Ómíkron: WHO vonast til að hið versta sé afstaðið

0
745
COVID-19
Kórónaveiran COVID-19

Ómíkron-afbrigðið af COVID-19 herjar enn á heimsbyggðina en fjöldi tilfella í mörgum ríkjum virðist hafa náð hámarki. Þetta gefur Alþjóða heilbrigðismálastofnuninni (WHO) vonir um að Ómíkron-bylgjan sé í rénun.

Tedros Ghebreyesus forstjóri stofnunarinnar sagði á blaðamannafundi í Genf að átján milljónir tilfella hefðu verið tilkynntar í síðustu viku og heimsfaraldrinum sjálfum sé svo sannarlega ekki lokið. „Sú staðreynd að fjöldi tilfella er farinn að minnka í sumum löndum gefur vonir um að hið versta sé að baki. Ekkert ríki er þó enn sloppið,“ sagði Tedros.

Fjöldi látinna er stöðugur en Alþjóða heilbrigðismálastofnunin hefur áhyggjur af álaginu á heilbrigðisstarfsfólki og heilbrigðiskerfi, sem Ómíkron hefur valdið.

Óbólusettir verða verst úti

„Ég hef sérstaklega þungar áhyggjur af mörgum þeirra ríkja þar sem bólusetningarhlutfall er lágt. Líkur á alvarlegum veikindum og dauða eru miklu meiri á meðal óbólusettra,“ sagði Tedros.

Hann vísaði á bug að Omicron-afbrigðið væri aðeins vægur sjúkdómur og sagði að slíkur misskilningur græfi undan viðbrögðum og gæti kostað mannslíf.

Tedros sagði að veiran breiddist „alltof mikið út á meðal þeirra sem eru veikburða“ og sagði að víða myndu næstu vikur skipta sköpum.