Þegar sjálfbærar lausnir bjarga lífi og limum

0
445
Þorskroð
Tæknimaður Kerecis á Ísafirði. Mynd: Kerecis.

Heimsmarkmiðin. Sjálfbærar lausnir. Það kann að hljóma eins og söguþráður í vísindaskáldsögu að hægt sé að græða þorskroð á manneskju í stað hennar eigin húðar. Þorskur hefur verið mikilvægur hluti fæðu Evrópubúa um árþúsundir, en roðið hefur löngum verið talið svotil verð- og gagnlaust og farið beinustu leið í ruslið, eða á góðum degi brætt í lýsi.  Nú, er þorskroð notað bókstaflega til að bjarga lífi og limum fólks.

Aflimanir

Guðmundur Fertram Sigurjónsson
Guðmundur Fe.rtram SigurjónssonMynd: Kerecis.

Guðmundur Fertram Sigurjónsson lagði upphaflega fyrir sig efnafræði í háskóla en lagði síðan lykkju á leið sína og tók meistarapróf í verkfræði. Þegar hann starfaði hjá stoðtækjaframleiðandanum Össuri, fékk hann áhuga á sárum af völdum sykursýki og áverka í vefjum.

Sykursýki er alvarlegt lýðheilsuvandamál. Að mati Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar þjást 422 milljónir í heiminum af sykursýki, sem dregur hálfa aðra milljón til dauða á ári.

Fótasár er algengasti fylgikvilli sykursýki. Meiri líkur eru á að sykursjúkir þurfi að leggjast inn á sjúkrahús vegna fótasára en nokkurra annarra fylgisjúkdóma sykursýki. Sykursýki getur leitt til lélegs blóðflæðis til fóta og skerts sársaukaskyns í þeim. Sár gróa oft og tíðum ekki og sýkingar eru algengar. Þegar verst lætur getur þetta leitt til aflimunar. Talið er að af í hverjum 100 þúsund sykursýkistilfellum missi 140 lim. Það þýðir að nærri 600 þúsund manns í heiminum missa útlim á hverju ári af völdum þessa sjúkdóms.

Raunar telur Alþjóða sykursýkissambandið tölurnar mun hærri. Ef þeirra tölur eru réttar og sjúklingar eru í rauninni 537 milljónir þá eru aflimanir að sama skapi miklu algengari eða 750 þúsund á ári samkvæmt reikniformúlunni.

Þorskroð í stað skemmdra vefja

Vinnsla þorskroðs í rannsóknarstofu
Vinnsla þorskroðs í rannsóknarstofu. Mynd: Kerecis

Þegar Guðmundur Fertram gerði mikilvæga uppgötvun kom ekki aðeins fyrri starfsreynsla hans honum að notum heldur einnig tengls við æskustöðvarnar á Ísafirði. Uppgötvun hans fólst í því að nota fiskroð til að lækna skemmda vefi.

„Fiskþroð er lík húð mannsins að sumu leyti, en í stað líkamshárs mannsins hefur fiskurinn hreistur,“ útskýrir Guðmundur Fetram fyrir greinarhöfundi UNRIC.

Hörund látins fólks, svína- og nautgripahúð hefur áður verið notuð í sama tilgangi. Hins vegar er hætta á að veirusjúkdómar berist á milli spendýra, og eru best þekktu dæmin  Creutzfeld-Jacob og svína-inflúensa. Af þessum ástæðum hafa yfirvöld krafist umtalsverðrar notkunar ýmiss konar efna við læknisfræðilega meðferð mannsvefja.

Þorskroð
Atlantshafs þorskur. Wikimedia commons/ Hans-Petter Fjeld – CC BY-SA 2.5

„Lykilatriði í þeirri nýjung minni að nota þorskroð til að græða sár á mannshörundi er sú að þorskurinn lifir við svo lágt hitastig að veirur hans ógna ekki heilsu mannsins. Annað atriði er svo að fiskfrumurnar eru fjarlægðar úr ráðinu án þess að það komi niður á uppbyggingu þess,“ segir Guðmundur Fertram. „Þegar ekki er lengur hætta á að veirusmit berist á milli, er hægt að fara mildari höndum um roðið og viðhalda líkindunum við mannshúð. Þetta skiptir máli því vinnsla húðar spendýra krefst efnanotkunar við vinnsluna sem veldur því að skinnið líkist síður hörundi mannsins.“

„Þar að auki er frumur fiskjarins og DNA þeirra fjarlægt í vinnslunni. Og þegar þetta er á bak og birt greinir mannslíkaminn það ekki sem aðskotahluti. Afleiðingarnar eru þær að skömmu eftir ígræðslu taka mannsfrumur sér bólfestu, þar sem fiskfrumur bjuggu áður og umbreyta fiskroði í mannshúð.“

Sjálfbærar aðferðir

Útflatt þorskroð.
Útflatt þorskroð. Mynd: Kerecis

Engin eiturefni eru notuð í vinnslum, sem einungis krefst vatns, salts og orku. „Við erum svo heppin að hafa nóg af hreinni orku hér á landi,“ segir Guðmundur Fertram.

