Perez de Cuéllar látinn

0
927
Perez de Cuéllar
Málverk af Javier Pérez de Cuéllar eftir Hans Erni. UN Photo/Manuel Elias

Javier Perez de Cuéllar fimmti aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna er látinn hundrað ára að aldri.

Perez de Cuéllar var stjórnarerindreki, lögfræðingur og prófessor frá Perú, fæddur í Lima 19.janúar 1920. Hann er eini Suður-Ameríkumaður sem hefur gegnt starfi aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, 1982-1991.

Perez de Cuellar í heimsókn í úthverfi Windhoek í Namibíu 1989.

Hann lifði ekki aðeins í heila öld heldur spannar líf hans alla sögu Sameinuðu þjóðanna. Hann var í hópi fulltrúa á fyrsta Allsherjarþingi samtakanna árið 1946.

Miilliríkjadeilur

Þegar hann tók við embætti var eitt fyrsta verkefni hans að stýra spennuþrungnum viðræðum á milli Breta og Argentínumanna. Þeir deildu um yfirráð yfir Falklandseyjum/Malvinas.

Perez de Cuellar
Perez de Cuéllar, hitti Móður Teresu 1985.

„Pérez de Cuéllar náði umtalsverðum árangri með diplómatískum aðgerðum. Nefna má þegar Namibía hlaut sjálfstæði, bundinn var endi á stríð Íraks og Írans og bandarískir gíslar látnir lausir í Líbanon. Friði var komið á í Kambódíu og á síðustu dögum hans í embætti samþykkt sögulegs friðarsamkomulags í El Salvador“, sagði António Guterres núverandi aðalaframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna í yfirlýsingu.

Á öðru kjörtímabili hans voru sovéskir hermenn kallaðir heim frá Afganistan og hann átti þátt í að koma á pólitískum stöðugleika í Nikaragúa.