Mannúðarmál í brennidepli í Istanbul

0
569
Flickr Attribution NoDerivs 2.0 Generic CC BY ND 2.0 World Humanitarian Summit

Flickr Attribution NoDerivs 2.0 Generic CC BY ND 2.0 World Humanitarian Summit

23.maí 2016. Fyrsti leiðtogafundur sögunnar sem helgaður er mannúðarmálum hófst í dag í Istanbul í Tyrklandi.

Oddvitar Sameinuðu þjóðanna hafa hvatt ríki heims, almannasamtök og einkageirann að taka höndum saman og rísa upp í nafni mannúðar nú þegar við meiri vanda er að glíma en nokkru sinni, einkum vegna fjölda flóttafólks.

„Hamfarir, jafnt náttúrulegar sem af mannavöldum, eru sífellt algengari, margslungnari og kröftugari. Rúmlega 60 milljónir manna hava neyðst til að flýja heimili sín af völdum átaka og ofbeldis. Á þessum leiðtogafundi munu allir þeir sem koma að mannúðarmálum koma samana til að brjóta þetta til mergjar,” segir Jan Eliasson, vara-aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna.

5.200 þátttakendur, þar á meðal 65 oddvitar ríkja og ríkisstjórna, fulltrúar 177 aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna, almannasamtaka, einkageirans og stofnana Sameinuðu þjóðanna taka þátt í fundinum. Fulltrúi Íslands á fundinum er Lilja Dögg Alfreðsdóttir, utanríkisráðherra. Hann er haldinn að loknum nánu samráði við 23 þúsund málsaðilja um allan heim í því skyni að greina helsta vanda á sviði mannúðarmála í heiminum.

Secretary General Arrives for World Humanitarian Summit UN photoAðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hefur lýst hugsjónum sínum í skýrslunni „Áætlun fyrir mannkynið”.
Þar setur hann fram syrpu skuldbindinga: að stöðva í fæðingu og binda enda á átök; að standa við þær reglur sem vernda mannkynið; að skilja engan eftir; að breyta lífi fólks; að takast á við þarfir og uppræta þær og að fjárfesta í mannkyninu.

Fimm norrænir ráðherrar hafa birt kjallaragrein í sameiningu, þar sem þeir benda á að Norðurlöndin eru á meðal gjafmildustu veitenda mannúðaraðstoðar og milljónum hafi verið hjálpað, jafnt fórnarlömbum náttúruhamfara sem hamfara af manna völdum. Á síðasta ári hafa ríkin látið í sameiningu andvirði um 150 milljarða íslenskra króna af hendi rakna, skrifa utanríkisráðherrar Danmerkur, Íslands og Noregis, Kristian Jensen, Lilja Dögg Alfreðsdóttir og Börge Brende, og þróunarráðherrar Finnlands og Svíþjóðar, Lenita Toivakka og Isabella Lövin, í grein sinni.

„Við munum halda áfram að veita þeim aðstoð sem mest þurfa á henni að halda og grundvalla hana á meginreglum um mannúðaraðstoð: sjálfstæði, óhlutdrægni, hlutleysi og mannúð. Jafnframt verðum við að finna nýjar leiðir til að draga úr þörfinni,” skrifa ráðherrarnir fimm. „ Ekki er réttlætanlegt að fólk sé háð neyðaraðstoð áratugum saman án vonar um betri tíð; við höfum orðið vitni að grafalvarlegum afleiðingum þess á síðasta ári í Asíu, Afríku og einnig í Evrópu. Leiðtogafundurinn á að senda afgerandi skilaboð þar sem kallað er eftir pólitískri forystu til að leysa neyðarástand. Í dag eru átök orsök 80% af þörfinni fyrir mannúðaraðstoð og átök verða einungis leyst á pólitískum vettvangi.”

Myndir: 1.) Upphaf fundarins í Istanbul. 2.) Ban Ki-moon kemur til fundarins.