Til höfuðs bannhelgi

0
497

rsz waterweek2

September 2013. Stokkhólmur er að mörgu leyti kjörinn vetvangur til að ræða um vatn. Borgin er reist á nokkrum hólmum og því hvarvetna umlukin vatni. Jan Eliasson er líka kjörinn ræðumaður til að opna Alþjóðlegu vatnsvikuna sem haldin er ár hvert í i Stokkhólmi.

Eliasson var kominn á eftirlaun eftir framúrskarandi starfsferil sem sænskur sendiherra og utanríkisráðherra og háttsettur embættismaður Sameinuðu þjóðanna þegar hann var kallaður aftur til starfa sem vara-framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, næstráðandi Ban Ki-moon.

Eliasson hafði ákveðið að helga sig vandamálum sem tengjast vatni og vatnsskorti í heiminum að starfsævinni lokinni með því að taka við forystu almannasamtakanna Water Aid í Svíþjóð.

En hver vegna vatn? Svar Eliasson er einfaldlega: “Vatn er spurning um líf, hreinlæti og salernisaðstaða er spurning um virðingu”.

Ritstjóri norræna fréttabréfs UNRIC var viðstaddur á Alþjóðlegu vatnsvikunni þegar Eliasson flutti aðalræðuna þar. Rétt eins og þegar hann var forseti Allsherjarþingsins 2005, barði hann í glasið og minnti viðstadda á að vatnsglas væri óþekktur munaður fyrir 768 milljónir jarðarbúa.

Í heímsókn sinni til Svíþjóðar í byrjun september hikaði varaframkvæmdastjórinn ekki við að kalla það “hneyksli” að sá árangur sem stefnt var að í því að auka og bæta salernisaðstöðu jarðarbúa, er minnstur af öllum Þúsaldarmarkmiðunum um þróun.
“Meir en 2.5 milljarður manna býr við ófullnægjandi salernis- og hreinlætisaðstöðu eða meir en þriðjungur mannkyns,” sagði Eliasson á Vatnsvikunni.
“Af þessum verður einn milljarður manna að gera sér að góðu að ganga örna sinna á víðavangi.”
Afleiðingarnar eru hroðalegar:

• Saurlát á víðavangi er ein helsta orsök niðurgangspestar, sem kostar meir en 750 þúsund börn undir fimm ára aldri, lífið á hverju ári.
• Á hverjum degi deyja þrjú þúsund börn yngri en fimm ára af þessum sökum, flest yngri en tveggja ára.

Eliasson bendir á að með því að binda endi á saurlát undir berum himni væri hægt að minnka tíðni niðurgangspestar um 36 af hundraði.

“Þetta myndi einnig auka öryggis kvenna og stúlkna” bætir hann við. “Rannsóknir í mörgum löndum sýna að nauðganir eru oft framdar þegar konur þurfa að víkja sér af heimili sínu til þess að komast á afvikin stað til að fullnægja persónulegum þörfum.”

Eliasson nýtur mikillar reynslu sem erindreki Svía og Sameinuðu þjóðanna um áratuga skeið. Á málþingi í troðfullum hátíðarsal Uppsala-háskóla, þar sem hann ræddi framtíð Sameinuðu þjóðanna í félagi við Kofi Annan, fyrrverandi framkvæmdastjóra samtakanna, rifjaði hann upp störf sín í Darfur í Súdan. Eliasson var sérstakur erindreki framkvæmdastjórans við að reyna að stilla til friðar í átökum sem að hluta til má rekja til loftslagsbreytinga og vatnsskorts. “Ég varð vitni að því að vatnsból voru eitruð til þess að stökkva íbúum þorpa á flótta.”

Jafnvel þótt sjálf Viktoría krónprinsessa Svía væri í áheyrendahópnum hikar Eliasson ekki við að færa talið að hreinlæti og – já – salernum.
Hvers vegna hefur hann einmitt áhuga á því máli þar sem minnstur árangur hefur náðst í Þúsaldarmarkmiðunum; kannski vegna almenns áhugaleysis?

Svarið leynist kannski í ræðu hans á Vatnsráðstefnunni, þegar hann viðurkennir að fólk sé oft þreytt og ráðþrota þegar glímt er við vanda heimsins og segi sem svo: “Þetta er svo tröllaukið að ég ræð ekki við neitt.”

“Við slíkar aðstæður snúum við okkur undan og að öðru en þessum skelfilega vanda,” segir Eliasson. “En það er eitt sem gerir vatns- og hreinlætismálin einstök. Jú vissulega eru þetta tröllaukin vandamál, en á hinn bóginn er vandinn skýr og auðskiljanlegur og lausnir liggja í augum uppi.”

Að binda enda á saurlát á almannafæri var eitt höfuðmarkmið átaks í hreinlætismálum sem Eliasson ýtti úr vör í mars á þessu ári fyrir hönd framkvæmdastjóra SÞ. Takmarkið er að útvega öllum jarðarbúum salerni fyrir 2025 og binda þannig enda á þennan hættulega ósið.
Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti í kjölfarið að 19.nóvember ár hvert skyldi vera Alþjóðlegi salernisdagurinn.

“Við verðum að brjóta tabúin á bak aftur”, segir Eliasson. “Fyrir nokkrum árum mátti ekk nota orðið klósett en nú er það breytt. Nú er kominn tími til að tala um saurlát á almannafæri í orðfæri pólitíkusa og diplómata.”

Víst er að þegar diplómatar tala um klósett og saurlát á sinn kurteislega hátt, má segja að stórt skref hafi verið stigið.