Skrifræðið er stærsta áskorunin

0
485

Main Michael Moller. Photo UN Geneva
Mars 2015. Daninn Michael Møller er þungavigtarmaður og reynslubolti í alþjóðlegu samstarfi. Hann er Norðurlandabúinn hjá Sameinuðu þjóðunum að þessu sinni. Michael Møller stýrir aðalskrifstofu Sameinuðu þjóðanna í Genf þar sem samtökin hafa höfuðstöðvar sínar í Evrópu. Hann er settur forstjóri hennar auk þess að stýra Afvopnunarráðstefnunni. Það væri að æra óstöðguan að telja upp alla starfstitla hans og vegtyllur en hann á að baki meir en þrjátíu ára feril sem alþjóðlegur embættismaður. Hann var náinn samstarfsmaður Kofi Annan, aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna og hefur starfað fyrir samtökin í fjölmörgum löndu, svo sem Íran, Mexíkó, Haítí, Kýpur auk New York og Genfar. Hann talar grísku, ítölsku, spænsku auk dönsku og ensku. En þrátt fyrir alþjóðlegt yfirbragð á hann djúpar norrænar rætur þar sem saman fer vinnusemi og opinn stjórnunarstíll.

Moller AnnanHvað varð til þess að þú fórst að starfa hjá Sameinuðu þjóðunum?
„Það var svolítil tilviljun. Ég var á leið til starfa í danska utanríkisráðuneytinu þegar hringt var í mig þaðan og spurt hvort ég vildi taka að mér svokallaða JPO stöðu í Genf en þeim fannst hún henta mér vel. Ég fór í viðtal, fékk starfið og fannst það mjög spennandi og varð eftir.”

Hvað felst í þínu starfi og hvað finnst þér áhugaverðast við það?
„Þetta er töluverð blanda. Ég er forstjóri skrifstofu Sameinuðu þjóðanna í Genf og stýri því margs konar starfi og þá ekki síst að halda 11 þúsund fundi á ári. Við sjáum um stjórnsýslu og umsýslu fyrir margar stofnanir og skrifstofur bæði í Genf og á vettvangi. Ég ber ábyrgð á tíu ára áætlun um endurnýjun alls svæðisins sem hýsir starf Sameinuðu þjóðanna hér í Genf. Þar að auki er ég framkvæmdastjóri Afvopnunarráðstefnunnar. ”

„Það sem mér þykir skemmtilegast er verkefni sem ég hleypti af stokkunum á síðasta ár og gengur út á að auka þekkingu í heiminum á því sem á sér stað hér í Genf. Segja má að verkefnisstjórn aðgerða alþjóðakerfisins sé hér í borg og það hefur áhrif á hverja einustu manneskju í heiminum hvern einasta dag ársins. Það eru fáir sem átta sig á því og því á að breyta.”

Hvað er mesta áskorunin í starfi þínu hjá Sameinuðu þjóðunum?
„Skrifræðið. Gamaldagskerfi sem er ekki lengur í stakk búið til að takast á við þau verkefni sem við glímum við í dag.”

Hvaða reynsla í starfi hefur haft mest áhrif á þig?
„Þau skipti þegar starf mitt/okkar hefur haft áhrif til góðs á líf þeirra sem við vinnum fyrir.”

Moller princessSegja má að þú sért einn hæst setti Evrópumaður í þjónustu Sameinuðu þjóðanna, hvaða áhrif hefur norrænn upprunni haft í starfi þínu hjá alþjóðasamtökum?
„Norrænu ræturnar gefa manni eilítið forskot því víða í heiminum vilja menn taka okkar samfélög sér til fyrirmyndar. Orðstír okkar er að við séum lýðræðisleg, heiðarleg, fordómalaus, hlutlaus og dugleg. Fólk sem sé auðveldara að stóla á en marga aðra.”

Myndirðu segja að það sé eitthvað sérstaklega norrænt við vinnulag þitt?
„Já áreiðanlega. Ég gef lítið fyrir goggunarröðina. Ég hef fáa fordóma. Ég hef frekar afslappaðan og opinn stjórnunarstíl og nýt þess bæði að hlusta á og tala við alla mína samstarfsmenn, sama hvar þeir eru í metorðastiganum.”

1. Michael Möller 2. Michael Möller með Kofi Annan. UN Photo/Jean-Marc Ferré 3. Michael Möller ásamt Mary Danaprinsessu og Per Stig Möller, þáverandi utanríkisráðherra Danmerkur. UN Photo/Violaine Martin