Noregur: fótbolti á sjálfbæran hátt

0
462
lise klaveness
Lise Klaveness hin skelegga forystukona norska knattspyrnusambandsins. Mynd: NFF.

Segja má að norska knattspyrnusambandið sé fremst á meðal jafningja í knattspyrnuheiminum í afdráttarlausum stuðningi við Heimsmarkmiðin um sjálfbæra þróun.

Fótbolti fyrir markmiðin Í nýju frumkvæði Sameinuðu þjóðanna, Fótbolti fyrir markmiðin, hafa Norðmenn sérstöku hlutverki að gegna. Norska knattspyrnusambandið verðu með sérstakt tilraunaverkefni á sínum snærum við að hrinda í framkvæmd þeim skuldbindingum sem felast á átakinu.

„Við erum stolt af því að taka þátt í frumkvæðinu með tilraunaverkefninu,” segir Lise Klaveness, forseti norska knattspyrnusambandsins í viðtali við vefsíðu UNRIC.

Fótbolti fyrir markmiðin

Fótbolta fyrir Markmiðin var hrundið af stokkunum við upphaf Evrópukeppni landsliða kvenna í knattspyrnu í upphafi júlí. Átakinu er ætlað að vera vettvangur alþjóða knattspyrnuheimsins við að taka þátt í og tala máli Heimsmarkmiðanna um sjálfbæra þróun.

Fótbolti fyrir markmiðin
Norskar knattspyrnukonur

UEFA, knattspyrnusamband Evrópu er stofnfélag í frumkvæðinu. Norska tilraunaverkefninu er ætlað að sýna hvernig landslið, grasrótarliða og keppnisdeildir, auk samstarfsaðila á fjölmiðlum, gætu unnið saman í þágu Heimsmarkmiðanna.

„Við erum staðráðin í að breyta hegðun okkar, skora okkur sjálf á hólm og auka vitund,” segir Klaveness. „Frumkvæðið eykur enn á áhuga okkar og virkar eins og spark í rassinn.”

Loftslagsmálin áskorun

Norðmönnum er mætavel ljóst að þegar Heimsmarkmiðin eru annars vegar stendur knattspyrnan misjafnvel vegl að vígi. Klaveness bendir á ýmislegt þar sem vel hafi verið staðið að verki og í samræmi við Heimsmarkmiðin.

Fótbotli fyrir markmiðin
Mynd: Jakob Rosen/Unsplash

Loftslagssbreytingar eru erfiðari viðfangs. „Ferðir eru stór hluti okkar starfs,“ bendir hún á í viðtalinu þar sem hún er stödd á Englandi á Evrópukeppni kvenna.

Ljóst er að losun koltvísýrings vegna ferðalaga mun ætíð vera umtalsverður. Knattspyrnumenn, sem taka þátt í deildakeppn og Meistaradeild Evrópu á sama tíma, mega engan tíma missa. Þeir leika allt að þrjá leiki á viku og fræðilega geta þeir þurft að endasendast frá norður-Noregi til Möltu eða Íslandi til Aserbæjan.

Ekki bara loftslag

„Að þessu leyti er erfitt að ætla sér að vera til fyrirmyndar. Við verðum að vera auðmjúk, en þótt við getum kannsk ekki tekið forystuna er ekki þar með sagt að við eigum ekki að horfa í spegil. Við verðum að brjóta til mergjar hvernig við getum tekist á við þessa sameiginlegu áskorun. Þótt knattspyrnulið ferðist er ekki þar með sagt að þau geti ekki unnið að framkvæmd Heimsmarkmiðanna. En ferðirnar valda því að við getum orðið blórabögglar fjölmiðlagagnrýni ef við ætlum okkur að vera fyrirmynd. En við getum gert íþróttavelli loftslagsvænni og virkja áhangendur í þágu loftslagsins,“ segir Klaveness.

Heimsmarkmið um Sjálfbæra þróun
Heimsmarkmið um Sjálfbæra þróun

„Heimsmarkmiðin snúast um meira en loftslagið, þannig að við getum stuðlað að vitundarvakningu um jafnrétti, heilbrigði og vera opin öllum. Við höfum lagt okkar lóð í Noregi á vogarskálarnar við aðlögun flóttamanna og starf með fíkniefnaneytendum, svo dæm séu tekin,“ bætir hún við.

