SÞ þinga um Írak í Svíþjóð

0
472

Carl Bildt, utanríkisráðherra Svía tilkynnti í gær að Svíar hefðu boðað til ráðstefnu á vegum Sameinuðu þjóðanna um stuðning við Írak í Svíþjóð 29. maí næstkomandi.
Markmiðið með ráðstefnunni er að “efla starf alþjóða samfélagsins í Írak, að sögn Carls Bildts.

Carl Bildt, utanríkisráðherra Svía og Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna

Ráðstefnan er haldin í tengslum við svokallað International Compact with Iraq (ICI) sem er áætlun um þróun og frið í Írak. Síðast var þingað um þessi málefni í Sharm el-Sheikh í Egyptalandi í maí síðastliðnum.

"Það er mikiill áhugi á alþjóðavettvangi bæði á stöðugleika og uppbyggingu ríkisins í Írak,” sagði Billdt á blaðamannafundi í Stokkhólmi.
Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna og Nuri al-Maliki, forsætisráðherra Íraks verða í forætis ráðstefnunnar sem Svíar halda að beiðni þeirra. 

Bildt segir að reiknað sé með að ráðherrar fari fyrir sendinefndum en öllum aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna verður boðið að sækja ráðstefnuna. Búist er við 600 þátttakendum frá 80 ríkjum og samtökum. Bildt leggur áherslu á að þetta sé ekki ráðstefna gefenda.

"Þetta er pólitísk ráðstefna,” sagði Bildt og bætti við að markmiðið væri að auka alþjóðlega þátttöku og efla Sameinuðu þjóðirnar í pólitískri þroun Írak á sama tíma og Bandaríkjamenn drægju saman seglin. Á dagskrá fundarins verða komandi sveitastjórnakosningar og sáttastarf í landinu. “Við viljum styrkja lýðræðisöflin í Írak,” sagði Bildt. Þegar hann var spurður hvort andstöðuöflum í Írak yrði boðið sagði hann: “Al Kaída verður ekki boðið.”

Þetta verður í fyrsta skipti sem Ban Ki-moon, sækir Svíþjóð og raunar Norðurlönd heim frá því hann varð framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna.