Samstaða með innflytjendum aldrei mikilvægari

0
752
Alþjóðlegur dagur farandfólks

Farandfólki i heiminum hefur fjölgað um fimmtiu milljónir frá 2010 eða sem samsvarar rétt rúmlega íbúafjölda Spánar.  Alþjóðlegur dagur farandfólks er 18.desember.

Alls er farandfólk 281 milljónir í heiminum eða sem samsvarar samanlögðum íbúafjölda Þýskalands, Frakklands, Hollands, Ítalíu og Spánar. Þetta er um 3.6% jarðarbúa.

Alþjóðlegur dagur farandfólks
Alþjóðlegur dagur farandfólks

Farandfólk er fólk sem býr utan fæðingarlands síns, til dæmis innflytjendur á Íslandi. Þeir eru hátt í 15% landsmanna samkvæmt síðustu fréttum. Fólk getur lagt land undir fót af fúsum og frjálsum vilja eða neyðst til þess af ýmsum ástæðu, oft og tíðum efnahagslegum.

„Við þurfum skilvirkari alþjóðlega samvinnu og mannúðlegri nálgun á fólksflutninga,” segir António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna í ávarpi í tilefni alþjóðlega dagsins. „Það þýðir að landamæragæslu ber að nálgast af samúð, mannréttindi skulu virt og mannúðarþörfum allra sinnt. Loks ber að tryggja að tekið sé tillit til farandfólks í COVID-19 vörnum hvers ríkis.“

Farandfólk auðgar samfélagið

Alþjóðlegur dagur farandfólks
Alþjóðlegur dagur farandfólks

Farandfólk eða innflytjendur sætir víða mismunun, útlendinga- og kynþáttahatri. Konum í þeim hópi stafar enn meiri hætta af kynbundnu ofbeldi en öðrum og hafa færri úrræði til að sækja sér hjálp. Þar sem landamærum hefur verið lokað vegna COVID-19 hefur farandfólk oft og tíðum orðið tekjulausir strandaglópar án húsaskjóls, aðskilið frá fjölskyldum sínum andspænis óvissri framtíð.

„Samt sem áður hefur farandfólk víða auðgað samfélög sín á tímum heimsfaraldursins með því að vera fremst í víglínunni hvort heldur sem er við vísindastörf, í heilsugæslu eða öðrum mikilvægum störfum,“ segir Guterres. „Samstaða með farandfólki hefur aldrei verið mikilvægari.“

Á næsta ári verður farið yfir þann árangur sem náðst hefur eftir samþykkt Alþjóðlegs samnings um málefni farandfólks á vegum Sameinuðu þjóðanna.

Farandfólk í lífshættu í Evrópu

Nú þegar jólin nálgast fagna ekki allir vetri og snjó. Þúsundir farandfólks hættir lífi sínu við að komast yfir Ermasund til Bretlands og þúsundir eru strandaglópar á einskis manns landi á milli Hvíta-Rússlands annars vegar og Póllands, Lettlands og Litháens hins vegar.

„Meir en 60% farandfólksins sem sérfræðingar okkar skoðuðu þurftu á læknisaðstoð að halda,“ skrifar Hans Kluge, forstjóri Evrópuskrifstofu Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar eftir vettvangsrannsókn.

„Ég sá af eigin raun þegar ég heimsótti búðir sem hýsa 2 þúsund manns í Hvíta-Rússlandi hversu slæm staðan er,“ skrifaði Kluge í kjallaragrein í tilefni af Alþjóðadegi farandfólks. „Þeir sem ég hitti, fjölskyldur með börn, ungt fólk og gamalt, bjó við mikil þrengsli án hreinlætisaðstöðu. Fólk var þreytt og örvæntingarfullt en hélt þó fast í vonina um betra líf.“

Að virkja hreyfanleika fólks

Þema Alþjóðlegs dags farandfólks 2021 er „Virkjum mannlegan hreyfanleika.” Minnt er á að farandfólk og innflytjendur leggi sinn skerf til samfélaga sem tekið hafa við þeim með þekkingu sinni, tengslaneti og hæfileikum.