SÞ til varnar LGBT-samfélaginu

0
483
PrideNepal


PrideNepal

30.september 2015. Tólf stofnanir Sameinuðu þjóðanna hafa birt sameiginlega yfirlýsingu þar sem hvatt er til þess að bundinn verði endi á mismunun gegn lesbíum, hommum, tvíkynhneigðum, trans- og intersexfólki. Þessir hópar eru oft nefndir eftir ensku skammstöfuninni LGBTI.


Aldrei hafa fleiri stofnanir Sameinuðu þjóðanna tekið höndum saman í baráttu fyrir réttindum LGBTI líkt og gert er nú með þessari yfirlýsingu.

Þetta er hvort tveggja í senn til marks um skuldbindingu af hálfu þessara stofnana Sameinuðu þjóðanna og hvatning til ríkisstjórna um allan heim að takast á við ofbeldi gegn samkynhneigðum og transfólki og mismunun gagnvart intersexfólki,“  segir Charles Radcliffe, hjá embætti Mannréttindastjóra Sameinuðu þjóðanna. (OHCHR).

Ban Ki-moon, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna fagnaði frumkvæði stofnananna á sérstökum ráðherrafundi um þetta mál. Sagði Ban mikilvægt að stofnanirnar töluðu einni röddu“ í þessu máli.

Við munum aldrei víkjast undan því að skjóta skjólshúsi yfir þá sem eru á útjaðri samfélagsins og standa höllum fæti,“ sagði Ban. „Við getum sýnt komandi kynslóðum að farsælasta leiðin til þess að þoka okkur áfram á leið til sameiginlegra markmiða okkar er að, taka á móti öllum meðlimum fjölskyldu mannsins opnum örmum, hver svo sem þeir eru eða hvern þeir elska.“

Auk Ban töluðu Frans Timmermans, varaforseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Festus Mogae, fyrrverandi forseti Botswana, Hina Jilani, mannréttindalögfræðingur og Héctor Timerman, utanríkisráðherra Argentínu.

í að minnsta kosti 76 ríkjum eru í gildi lög sem fela í sér mismunun og banna ástarsambönd innan sama kyns, af fúsum og frjálsum vilja. Milljónir manna eiga þannig á hættu handtöku, málssókn og fangelsun. Í fimm ríkjum varðar slíkt dauðarefsingu.

Í yfirlýsingunni er rakið hvernig slíkum lögum er beitt til þess að láta LGBTI fólk sæta harðræði, frelsissviptingu og mismunun.  

Í yfirlýsingunni er ríkisstjórnum ráðlagt að stíga ákveðin skref í þá átt að stöðva ofbeldi og mismunun gegn LGBTI samfélaginu, þar á meðal að skrá, rannsaka og segja frá hatursglæpum.

Eftirfarandi stofnanir standa að baki yfirlýsingunni. Skrifstofa Mannréttindastjóra Sameinuðu þjóðanna (OHCHR), Alþjóða vinnumálastofnunin (ILO), Sameiginlega áætlun SÞ um HIV/Alnæmi (UNAIDS), Þróunarstofnun SÞ (UNDP), Mennta-, vísinda-, og menningarstofnun SÞ (UNESCO), Mannfjöldastofnunin (UNFPA), Flóttamannahjálp SÞ (UNHCR), Barnahálp SÞ  (UNICEF),  Skrifstofa SÞ um eiturlyf og glæpi (UNODC),  Jafnréttisstofnun SÞ(UN Women), Matvælaáætlun SÞ  (WFP) og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin(WHO).