að konum og stúlkum, þar á meðal með því að auka fjárfestingu í innviðum umönnunar. Formlega hagkerfið virkar eingöngu vegna þess að það er niðurgreitt í krafti ógreiddrar vinnu kvenna við umönnun.

Eftir því sem við réttum úr kútnum eftir kreppuna, ber okkur að feta okkur áfram í átt til grænnri og óbrotgjarnari framtíð fyrir alla. Ég hvet alla leitðoga til að huga að sex grundvallaratriðum:

Sex forgangsatriði

Alþjóðlegur dagur kvenna
António Guterres

Í fyrsta lagi að tryggja jöfnuð kynjanna hvort heldur sem er í stjórnum fyrirtækja eða á þjóðþingum, í æðri menntun eða opinberri stjórnsýslu með sérstökum aðgerðum og kvótum.

Í öðru lagi að fjárfesta umtalsvert í umönnun og félagslegri vernd. Endurskoða ber útreikning þjóðarframleiðslu með það í huga að heimilisstörf verði sýnileg og tekin með í reikninginn.

Í þriðja lagi að fjarlægja hindranir fyrir fullri þátttöku kvenna í efnahagslífinu. Ryðja þarf hindrunum úr vegi fyrir aðgangi að vinnumarkaði, tryggja fullan eignarrétt og greiða fyrir sérstökum lánum og fjárfestingum.

Í fjórða lagi ber að fella úr gildi löggjöf sem felur í sér mismunun. Þetta á við um atvinnuréttindi, réttindi til landareignar, persónulega stöðu og vernd gegn ofbeldi.

Í fimmta lagi ber hverju ríki að hrinda í framkvæmd neyðaráætlun til að uppræta ofbeldi gegn konum og stúlkum með fjármögnun, stefnumörkun og pólitískum vilja til að benda enda á þennan ófögnuð.

Í sjötta lagi þarf að breyta hugarfari, vekja almenning til vitundar og skora á hólm kerfisbundna fordóma.

Veröldin hefur tækifæri til að snúa baki við kynslóðagamalli, djúpstæðri og kerfisbundinni mismunun. Það er kominn tími til að byggja upp framtíð á grunni jafnréttis.