Virða ber mannréttindi flóttafólks

0
575

Lampedusa

14.október 2013. Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hvetur alþjóðasamfélagið til að vernda réttindi flóttafólks

til að hindra harmleiki á borð við þann sem varð þegar annað skip á skömmum tíma fórst undan ströndum ítölsku eyjarinnar Lampedusa. “Framkvæmdastjórinn er harmi sleginn yfir fréttum af manntjóni nú þegar öðru skipi hvolfdi, aðeins nokkrum dögum eftir slysið sem kostaði meir en þrjú hundruð manns lífið,” segir talsmaður Bans í yfirlýsingu.

Samkvæmt fréttum létust að minnsta kosti 27 en 221 var bjargað á föstudag þegar bát hvoldi nærri Lampedusa.

Slysið varð rúmri viku eftir að meir en 300, aðallega Eþiópíumenn, létust þegar kviknaði í skipi um hálfri sjómílu undan landi, með þeim afleiðingum að skipinu hvolfdi.

 “Framkvæmdastjórinn hvetur alþjóðasamfélagið í heild til að grípa til aðgerða til að hindra slíka harmleiki í framtíðinni, þar á meðal aðgerða til að takast á við rætur vandans. Aðgerðir verða að taka tillit til þess hversu berskjaldað fólkið er og tryggja mannréttindi þes,” segir í yfirlýsingu framkvæmdastjórans. .

Áður hafði Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna hvatt til þess að ábyrgð yrði dreift á meðal aðildarríkja Evrópusambandsins á því að fjalla um beiðnir um hæli og á því að finna varanlegar lausnir á vanda fólks sem þarf á alþjóðlegri vernd að halda.

 “Staðfest hefur verið að 311 eru látnir og því er þessi harmleikur eitt mannskæðasta slys á síðari tímum,” sagði Adrian Edwards, talsmaður Flóttamannahjálparinnar (UNHCRá blaðamannafundi í Genf. 1200 voru um borð í skipi sem var ætlað 250.

Flóttamannahjálpin fagnaði yfirlýsingu José Manuel Barroso, forseta framkvæmdastjórnar ESB um nauðsyn þess að gripa til aðgerða, meðal annars til þess að efla björgunarstarf á hafi úti og bæta kerfi til að fylgjast með ferðum skipa.  

Mynd: Sjóslysið við Lampedusa hefur valdið miklum óhug. UNHCR/ANSA.