Mannréttindasérfræðingur Sameinuðu þjóðanna leggst gegn framsali Assange

0
112
Alice Jill Edwards sérstakur erindreki Sameinuðu þjóðanna um pyntingar talar við fréttamenn í höfuðstöðvum SÞ.
Alice Jill Edwards sérstakur erindreki Sameinuðu þjóðanna um pyntingar talar við fréttamenn í höfuðstöðvum SÞ. Mynd. UN Photo/Loey Felipe

Einn mannréttindasérfræðinga Sameinuðu þjóðanna hefur hvatt bresku ríkisstjórnina til að koma í veg fyrir hugsanlegt framsal Julian Assange forsprakka Wikileaks til Bandaríkjanna.

Sérfræðingurinn, Alice Jill Edwards, sérstakur erindreki Sameinuðu þjóðanna um pyntingar telur að breskum yfirvöldum beri að stöðva málflutninginn því Assange kunni að sæta meðferð, sem teljist til pyntinga eða annars konar illri meðferð og refsingu, ef hann verður framseldur vestur um haf.

Julian Assange þjáist af langvarandi og endurteknu þunglyndi,“ segir Edwards. „Hætta er talin á að hann fremji sjálfsvíg. Á meðal ásakana á hendur honum eru brot á njósnalögum frá 1917 fyrir að birta diplómatísk skeyti og skjöl á WikiLeaks. Ef hann er framseldur má búast við að hann verði settur í langvarandi einangrun á meðan beðið er réttarhalda. Sama gegnir ef hann er sakfelldur en hann gæti átt yfir höfði sér 175 ára fangelsisdóm.“

Andstætt mannréttindasamningum

Edwards telur af þessum sökum að það sé vafasamt að framsal samræmist skuldbindingum Bretlands við alþjóðlega mannréttindasáttmála, sérstaklega alþjóðlega samninginn um borgaraleg og pólitísk réttindi. Sama máli gegni um Alþjóðasamninginn um bann við pyntingum og Mannréttindasáttmála Evrópu.

Assange.
Assange. Mynd: Cancillería del Ecuador/Creative Commons Attribution-Share Alike 2.0

„Diplómatísk fyrirheit af hálfu Bandaríkjanna um að hann verði meðhöndlaður á mannúðlegan hátt eru ekki fullnægjandi trygging gegn þeirri hættu sem steðjar að Assange,“ sagði Edwards. „Þau eru ekki lagalega bindandi og eru takmörkuð.“  

20.-21.febrúar verður síðasta áfrýjun í framsalsmáli Assange tekin fyrir í yfirrétti í Lundúnum.

Julian Assange á yfir höfði yfir sér ákæru fyrir glæpi í 18 liðum í Bandaríkjunum fyrir þátt sinn í meintri ólöglegri öflun og birtingu leyniskjala. Þau eru sögð varða þjóðaröryggi, þar á meðan gögn sem fela í sér ásakanir um meinta stríðsglæpi Bandaríkjanna.

Dr. Alice Jill Edwards er sérstakur erindreki um pyntingar og annars konar grimmilega, ómannúðlega og lítillækkandi meðferð eða refsingu.

Sérstakir erindrekar eru hluti af sérstakri málsmeðferð (Special Procedures) á vegum Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna. Þeir eru ólaunaðir og starfa sjálfstætt, en eru kosnir af ráðinu.

Sérstakir erindrekar hafa áður fjallað um mál Assange, sjá hér og hér.

Sjá nánar hér (Færslan hefur verið uppfærð með myndbandi)