Vinnsluaðferðin er sjálfbær, að ekki sé minnst á þorskroðið sem yfirleitt er fleygt. Eins kaldhæðnislegt og það kann að hljóma á Guðmundur Fertram árangur sinn óbeint að þakka tveimur ógæfum. Annars vegar hruninu í efnahgslífi Íslands 2008 og hins vegar hruni rækjuvinnslunnar á Ísafirði.

Hann þekkir vel til vestra þar sem hann dvaldi á sumrum í skauti afa síns og ömmu. „Rækjuvinnslan var snarþáttur í efnahagslífinu þar á áttunda áratugnum en rækjan hvarf vegna ofveiði,“ segir Fertram. „Hamingjunni sé lof er nýting fiskjar á Íslandi nú skynsamlegri og hefur sjálfbærni að leiðarljósi.“

Rannsóknastofur rækjuvinnslunnar stóðu auðar og Guðmundur Fertram gat fengið þær til afnota. Þar að auki bauð iðnaðarráðuneytið sprotafyrirtækjum hagstæða styrki að lokinni fjármálakreppunni.

Vaxandi fyrirtæki

Þorskroð
Kerecis hefur verið lyftistöng fyrir Ísafjörð. Mynd: Kerecis.

 Guðmundur Fertram og eiginkona hans Fanney Kristín Hermannsdóttir, ráðgjafi við leyfisveitingar í lyfjaiðnaðinum, stofnuðu Kerecis 2007 utan um ráðgjafastarf sitt.  Starfsemin hefur hins vegar snúist upp í að verða eini framleiðandi viðurkenndra afurða úr fiskroði í lækningaskyni í heiminum.

Rúmlega 400 manns vinna hjá fyrirtækinu og árstekjur þess nema 72 milljónum Bandaríkjadala. Markaðurinn er fyrst og fremst í Bandaríkjunum og Þýskalandi og vegna síaukinnar tíðni sykursýki í heiminum eykst spurn eftir vörum fyrirtækisins að sama skapi jafnt og þétt.

Í ljósi fyrri reynslu sinnar hjá Össuri gerði Guðmundur Fertram sér vel grein fyrir mikilvægi þess að koma í veg yfir að sár af völdum sykursýki leiddu til aflimunar. „Þetta er ekki aðeins skelfileg reynsla og áfall fyrir sjúklinginn og fjölskyldu hans. Sjúklingurinn verður enn háðari fjölskyldu sinni en ella og hreyfir sig enn minna. Aukið hreyfingarleysi minnkar svo lífslíkurnar. Því miður, eru lífslíkur þess sem hefur orðið aflimun að bráð, aðeins fimm ár eftir aðgerð. Það er álíka og sjúklingur sem glímir við ristilkrabbamein.”

 Nýjungar í sjónmáli

Þorskroð
Sýnishorn skoðað. Mynd: Kerecis

 Nýverið fjárfesti fjölskyldan, sem á danska Lego-vörumerkið, í Kerceris. „Þetta mun hjálpa okkur við að beina sjónum okkar í ríkari mæli að nýjum þróunarverkefnum,” segir Guðmundur Fertram. „Við erum til dæmis að þróa aðferð við að nota þorskroð við kviðsliti og við endurgerð brjósta, auk notkunar roðs í munnholsaðgerðum.“

„Fiskroðið kemur að notum í munnholinu þegar fyllingum til stuðnings nýjum tönnum er komið fyrir í kjálkanum.“ Hann segir að munnholsaðgerðir færist einnig í vöxt vegna aukinna vinsælda munntóbaks og níkótínpúða.

Nýsköpunar-verkefni Guðmundar Fertram eru dæmi um sjálfbærar lausnir við heilbrigðisvanda sem fólk glímir við, að ógleymdum jákvæðum efnahagslegum áhrifum á aðþrengt byggðalag.

Sjá einnig: heimasíða Kerecis hér og Heimsmarkmiðin um sjálfbæra þróun hér.