Ríkinu ber að umbuna uppljóstrurum

0
491
luxleaks

luxleaks

1.júlí 2016. Óháður mannréttindasérfræðingur Sameinuðu þjóðanna hefur harmað dóma í Lúxemborg yfir uppljóstrurum í svokölluðu LuxLeaks-máli.

„Uppljóstrarar eru hetjur okkar tíma og þjóna samfélaginu og mannéttindum, segir Alfred de Zayas, óháður sérfræðingur Sameinuðu þjóðanna um eflingu lýðræðis og jöfnuðar á alþjóðavettvangi.

„Þegar uppljóstrar eru dæmdir á sama tíma og þeir sem fara ránshendi um samfélagið sleppa, hefur öllu verið snúið á hvolf í heiminum.“

De Zayas 15.2.2016De Zayas benti á að svo lengi sem undanskot frá skatti og skattaparadísir þrifust, gætu ríki trauðla uppfyllt skuldbindingar sínar samkvæmt mannréttindasáttmálum.

Tilefni ummælanna er dómur sem kveðinn var upp í Lúxemborg í LuxLeaks-málinu. Þar voru tveir menn dæmdir fyrir að ljóstra upp um hvernig alþjóðleg stórfyrirtæki komust hjá því að borga skatta. Uppljóstrararnir eru tveir fyrrverandi starfsmenn PricewaterhouseCoopers og voru þeir dæmdir annars vegar í níu mánaða og hins vegar 12 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að leka skjölum. Þar kom fram hvernig Lúxemborg hefur laðað til sína stórfyrirtæki á borð við Apple, Ikea og Pepsi með því að gera þeim kleift að spara milljarða dollar í skattgreiðslum. Blaðamaðurinn sem skýrði frá málinu var hins vegar sýknaður.

Að mati sérfræðingsins ber þjóðþingum ekki aðeins að vernda uppljóstrara heldur einnig að umbuna þeim fyrir heiðarleika og gott siðferði, ekki síst vegna þess að leyndarhjúpur er í sívaxandi mæli sveipaður yfir fjármálageirann. Hann bendir á að svokallaður LuxLeaks-dómur kunni að letja einstaklinga í að skýra frá misgjörðum.

De Zayas undirbýr skýrslu sem hann mun flytja á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í október en þar mun hann fjalla um hvernig undanskot frá skatti og skattaparadísir grafa undan mannréttindum.

Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna skipaði Alfred de Zayas, fyrsta óháða mannréttindasérfræðing Sameinuðu þjóðanna til eflingar lýðræðis og jöfnuðar í alþjóðlegri reglu árið 2012. Hann er prófessor í alþjóðalögum við the Geneva School of Diplomacy. Starf mannréttindasérfræðinga er ólaunað og eru þeir algjörlega óháðir Sameinuðu þjóðunum, en starfa í nafni þeirra. 

Sjá yfirlýsinguna í heild hér. 

Mynd: 1.) Mótmælendur fyrir utan réttinn í Lúxemborg 29.júní 2016. Mélanie Poulain/Flickr https://creativecommons.org/licenses/by/2.0/

2.) De Zayas fyrir miðju. UN Photo.