Löngun til menntunar, eftir Asha-Rose Migiro

0
466

Í starfi mínu felst að í ferð nýlega hitti ég  með nokkurra klukkutíma millibili forseta lands og blásnauða heimilislausa móður. En merkilegt nokk höfðu  bæði sömu sögu að segja.

Þremur mánuðum eftir jarðskjálftann sem herjaði á Haítí tók Préval, forseti á móti mér í látlausri skrifstofu sinni í Port au Prince, í garðinum fyrir aftan rústir forsetahallarinnar. Hann sagði mér strax að menntun yrði að vera hornsteinn alþjóðlegrar viðleitni til að endurreisa Haítí. Án menntunar væri engin framtíð.

Skömmu síðar, heimsótti ég tjaldborg sem hýsir þúsundir heimilislausra fjölskyldna. Grannvaxin móðir ýtti bjarteygu barni sínu að mér, varla meir en átta ára gömlu. “Hann vill læra,” sagði hún mér ákveðið en rólega. “Gefið honum tækifæri.”

Tvær manneskjur á ólíkum stað í lífinu en höfðu sömu sögu að segja; sömu sögu og ég heyrði aftur og aftur þá tvo daga sem ég dvaldi á Haítí. Haítíbúar vilja aðstoð okkar. En þeir vilji sjálfir endurreisa Haítí. Og endurreisnin hefst í skólastofunum.

Menntun er hvarvetna ávísun á þokkalega atvinnu en þó sérstaklega á Haítí þar sem atvinnuleysi er mikið og atvinna af skornum skammti. En það hangir fleira á spýtunni. Skólar bjóða ekki bara upp á kennslu. Þeir eru í hugum barnanna tákn um að lífið gangi sinn vana gang þrátt fyrir upplausnina. Þeir veita skjól og öryggi. Og fyrst og fremst eru þeir von um betri framtíð.

Þegar skortur er á mat, lyfjum og húsaskjóli skiptir slíkt enn meira máli en ella. Af þessum sökum hefur sveit Sameinuðu þjóðanna á Haítí – í náinni samvinnu við ríkisstjórnina og alþjóðleg hjálparsamtök- unnið að því að opna skóla á ný eins fljótt og hægt er. Mæður og börn standa sérstaklega höllum fæti. Ég dvaldi eitt síðdegi í búðum og slóst í för með næturvakt lögreglu síðar sama kvöld. Ég komst að því hvar skórinn kreppir að. Þegar rignir verður jörðinn að einni forareðju. Tjöldin hrynja og fólkið hefur engan þurran stað til að sofa. Og auðvitað þrífast glæpir og nauðganir þar sem enginn sér til.

Sameinuðu þjóðirnar hafa náð árangri í að glíma við öll þessi vandamál. Aðaltilgangur farar minnar til Haítí var að kynnast ástandinu og starfi okkar. Nú er svo komið að athyglin beinist frá fyrstu viðbrögðum við náttúruhamförunum og að því að tryggja endurreisn til lengri tíma. Ég snéri heim sannfærð um að mikilvægast sé að gera íbúunum kleyft að standa á eigin fótum. “Engar ölmusur”,  kölluðu atvinnulaus ungmenni til mín í búðunum í Leogane, þar sem  miðja jarðskjálftans var. Fjölskyldur þeirra höfðu tapað aleigunni en stolt þeirra var óskert. “Látið okkur fá skóla. Eftir það getum við reddað okkur.”

Þetta er mikil áskorun. Jafnvel fyrir jarðskjálftann var hlutfall ólæsra á Haítí með því hæsta í heimsálfunni og fjöldi skólabarna með því lægsta. Tveir af hverjum fimm fullorðnum kunnu ekki að lesa og minna en helmingur barna á grunnskólaaldri sótti skóla. Tölur um framhaldsskólagöngu voru jafnvel enn verri: aðeins 2 prósent barna útskrifuðust.

Ríkisstjórn Haítí ræður illa við þetta ástand. Mikill meirihluti skóla eru í einkaeigu; aðeins 10 til 15 prósent eru í eigu ríkisins sem á bágt með að setja eða framfylgja stöðlum.

Ég skil vel tilfinningar Haítíbúa. Í heimalandi mínu Tansaníu, var æðsti titill fyrsta forsetans: “kennari.”  Julius “Mwalimu” Nyerere, forseti lagði áherslu á að standa á eigin fótum og þar var menntun gert hæst undir höfði, hvort heldur sem er fyrir drengi eða stúlkur. Sjálf á ég starfsferil minn að þakka þessari áherslu á jafnstöðu kynjanna.

Á ráðstefnu í New York í síðastliðnum mánuði aflaði alþjóðasamfélagið fyrirheita um nærri 10 milljarða dala framlög til Haítí. Ætlunin er að nýta þessa háu fjárhæð til að fjármagna heildar-endurnýjun landsins; að “byggja betra” í stað þess sem var, svo notuð séu orð Ban Ki-moon, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna. Og menntun er lykilatriði.

Í samstarfi við ríkisstjórn Haíti og aðra samstarfsmenn, ætla Sameinuðu þjóðirnar að hleypa af stað þjóðar-átaki í menntamálum. Markmiðið er að skrá öll börn og unglinga á Haítí í skóla. Haítí þarf á samstöðu að halda. Þarfirnar eru margvíslegar: það vantar byggingarefni, heilsugæslustöðvar og lyf, mat og eldsneyti. En það þarf ekki aðeins að sinna aðsteðjandi vanda, heldur horfa til framtíðar.

Bækur, kennarar og menntun, eru efniviður nýrrar framtíðar, eins og Préval forseti og mæður margra barna sögðu mér. Þegar upp er staðið er þetta lykillinn að betra lífi og betri framtíð. Hinir útsjónarsömu og yndislegu Haítíbúar eiga ekkert minna skilið.

Höfundur er vara-framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna. Greinin birtist í Morgunblaðinu.