Sérfræðingar SÞ gagnrýna ofsóknir í Bahrain

0
538

Bahrain1

23. ágúst 2012. Hópur sjálfstæðra sérfræðinga á vegum Sameinuðu þjóðanna hefur látið í ljós djúpar áhyggjur af “ofsóknaherferð” yfirvalda í Bahrain á hendur forkólfum í mannréttindamálum og krefst þess að málsmetandi baráttumaður fyrir mannréttindum verði látinn laus.

“Það er kominn tímim til að yfirvöld í Bahrain virði rétt til friðsamlegra fundahalda og tjáningar og láti þegar í stað lausa þá sem handteknir hafa verið af handahófi fyrir að nýta sér lögmæt réttindi,” segja sérfræðingarnir í fréttatilkynningu sem skrifstofa Manntréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna gaf út.

Þeir hvöttu til að Nabeel Rajab, baráttumaður fyrir mannréttindum sem nýlega var dæmdur í þriggja ára fangelsi, yrði látinn laus tafarlaust. Hann var dæmdur fyrir ólöglegt opinbert fundahald í tengslum við friðsamlegar samkomur til stuðnings grundvallar frelsi og lýðræði, þar á meðal friðsamlegum mótmælum gegn fangelsun Abdulhadi Al Khawaja.

“Dómurinn yfir Nabeel Rajab er enn ein blygðunarlaus viðleitni ríkisstjórnar Bahrain til að þagga niður í þeim sem vinna löglega að því að efla grundvallar mannréttindi,” segir Margaret Sekaggya, sértakur erindreki um málefni mannréttindafrömuða.  “Ríkisstjórn Bahrain ber að hætta þegar í stað ofsóknum á hendur mannréttindafrömuðum í landinu,” bætti hún við.

Sérstakur erindreki um frelsi til friðsamlegs fundahalds og samtaka,  Maina Kiai, lagði áherslu á að “rétturinn til friðsamlegs fundahalds á ekki að vera háður fyrifram leyfisveitingar yfirvalda.”   

Rajab afplánar nú þriggja mánaða dóm fyrir meint meiðyrði á samskiptavefsíðu. Búast má við að áfrýjunardómstóll birti dóm í áfrýjunarmáli hans á hverri stundu.
 “Áframhaldandi aðgerðir til að skerða málfrelsi í Bahrain eru andstæðar alþjóðalögum og viðmiðunum um að ekki skuli ákæra einstaklinga fyrir friðsamlegan pólitískan málflutning,” segir Frank La Rue, sérstakur erindreki um réttinn til skoðanafrelsis.

Óháðir sérfræðingar eða sérstakir erindrekar (special rapporteurs) eru skipaðir af Mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna í Genf til að rannsaka og skýra frá ástandi í tilteknum löndum eða sérstökum málaflokki á sviði mannréttinda. Skipað er í stöðurnar í heiðursskyni og viðkomandi teljast hvorki til starfsfólks Sameinuðu þjóðanna né er þeim umbunað fyrir starf sitt.

Mynd: Al Jazeera.