Mandela fagnað á afmæli

0
496

 Mandela 2

 

17. júlí 2012. Sameinuðu þjóðirnar hvetja alla íbúa heimsins til að verja 67 mínútum til að hjálpa öðrum og fagna með þeim hætti níutíu og fjögurra ára afmæli Nelsons Mandela 18. júlí. Dagurinn hefur verið Alþjóðlegur dagur Nelsons Mandela frá því Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti árið 2009 að heiðra fyrrverandi baráttumanninn og forseta Suður-Afríku fyrir framlag hans í þágu mannkynsins.

“Í dag fylki ég liði með Nelson Mandela stofnuninni og hvet hvern og einn til þess að verja 67 mínútum í almannaþágu á Alþjóðlega Nelson Mandela deginum eða einni mínútu fyrir hvert ár sem Madiba helgaði þjónustu við mannkynið,” segir Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna í ávarpi á alþjóðlega deginum.

Allsherjarþingið samþykkti að gera 18. júlí að Alþjóðlega Nelson Mandela deginum í samþykkt í nóvember 2009 í þakklætisskyni fyrir framlag hans til friðar og frelsis í heiminum. Margt má gera til að minnast dagsins: kenna barni, gefa fátækum að borða, hlúa að umhverfinu, gerast sjálfboðaliði á sjúkrahúsi eða í samfélagsþjónustu. “Grípum til aðgerða, hvetjum til breytinga, gerum hvern dag að Mandela degi,” segir Ban Ki-moon í ávarpi sínu. Sjá nánar http://www.un.org/en/events/mandeladay/

Ljósmynd: Fræg mynd af Mandela þar sem hann ávarpar Allsherjarþingið sigri hrósandi árið 1990. SÞ-mynd: Pernaca Sudhakaran