Mannréttindasérfræðingar SÞ hvetja til stillingar og gagnsærrar málsmeðferðar í Tíbet og nærliggjandi héruðum í Kína

0
486

Hópur sérfræðinga Sameinuðu þjóðanna á ýmsum sviðum mannréttinda gáfu í dag út sameiginlega yfirlýsingu um áframhaldandi mótmæli og fréttir af fjöldahandtökum á sjálfstjórnarsvæðinu Tíbet og nærliggjandi héruðum í Kína.

Þeir hvetja deilendur til stillingar og friðsemdar og fara fram á aukinn og óhindraðan aðgang blaðamanna og óháðra eftirlitsmanna að þeim héruðum sem um ræðir auk óhefts upplýsingastreymis. Þeir hvetja til þess að staðið verði í einu og öllu við alþjóðlega staðla um meðferð mótmælenda og handtekins fólks bæði í Alþýðulýðveldinu Kína og öðrum ríkjum þar sem mótmæli hafa verið. 
 
Sérfræðingarnir hvetja ríkisstjórn Kína til þess að standa við skuldbindingar sínar umað virða tjáningar- og fundafrelsi og að greina á milli friðsamra mótmælenda og ofbeldismanna. Þeir minna alla hlutaðeigandi á að virða sanngjarna málsmeðferð og réttarhöld þeirra sem handteknir eru eða sakaðir eru um glæpi, samkvæmt alþjóðlegum stöðlum. Þar á meðal að greint sé frá nafni viðkomandi, ásökunum á hendur honum og hvar viðkomandi sé í haldi auk þess að veittur sé aðgangur að lögfræðilegri aðstoð. Ríkisstjórnin er hvött til að afnema hömlur á fjölmiðla þar á meðal á vefsíðum sem takmarka aðgang almennings í Kína að upplýsingum um sjálfstjórnarhéraðið Tíbet.  
 
Sérfræðingunum hafa borist upplýsingar um handtöku meir en 570 tíbetskra múnka auk nokkurra barna 28. og 29. mars, þegar öryggissveitir gerðu atlögu að klaustrum í Ngaba og Dzoge sýslum í sjálfsstjórnarhéraðinu Tíbet. Samkvæmt fréttum var fólk handtekið, grunað um þátttöku í mótmælum og fyrir að hafa haft samband við útlæga hópa Tíbeta. Sérfræðingarnir hafa þungar áhyggjur af því að öryggissveitir hafi beitt skotvopnum í viðskiptum við mótmælendur og drepið fólk. Vegna frétta um að sjálfstæðir eftirlitsmenn og fjölmiðlar hafi verið hindraðir í að komast á þessar slóðir, hvetja sérfræðingar SÞ til fulls aðgangs og gagnsæis í málsmeðferð af hálfu yfirvalda.

Ríkisstjórn Kína hefur leyft nokkrum hópum þar á meðal blaðamönnum og diplómötum að heimsækja sjálfstjórnarhéraðið Tíbet. Slíkar heimsóknir koma þó ekki í stað heimsókna þeirra sérfræðinga Sameinuðu þjóðanna sem óskað hafa eftir leyfi til að heimsækja Kína. Óskað er sérstaklega eftir því að sérfræðingar sem Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna hefur falið að kanna tiltekin svið, þar á meðal skyndi aftökur; án dóms og laga eða af handahófi, verði leyft að heimsækja Tíbet eins og farið hefur verið fram á.

Þessi yfirlýsing var gefin út í sameiningu af meðlimum Vinnuhóps um handahófs handtökur og undir hana rita:

Philip Alston, sérfræðingur um aftökur í skyndi, án dóms og laga eða af handahófi; Ambeyi Ligabo, sérfræðingur um rétt til skoðana og tjáningarfrelsis; Asma Jahangir, sérfræðingur um frelsi til trúarskoðana, Hina Jilani,sérstakur fulltrúi framkvæmdastjóra SÞ um verndara mannréttinda, Gay McDougall, sjálfstæður sérfræðingur um málefni minnihlutahópa og Manfred Nowak, sérfræðngur um pyntingar.