Loftslagsbreytingar mannskæðari en hryðjuverk

0
510

CC UK Arctic

Mars 2015. Kastljósið hefur beinst að öryggismálum í umræðum um loftslagsbreytingar á undanförnum vikum.

Á sama tíma hafa stór skref verið stigin í átt til nýs Loftslagssáttmála sem stefnt er að því að undirrita á Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í París í lok ársins. Samkomulag tókst um uppkast að samningstexta á vikulöngum fundi í Genf í febrúar. 

CC FabiusLaurent Fabius, utanríkisráðherra Frakka og gestgjafi Parísar-ráðstefnunnar varaði við því í byrjun samningahrinunnar í Genf, 8.febrúar, að öryggi heimsins væri fullt eins mikið í veði og umhverfið.

„Ég vona að mönnum þyki ég ekki taka of stórt upp í mig, en örlög jarðarinnar eru í húfi,“ sagði Fabius „Yfirborð sjávar er að hækka, höfin að súrna, fólk flosnar upp vegna loftslagsbreytinga, þurrkar eru mun skæðari en áður.“

„Og svo eru það ákveðnir þættir sem við tölum lítið um: áhrifin á öryggismál. Þegar loftslagið breytist til hins verra, þá hefur það áhrif á hnattrænt öryggi, fólk flosnar upp og leitar til annara landa og svo er barist um yfirráð yfir auðlindum, hvort heldur sem er olíu eða vatni.“

Bandaríkin: Loftslagbreytingar eru öryggisvá
Tveimur dögum fyrr, 6.febrúar, birti Bandaríkjastjórn nýja Þjóðaröryggisáætlun (National Security Strategy). Samkvæmt henni eru CC Obamaloftslagsbreytingar ógn við þjóðaröryggi Bandaríkjanna á svipaðan hátt og hryðjuverk, gereyðingarvopn og útbreiðsla sjúkdóma. „Loftslagsbreytingar eru brýn og vaxandi ógn við þjóðaröryggi okkar, og stuðla að auknum náttúruhamförum, flóttamannastraumi og átökum um grundvallar auðlindir á borð við matvæli og vatn.“

Barack Obama, Bandaríkjaforseti fylgdi nýju áætluninni úr hlaði með nokkrum viðtölum. Josh Earnest, talsmaður hans sagði að forsetinn teldi að loftslagsbreytingar hefðu áhrif á fleiri Bandaríkjamenn en hryðjuverk.

„Það sem forsetinn vill koma til skila er að ef við erum að tala um áhrif (loftslagsbreytinga) á daglegt líf Bandaríkjamanna, þá hafa þær áhrif á mun fleiri en hryðjuverk.“

Margfalt fleiri látast af völdum loftslagsbreytinga en hryðjuverka
Samkvæmt alþjóðlegri rannssókn DARA sem unnin var að beiðni 20 ríkisstjórna árið 2012, mátti rekja dauða 400 þúsund manna á einu ári um allan heim til afleiðinga loftslagsbreytinga. Sú tala er talin munu hækka í 600 þúsund 2030.
Til samanburðar var talið að 18 þúsund hefðu látist í hryðjuverkum árið 2013, óvenju mannskæðu ári. 100 þúsund létust í hryðjuverkum á því 13 ára tímabili sem rannsóknir á vegum the Institute for Economics and Peace ná til en stofnunin birtir the Global Terrorism Index.

Stjórn Obama hafði þegar beint sjónum sínum að áhrifum loftslagsbreytinga á öryggið, til dæmis þegar varnarmálaráðuneytið gaf út „Vegvísi um aðlögun að loftslagsbreytingum“ í október 2014.  Chuck Hagel, varnarmálaráðherra sagði að loftslagsbreytingar „margfölduðu“ sérhverja ógn. Þannig myndi hækkandi yfirborð sjávar og öfgaveðurfar auka hættuna sem stafaði af ýmsu öðru, svo sem smitsjúkdómum og hryðjuverkum.

Climate change Arctic Photo Flickr Klems Creative CommonsÖryggisráð Sameinuðu þjóðanna gerði loftslagbreytingar að öryggismáli árið 2007 þegar það hélt fyrstu umræður um málið. Sama ár hlutu Al Gore, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna og Loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna (IPCC) Friðarverðlaun Nóbels, sem var óbein viðurkenning á tengslum loftslagsbreytinga og friðar og öryggis.

