Mállaust er fólk eins og húðkeipur án húðar

0
572

 Rax2

9. ágúst 2012. Alþjóðlegur dagur frumbyggja. Íbúafjöldi Grænlands er ekki nema um sextíu þúsund eða eins og helmingur Reykvíkinga eða evrópskra bæja á borð við Gladsaxe í Danmörku eða Järfälla í Svíþjóð. Landfræðileg stærð Grænlands er hins vegar 2.2 milljónir ferkílómetrar eða fjórum sinnum stærra en Frakkland, stærsta land Vestur-Evrópu.

Eins og þetta sé ekki nægilega stór hjallur til að yfirstíga, glíma Grænlendingar, þar á meðal fjölmiðlar þeirra, við óblítt veðurfar og landfræðilega þætti á borð við jökla, hafís og fjöll – að ógleymdum vegleysum.

Engu að síður er grænlensk fjölmiðlun lífleg og Grænlendingar búa yfir bæði opinberum og einkareknum ljósvakamiðlum og tveimur alvöru blöðum auk þess sem nánast hvert mannsbarn er tengt internetinu.

Gænlenska byggir á Kalaallisut, mállýsku Vesturstrandarinnar og hún varð opinbert mál Grænlands árið 2009. Hún er náskyld mállýskum Inúíta í Kanada.

”Fjömiðlar á okkar eigin tungumáli eru þýðingarmiklir, bæði til að tengja okkur innbyrðis og ekki síður til að varðveita menninguna,” segir Mariia Simonsen, formaður grænlenska blaðamannafélagsins. “Eins og segir í gömlum grænlenskum málshætti: “Mállaust fólk er eins og húðkeipur án húðar.” Kajakin flýtur ekki án skinnsins eða húðarinnar. Hann sekkur og verður engum að gagni.”

Helstir ljósvakamiðla á Grænlandi eru ríkisútvarpið KNR (Kalaallit Nunaata Radioa), og einkarekna kapalsjónvarpsstöðin Nuuk TV í höfuðborginni.

Helstu blöðin eru Sermitsiak og Atuagagdliutit- Grænlandspósturinn sem koma út annars vegar vikulega og hins vegar tvisvar í viku.

Mariia Simonsen bendir á að það er ekki sjálfgefið að tungumál sem talað er af fimmtíu þúsund manns lifi af á okkar tímum og segir að fjölmiðlar leiki lykilhlutverk í lífsbaráttu tungumálsins.

”Tungumál þróast með notkun. Fjölmiðlarnir og ekki síst samskiptamiðlarnir eiga sinn þátt í að tungumálið lifi, þróist og aðlagist.”

Danska er fyrsta mál um 12% íbúa Grænlands og nánast allir tala dönsku sem annað mál.

”Við búum í tvítyngdu landi og enskan er líka sterk. Málið verður fyrir miklum áhrifum af dönsku og ensku og mesta hættan stafar af því að sífellt meira er þýtt á grænlensku. Margar greinar eru samdar á dönsku og síðan þýddar á grænlensku, bæði í rafrænu- og prentmiðlunum, oft undir mikilli tímapressu. Af þessum sökum eru margar málvillur og áhrifin af upphaflega málinu mikil, þar á meðal í setningabyggingu..”

Danmörk er enn gluggi Grænlands til umheimsins en það er athyglisvert að auk þess að hafa fréttaritara í Kaupmannahöfn, hefur grænlenska ríkisútvarpið fastan fréttaritara í Kanada.

”KNR er með fastan fréttaritara í Montreal sem fjallar um Inúíta í Kanda. Ríkisútvarpið er líka með reglulega þætti bæði í útvarpi og sjónvarpi um frumbyggja annars staðar en áhuginn er minni á blöðunum.”

Hefðbundnir fjölmiðlar á Grænlandi glíma við sama vanda og fjölmiðlar annars staðar svo sem samkeppni við ókeypis internetið, minnkandi auglýsingatekjur, fækkun starfsmanna og minnkandi fjárráð.

Tröllaukin stærð landsins bætist svo við og það er kaldhæðnislegt að grænlenskir fjölmiðlamenn horfa oft með öfundaraugum á fjárráð erlendra blaðamanna sem þeysast landshorna á milli.

”Eintök af vikublöðunum tveimur koma seint og síðarmeir á afskekkta staði og blöðin, sjónvarpið og útvarpið hafa ekki efni á að senda menn á staðinn. Erlendu fjölmiðlarnir geta hins vegar komið hingað og gera það gjarnan til að fjalla um fólkið hérna í tengslum við umhverfismál, náttúruna og loftslagsbreytingar og við tökum þeim tveimur höndum,” segir Mariia Simonsen.

Mynd: RAX