Norsk knattspyrnulið hafa einnig lagt  áherslu á jöfn tækifæri kynjanna. Raunar er það ekki knattspyrnusambandið sem á frumkvæðið, heldur grasrótin. Klaveness útskýrir að starf knattspyrnusambandsins að sjálfbærni komi frá helstu félagsliðunum. „Það kemur frá liðunum sjálfum, þau báðu okkur um að grípa til aðgerða. Þau eiga lof skilið. Okkar hlutverk er að hlúa að og vökva nýgræðlingana.

Grænt átak Thorsby

Vonandi eiga áhrifamiklar knattspyrnu-stjörnur eftir að leggja átakinu lið. Það er ástæða til bjartsýni því norskur knattspyrnumaður í fremstu röð hefur sjálfur tekið frumkvæði í þessum málaflokki. Norski knattspyrnumaðurinn Morten Thorsby leikur með Sampdoria á Ítalíu og norska landsliðinu.

Morten Thorsby.
Morten Thorsby. Mynd: We Play Green

Á meðan margir starfsbræður hans flatmaga á sólarströndum, lagði Thorsby land undir fót og heimsótti áhrifamenn í Evrópu. Hann hefur fitjað upp á átaki sem nefnist „We Play Green“ umhverfishreyfingu knattspyrnunnar. Markmiðið er að efla sjálfbær viðhorf og aðgerðir.

„Loftslagsmálin snerta líka okkur í íþróttunum. Þau munu hafa áhrif á íþróttina sjálfa, famtíð leikmanna og barna þeirra. Við verðum að gera okkur grein fyrir þessu og nota aðstöðu okkar til að hjálpa,“ sagði hann í viðtali við norsku sjónvarpsstöðina TV2, þar sem hann var staddur í Brussel, nýverið. Þar átti hann fund með áhrifafólki á borð við Veronika Safrankova, yfirmann Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNEP) í Brussel og Fans Timmermanns, fyrsta varaforseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

Klaveness segir að ekki sé hægt að skikka knattspyrnumenn til að leggja átakinu Fótbolti fyrr markmiðin lið. „Slíkt verða þeir að gera að eigin frumkvæði en þeir verða að vera hluti af þessu.“

Ein fárra kvenna í forystu

Fótbolti fyrir markmiðin
Lise Klaveness. Mynd: NFF

Klaveness er ein fárra kvenna sem er í forystu knattspyrnusambanda í heiminum. Hún er lærður lögfræðingur, sem lék 73 landsleiki í knattspyrnu fyrir Noreg.

Hún fékk heims-athygli síðastliðið vor með ræðu sem hún hélt í aðdraganda Heimsmeistarakeppninnar í Katar. Þar sendi hún skipuleggjendum og alþjóða knattspyrnusambandinu (FIFA) tóninn, meðal annars vegna slæms aðbúnaðar farandverkamanna sem byggt hafa leikvelli. Þótt hún hafi gefið út afdráttarlausar yfirlýsingar um nauðsyn virðingar fyrir mannréttindum við staðarval Heimsmeistarakeppna, þá er hún sér líka vel meðvituð um að virða beri annars konar menningu.

„Ég legg áherslu á að allir geti leikið knattspyrnu alls staðar og ekkert ríki undanskilið. Það er ekki hlutverk Noregs að skipa öðrum fyrir. Hins vegar, ber FIFA að velja gestgjafa HM í ferli sem tekur mannréttindi og hag verkafólks með í reikninginn. Þessi atriði verða að vera í fyrirrúmi. Knattspyrna er heims-fyrirbæri og  um verulegar fjárhæðir er að tefla. Þess vegna er kjarkmikillar forystu þörf í alþjóðlegum samtökum. Hér er brýn þörf fyrir breytingar.“

Mannréttindi ekki tekin með í reikninginn

Mannréttindi voru ekki hluti af því ferli, sem leiddi til staðarvals og það var sjálfbærni ekki heldur.

Því miður tókst Noregi ekki að vinna sér inn sæti í lokakeppni HM í Katar. Hins vegar efur landið ásamt öðrum Norðurlöndum sótt um að halda Evrópukeppni kvennalandsliða 2025.

„Og þá verða sjálfbær knattspyrnu-gildi í fyrirrúmi,“ lofar hún.