Náttúruhamfarir: fatlaðir berskjaldaðir

0
569

Disaster day

13.október 2013. Alþjóðadagur helgaður því að draga úr hættu á skemmdum af völdum náttúruhamfara er haldinn til þess að fagna hversu vel tekst sums staðar til við að draga úr slíkri áhættu

og vekja fólk til vitundar um hversu miklu hnitmiðaðar aðgerðir skila. Einnig er tilgangur dagsins að hvetja almenning og ríkisstjórnir til að efla mótstöðuþrek einstakra samfélaga og þjóða til að takast á við náttúruhamfarir. 

Þema dagsins í ár er “Að lifa við fötlun og hamfarir”. Fatlað fólk er á meðal þeirra sem standa höllustum fæti í samfélaginu og eiga því undir högg að sækja þegar ógæfu ber að höndum. Fatlaðir eru ólíklegri til að njóta aðstoðar og líkurnar á að þeir nái sér að fullu minni en annara.

Ýmsar rannsóknir benda hins vegar til að ef fatlaðir eru hafðir með í ráðum á ýmsum stigum þegar glímt er við afleiðingiar hamfara, má bæta hag þeirra verulega og auka skilvirkni viðbragða ríkisstjórna og uppbyggingar.
Kastljósinu er beint að þeim milljarði manna sem býr við einhvers konar fötlun, hversu berskjaldaðir fatlaðir eru andspænis náttúruhamförum og hvernig þeir geta tekið þátt í starfi almannavarna.

„Við skulum á þessum alþjóðlega degi, 13.október,  strengja þess heit að gera okkar besta til að allir þeir sem lifa við fötlun, njóti eins mikils öryggis og hægt er og hafi eins mikla möguleika og hægt er. til að raddir þeirra heyrist og þeir fái að leggja sín lóð á vogarskálarnar í þágu velferðar alls samfélagsins. Við skulum byggja upp heim þar sem rúm er fyrir alla og fatlaðir geta leikið enn stærra hlutverk sem jákvætt afl í þágu breytinga,” segir Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna í ávarpi í tilefni dagsins.