Þróunarmál, Íran og Sýrland í brennidepli

0
416

 

Reinfeldt
25.september 2013. Kastlósið beindist einkum að þróunarmálum eftir 2015, málefnum Sýrlands og Írans á fyrsta degi “eldhúsdagsumræðna” veraldarleiðtoga sem lauk eftir miðnætti í nótt.

Þrjátíu og fjögur ríki voru á mælendaskrá í gær og umræður hefjast að nýju í dag klukkan níu að staðartíma eða klukkan 1 eftir hádegi að íslenskum tíma. Hægt er að fylgjast með í Vefsjónvarpi Sameinuðu þjóðanna bæði í beinni útsendingu sem og upptökur af ræðum og blaðamannafundum.

 Í gær beindist athyglin einkum að nýkjörnum forseta Írans, Hassan Rouhani en hann steig í ræðustól nokkrum klukkustundum eftir að Barack Obama, Bandaríkjaforseti sagðist hafa skipað bandaríska utanríkisráðuherranum að taka upp kjarnorkumálin við Írani á diplómatískan hátt. Rohani sagðist hafa hlýtt með athygli á Obama og sagðist vonast til þess að Bandaríkin „létu hjá líða að láta undan þrýstingi skammsýnna herskárra þrýstihópa. Þá kann að takast að búa til ramma til að finna ágreiningsefnum okkar farveg..“ 

Fredrik Reinfeldt, forsætisráðherra Svíþjóðar, var fyrstur norrænna leiðtoga til að ávarpa Allsherjarþingið að þessu sinni. Lagði hann áherslu á að jafnrétti kynjanna, lýðræði og frjáls verslun skiptu sköpum í mannlegri og efnahagslegri þróun.
“Við erum sannfærð um að jafnrétti kynjanna, efli framleiðni ríkja, efnahag þeirra og ryðji sjónarmiðum réttarríkja braut,” sagði Reinfeildt. Hann sagði að lýðræðislegir stjórnarhættir væru lykilatriði í því að koma á sjálfbærri þróun og benti á að nærri þriðjungur heimsbyggðarinnar byggi við einhvers konar valdboðsstjórn. “Þetta er umtalsverður þrándur í götu þróunar.”

Reinfeldt benti loks á mikilvægi frjálsrar verslunar og samkeppni og sagði að verndarstefna væri dýr, hún stuðlaði að háu vöruverði og rýrði lífskjör.
“Ég skal gefa ykkur sláandi dæmi,” sagði Reinfeldt. “Að mati Heimsviðskiptastofnunarinnar kostar stuðningur við landbúnað neytendur og ríkissjóði í þróuðum ríkjum 350 milljarða dollara árlega. Þetta myndi nægja til að fljúga með allar mjólkurkýr landanna hringinni í kringum hnöttinn á fyrsta farrými.”

Brasíliumenn hefja að venju mælskumaraþon eldhúsdagsumræðnanna á Allsherjarþinginu en Dilma Rousseff, forseti landsins vék út frá venju og gagnrýndi Bandaríkin harðlega. Hún hvatti Sameinuðu þjóðirnar til að slá skjaldborg um internetnotendur og vernda þá fyrir ólöglegri skoðun samskipta og gagna og sagði að nýleg dæmi um rafrænar njósnir fælu í sér “alvarleg mannréttindabrot.”
Bandaríkaforseti sem var venju samkvæmt sem fulltrúi gestgjafa næstur á mælendskrá, vék ekki orði að gagnrýni Brasilíuforseta.

Mynd: Reinfeldt, forsætisráðherra Svía í ræðustól á Allsherjarþingininu í nótt að íslenskum tíma. SÞ-myn/Sarah Fretwell.