Mannréttindaskrifstofa SÞ: Látum þetta marka vatnaskil

0
33
Volker Türk mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna
Volker Türk mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna

Jafnrétti. Íþróttir. Mannréttindaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna og Jafnréttisstofnun samtakanna hafa fordæmt atvikið þegar formaður spænska knattspyrnusambandsins kyssti leikmann á munninn. Formaðurinn, Luis Rubiales, kyssti Jenni Hermoso beint á munninn þegar spænska liðið sigraði England í úrslitaleik Heimsmeistarakeppni kvenna 20.ágúst í Sidney í Ástralíu.

„Íþróttakonur þurfa enn að þola kynferðislega áreitni og misnotkun,“ sagði Mannréttindaskrifstofan í tísti. „Okkur ber öllum að vekja athygli á og ráðast gegn slíku. Við leggjumst á árarnar með Jenni Hermoso  og öllum öðrum, sem berjast gegn misnotkun og kynjamisrétti í íþróttum. Látum þennan atburð marka vatnaskil.“

UN Women

Jafnréttisstofnun Sameinuðu þjóðanna (UN Women) sagði í opinberri yfirlýsingu að stofnunin styddi alla sem höfnuðu hvers konar misnotkun eða áreiti, hvar og hvenær sem er í kvennaíþróttum. „Konur hafa rétt til þess alls staðar að taka fullan þátt í íþróttum án misnotkunar eða áreitis, hvort sem er á bakvið luktar dyr, í búningsherbergjum, á samfélagsmiðlum eða á alþjóðavettvangi.“

Stéphane Dujarric talsmaður António Guterres aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna hvatti fyrr í vikunni yfirvöld til að takast á við „kynjamisrétti með þeim hætti að borin sé virðing fyrir réttindum allra íþróttakvenna.“