Loftslagsbreytingar hafa áhrif á sjúdómsbyrði

0
496

 Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra telur engum blöðum um það að fletta að “loftslagsbreytingar hafi þegar mikil áhrif á sjúkdómsbyrði heimsins” og þótt áhrifin hér á landing verði með minna móti, geti þær einnig haft áhrif hér.

Heilbrigðisráðuneytið gekkst fyrir ráðstefnu á Alþjóðaheilbrigðismáladaginn 7. apríl. Einkunnarorð dagsins í ár eru Heilsuvernd á tímum loftslagsbreytinga (Protecting Health from Climate Change). Markmiðið er að beina athyglinni að áhrifum loftslagsbreytinga á heilsufar í heiminum og undirbúa aðildarríkin betur að mæta þeim ógnunum sem þær kunna að hafa í för með sér á komandi tímum.
Smistjúkdómar viðkvæmir fyrir hita og rakabreytingum
Í setningarræðu sinni sagði heilbrigðisráðherra meðal annars: “Ýmsir smitsjúkdómar eru mjög viðkvæmir fyrir breytingum á hitastigi og úrkomu. Má þar nefna malaríu og aðra hitabeltissjúkdóma. Sömuleiðis eru mörg algeng dánarmein rakin beint til vannæringar eða niðurgangs. Engum blöðum er því um það að fletta að loftlagsbreytingar hafa þegar mikil áhrif á sjúkdómsbyrði heimsins og allt bendir til þess að gera megi ráð fyrir að vægi þeirra muni aukast verulega í framtíðinni.”
Guðlaugur Þór sagði að þótt áhrif loftslagsbreytinga á heilsufar íslensku þjóðarinnar yrði með minna móti miðað við aðra heimshluta gætu þó hækkandi sjávarstaða, aukin úrkoma og vaxandi ágangur sjávar haft áhrif á heilsu landsmanna. “Breytist veðurfar á Íslandi þannig að veður verði vályndari og stormar tíðari má gera ráð fyrir að slysum og dauðsföllum fjölgi í samræmi við það. Samdráttur í matvælaframleiðslu í löndum þar sem áhrif loftlagsbreytinga verða meiri en hér getur haft óbein áhrif á Ísland.”

Fyrirlestrar sérfræðinga
Á ráðstefnunni flutti Haraldur Briem, sóttvarnalæknir fyrirlestur um “Áhrif hlýnunar andrúmsloftsins á heilsufar í heiminum”, Níels Einarsson, forstöðumaður Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar ræddi um “Veðurfarsbreytingar og lýðheilsu á norðurslóðum”, Þórarinn Gíslason, prófessor og yfirlæknir fjallaði um                  “Loftsgæði og heilsu – niðurstöður úr Evrópukönnuninni”. Að fyrirlestrum loknum tóku Sigurður Guðmundsson, landlæknir, Kristín Erla Harðardóttir, framkvæmdastjóri Mannfræðistofnunar HÍ, og Eyþór Hreinn Björnsson, sérfræðingur þátt í umræðum.
Þörf auknum krafti í Þúsaldarmarkmið
Aðalforstjóri WHO, dr. Margaret Chan, mælist til þess að alþjóðasamfélagið láti heilsu fólks og velferð ganga fyrir öðru í mótun stefnu sinnar varðandi viðbrögð við loftslagsbreytingum. Jafnframt telur hún mikilvægt að meiri kraftur verði settur í aðgerðir á sviði heilsuverndar í samræmi við Þúsaldarmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Með auknu samstarfi ættu ríkisstjórnir að geta búið sig betur undir að fást við heilsufarsvandamál sem tengjast loftslagsbreytingum staðbundið sem og á heimsvísu. Dæmi um sameiginlegar aðgerðir eru aukið eftirlit og stjórnun sóttvarna, öruggari nýting á minnkandi vatnsforða heimsins, og samþætting aðgerða þegar lýðheilsu er ógnað.
Heilbrigðiskerfi á Íslandi þarf að vera viðbúið
Á þessari öld er því spáð að meðalhiti á jörðinni geti hækkað um 1–3,5°C vegna aukinna gróðurhúsaáhrifa. Þessi hitabreyting er mun meiri en náttúrulegar breytingar sem orðið hafa á loftslagi síðustu þúsund árin. Þessar breytingar og ýmislegt annað í umhverfinu munu áreiðanlega hafa áhrif á heilsufar fólks víða um heim. Spádómar varðandi Ísland gera ráð fyrir að áhrifin á heilsufar þjóðarinnar verði með minna móti. Ýmislegt bendir þó til þess að heilbrigðiskerfið verði að vera tilbúið að mæta aukningu ákveðinna heilsufarsvandamála á komandi áratugum, svo sem frjókornaofnæmi og öðrum öndunarfærasjúkdómum.
Skýrslur sérfræðinga og rannsóknir sýna að loftslagsbreytingar munu hafa vaxandi áhrif á allt líf á jörðinni og hefur athyglinni sérstaklega verið beint að atriðum sem þýðingu kunna að hafa fyrir heilsu fólks. Breytileiki og breytingar á loftslagi geta orsakað dauða og sjúkdóma sem raktir verða til náttúruhamfara eins og hitabylgna, flóða og  þurrka.