Áhersla á rétt til þátttöku

0
476
Roosevelt

Roosevelt

10. desember 2012. Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna harmar að þeim árangri sem náðst hafi víða um heim við að koma á lýðræðislegum stjórnarháttum, sé nú stefnt í “ógnvekjandi hættu.” 

 

Þetta segir framkvæmdastjórinn, Ban Ki-moon í ávarpi í tilefni af Mannréttindadeginum sem haldinn er árlega 10. desember.

Navi Pillay, oddviti Mannréttindamála hjá Sameinuðu þjóðunm heiðrar fyrir sitt leyti “þær milljónir manna” sem hafa fylkt liði á götum úti á undanförnum árum “til að biðja um að þau mannréttindi séu virt sem færð hafa verið í letur í Mannréttindayfirlýsingunni.”

Mannréttindadagur Sameinuðu þjóðanna er haldinn ár hvert 10. desember til að minnast þess að á þeim degi árið 1948 samþykkti Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna Mannréttindayfirlýsinguna sem enn þann dag í dag er hornsteinn mannréttinda í heiminum
Þema dagsins í ár er: “Samráð og rétturinn til þátttöku í opinberu lifi.”

Í ávarpi sínu segir Ban Ki-moon að þrátt fyrir mikinn árangur á ýmsum sviðum undanfarin ár, standi  allt of margar hindranir í vegi fyrir þátttöku of margra hópa og einstaklinga. Enn vanti mjög mikið upp á eðlilega þátttöku kvenna í forystu ríkja, þjóðþinga og atvinnulífs. Frumbyggjum,  trúarlegum- og þjóðernislegum minnihlutahópum og fötluðu fólki sé of oft neitað um rétt sinn til að taka þátt í ákvarðanatöku. Sama máli gegni um þá sem aðhyllist aðrar stjórnmálaskoðanir en valdhafar eða hafi aðra kynhneigð en meirihlutinn.

Framkvæmdastjórinn segir að sá árangur sem náðst hafi með harðfylgi við að breiða út lýðræðislega stjórnarhætti sé nú í hættu. “Í sumum ríkjum…hafa verið sett lög sem beinast sérstaklega gegn samtökum innan borgaralegs samfélags og gera þeim nánast ókleift að starfa. Við höfum öll fyllstu ástæðu til  að hafa áhyggjur af slíku bakslagi.”
 
Æðsti embættismaður Sameinuðu þjóðanna á sviði mannréttinda, Navi Pillay,i segir í tilefni Mannréttindadagsins að fólkið sem fylkt hafi liði á götum úti undanfarin tvö ár í mörgum ríkjum til að krefjast grundvallarréttinda, hafi ekki í raun gert annað en “að biðja um að fá að njóta þeirra réttindi sem þeim hafi borið samkvæmt alþjóðalögum í meir en sextíu ár.”  

“Í dag vil ég heiðra þá sem hafa þjáðst fyrir að krefjast þeirra réttinda sem þeim ber með réttu og líka alla þá hvort heldur sem er í Santíago eða Kaíró, Aþenu eða Moskvu, New York eða Nýju Dehli sem hafa sagt hver með sínu nefi: Við höfum okkar rödd, við höfum okkar rétt og við viljum fá að vera með í ráðum um hvernig samfélög okkar og efnahagslíf eru rekin,” sagði Pillay, Mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna í ávarpi sínu.

Mynd: Eleanor Roosevelt virðir fyrir sér Mannréttindayfirlýsinguna skömmu eftir samþykkt hennar 1948. Eleanor, ekkja Franklins D. Roosevelt Bandaríkjaforseta tók ríkan þátt í samningu yfirlýsingarinnar sem liggur til grundvallar öllu mannréttindastarfi í heiminum. Mynd/SÞ.