Sri Lanka: Engar framfarir á fjórum árum

0
497

SriLankaProtest

20. maí 2013. Virðing fyrir mannréttindum hefur minnkað á Sri Lanka á undanförnum fjórum árum. Þetta er niðurstaða nýrrar skýrslu mannréttindasamtakanna Human Rights Watch. 26 ára borgarastríði lauk í maí 2009 þegar stjórnarher landsins vann fullnaðarsigur á uppreisnarmönnum svokallaðra Tamíl Tígra (LTTE). Eftirlitssveit undir stjórn Norðurlanda (SLMM) og með þátttöku Íslendinga fylgdist með vopnahléi sem var í gildi frá 2002 til 2008. Síðustu mánuðir stríðsins voru einkar blóðugir og mikil spenna hefur ríkt í landinu síðan.

Að sögn Human Rights Watch hefur Mahinda Rajapaksa, forseti Sri Lanka ekki látið af neinni alvöru rannsaka og sækja til saka fyrir meinta stríðsglæpi af hálfu beggja stríðandi fylking þrátt fyrir að hafa gefið Ban Ki-moon, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna fyrirheit um slíkt. Ekki hefur heldur verið staðið við loforð stjórnvalda um að aðgerðir í þágu Tamíla í landinu sem eiga mjög undir högg að sækja efnahagslega í norðurhluta landsins á sama tíma og efnahagur blómstrar í suðurhlutanum.

“Fjórum árum eftir að hinu hræðilega borgarastríði lauk bíða margir Sri Lankabúar þess að grundvallarréttindi séu virt, fórnarlömb harðræðis bíða réttlætis og ættingjar frétta af örlögum þeirr sem hafa “horfið”,” segir Brad Adams, sem stýrir Human Rights Watch í Asíu.

Samtökin nefna dæmi um að grafið sé undan lýðræði í landinu. Embættismenn hafa í hótunum og ókunnir men hafa ráðist á blaðamenn, stjórnarandstæðinga og fulltrúa almannasamtaka.

Fjölmiðlar sem gagnrýnt hafa stjórnvöld hafa sætt ritskoðun og jafnvel verið lokað. Tamílar eru handteknir af handahófi og gefið að sök að tengjast Tígrunum. Dæmi eru um pyntingar og illa meðferð fanga. Öryggissveitum er gefið að sök að nauðga konum og beita annars konar kynferðislegu ofbeldi gegn meintum stuðningsmönnum Tígra.

Mynd: Harðræði gegn Tamílum mótmælt í Lundúnum nýverið. Mynd: Flickr/lewishamdreamer