 Í skýrslu til Öryggisráðsins árið 2009 sagði Ban Ki-moon, aðalframkvæmdastjóri samtakanna að loftslagsbreytingar hefðu áhrif á öryggi með margvíslegum hætti; til dæmis með því að ógna fæðuöryggi og heilsu manna, auk þess að stofna lífi fólks í hættu með öfgakenndu veðri. Þær hefðu neikvæð áhrif á þróun og þar með stöðugleika ríkja. Þær væru orsök fólksflutninga, samkeppni um náttúruauðlindir og ykju líkur á átökum innan ríkja sem gætu síðan haft alþjóðlegar afleiðingar. Þá gætu loftslagsbreytingar hreinlega valdið því að landsvæði hyrfu.  

Norðurskautið
Bráðnun ísins á norðurskautinu vegna hækkandi hita jarðar og hafs hefur aukið landfræði-pólitíska þýðingu heimshlutans. Nýjar siglingaleiðir um CC ARCTIC UN Mark Gartenhemskautið frá Atlantshafi til Kyrrahafs eru að opnast og aðgangur eykst að auðlindum sem áður voru í klóm ísins. Allt að 30% af þekktum birgðum gas og 13% af olíu gætu leynst undir Norðurheimskautinu eða fimmtugur alls. Þá er ógetið kols, kopars, demanta, gulls, blýs og sinks.

Hingað til hafa Norðurslóðir verið til fyrirmyndar í alþjóðlegri samvinnu. Öll aðildarríki Norðurskautsráðsins, Bandaríkin, Rússland, Kanada og Norðurlöndin, hafa lýst því yfir að þau muni hlíta ákvæðum Hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna (UNCLOS). Ríki á borð við Danmörku (fyrir hönd Grænlands), Rússland og Kanada hafa gert tilkall til svæða í kringum Norðurpólinn, en gera það í samræmi við ferli Hafréttarsáttmálans. Þá ber að geta þess að langstærstur hluti auðlinda er ekki á umdeildum svæðum, heldur innan 200 sjómílna efnahagslögsögu ríkja.

Afríka og Himalajasvæðið
CC Africa water UN JC McIlwaineReiknað er með að íbúafjöldi Afríku tvöfaldist úr einum milljarði í dag í tvo milljarða árið 2050. Slíkt hefði í för með sér mikinn ágang á náttúruauðlindir og búast má við spennu vegna baráttu um aðgang að vatni. Í grein sem Ban Ki-moon, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna skrifaði 2007, var því haldið fram að ein orsaka borgarastríðsins í Darfur-héraði í Súdan, væru loftslagbreytingar en átökin eru ein hin skæðustu í Afríku.

Climate Change Himalaya Photo Flickr Jean Pierre Dalbéra Creative CommonsEkki er síður ástæða til að gefa gaum að undanhaldi jökla í Himalajafjöllum en samkvæmt svartsýnisspám munu þeir horfnir með öllu innan 20 til 30 ára. Ár á borð við Ganges, Indus, Mekong, Yangtze og Gulá sækja vatn sitt til að stórum hluta til jöklanna en þær slökkva þorsta milljarða manna í Kína, Indlandi og öðrum ríkjum þessa heimshluta.

Indland og Kína eru fjölmennustu ríki heims og treysta á sömu uppsprettur vatns. Indland hefur yfir aðeins 4% ferskvatns í heiminum að ráða en íbúafjöldinn er 16% af íbúafjöldi heims. Kína er er ekki betur sett því þar er að finna 7% ferskvatns en 20% íbúa heimsins.

Myndir: Aðalmynd HMS Portland siglir hjá Nordenskjold jökkla í Suður-Georgíu. Ljósmyndari:Photographer: Ian Simpson

(Attribution-NonCommercial-NoDerivs 2.0 Generic (CC BY-NC-ND 2.0) https://creativecommons.org/licenses/by-nc-nd/2.0/)

Aðrar myndir: Sameinuðu þjóðirnar.