UN WOMEN

0
566

Aðgerðaáætlun til að efla jafnrétti á eins árs afmæli UN Women

KOnur DarfurKonur í Darfur fagna opnun skóla.7. febrúar. Michelle Bachelet, forstjóri UN Women hvetur til að fylkt verði liði um allan heim til að standa vörð um réttindi kvenna á viðsjárverðum tímum pólitískra og efnahagslegra umbreytinga í heiminum.

Michelle Bachelet, forstjóri UN Women hvatti til aukinna skuldbindinga og aðgerða í þágu kvenna og jafnréttis kynjanna, nú þegar pólitískt og efnahagslegt uppnám ógnar árangri sem náðst hefur.

Bachelet lét þessi orð falla á blaðamannafundi sem efnt var til af því tilefni að nú er ár liðið frá því Jafnréttisstofnun Sameinuðu þjóðanna (UN Women) hóf störf. Bachelet fór yfir aðgerðaáætlun stofnunarinnar nú þegar samdráttur, niðurskurður og pólitískar breytingar hafa áhrif á lif kvenna um allan heim.   

“Helsta forgangsmál mitt árið 2012 er tvíefld sókn í þágu veldeflingar og pólitískrar þátttöku kvenna. Þetta er svar við óskum kvenna en einnig andsvar við nýliðnum atburðum og pólitískum-, félagslegum- og efnahagslegum umbreytingum,” sagði Bachelet. “Við getum opnað þeim konum dyr sem sækjast eftir þeirri reisn og réttindum sem allar mannlegar verur eiga rétt á, nú þegar aukin eftirspurn er eftir réttlæti og kosningar og pólitískar breytingar eru í aðsigi í mörgum ríkjum.”

Bachelet beindi kastljósinu einkum að tveimur sviðum sem tröllriðu allri umræðu í heiminum árið 2011: lýðræðishreyfingunni í Arabaríkjunum og áframhaldandi fjármála- og efnhagskreppu.

Bachelet sagði að bæði hefðu komið fram áskoranir og tækifæri þegar réttindi kvenna væru annars vegar. UN Women hefði brugðist við þeim breytingum sem orðið hefðu; til dæmis hefði UN Women stutt stofnun Sambands egypskra kvenna, félagsskap 500 félaga, og átt þátt í ritun stofnskrár samtakanna.

UN Women starfar í sívaxandi mæli með einkageiranum. 257 forstjórar hafa skrifað undir Grundvallaratriði valdeflingar kvenna sem vísar veginn í því að skapa betri og réttlátari umhverfi fyrir konur. Þessi grundvallaratriði voru þróuð af UN Women í samvinnu við UN Global Compact.

Blaðamannafundur Bachelet markaði upphaf annars starfsárs UN Women og var farið yfir árangur fyrsta ársins og þær áskoranir og forgangsatriði sem munu einkenna 2012.  

Stjórnunarteymi UN Women hefur nú verið skipað og gengið frá stefnu- og fjárhagsáætlunum. Bachelet nefndi nokkur dæmi um árangur á fyrsta starfsárinu. Þar á meðal voru:

•    Fundur kvenkyns stjórnmálaleiðtoga á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna þar sem ályktað var um fjölgun kvenna í forystuhlutverkum í stjórnmálum.
•    Ályktun Allsherjarþingsins í desember þar sem ríki voru eggjuð til þess að grípa til raunhæfra aðgerða til að auka pólitíska þátttöku kvenna.

•    Viðleitni til að aðlaga umhverfi og markaði að þörfum dreifbýliskvenna.

•    Ný stefnumótun á heimsvísu til að binda endi á ofbeldi gegn konum og frumkvæði í þá veru að útvega nauðsynlega þjónustu við þolendur.

•    Aukinn þáttur kvenna í friðarviðræðum, uppbyggingu að átökum loknum og í að græða sár ófriðar með því að þjálfa konur í Afríku og Asíu til að miðla málum í deilum sem gætu leitt til átaka.

•    Greitt fyrir þátttöku kvenna í alþjóðlegum ráðstefnum um Afganistan og Suður-Súdan.

•    Stuðlað að hæfnisþjálfun í kynjagreiningu og samningu fjárhagsáætlana og stefnumótunar með jafnrétti að leiðarljósi.
 
•    UN Women greiddi einnig fyrir samningu áætlunar fyrir Sameinuðu þjóða-kerfið til að skjóta rótum undir betri samræmingu og reikningsskil í kynbundnum aðgerðum.

Framlög til UN Women námu 235 milljónum Bandaríkjadala sem var 33% aukning miðað við 2010 auk þess sem fjöldi greiðenda jókst. Ljóst er að bæta þarf um betur í fjársöfnun því markmiðið er 700 milljóna framlög 2012-2013.

Bachelet beindi máli sínu sérstaklega til allra samstarfsaðila og lagði áherslu á mikilvægi þess að pólítiskar breytingar og niðurskurður á fjárlögum mættu ekki verða til þess að árangur sem kvennahreyfingin hefði náð um allan heim, gengi til baka.

Hún sagði að það væri hvort tveggja siðferðileg skylda og praktísk nauðsyn að hlúa að og efla jafnrétti kynjanna.
 
“Við höfum hreinlega ekki lengur efni á því að nýta ekki möguleika helmings þegnanna. Veröldin þarf að birgja af visku- og hæfileikabrunni kvenna. Þátttaka kvenna er nauðsynlegri en nokkru sinni fyrr hvort heldur sem viðfangsefnið er fæðuöryggi, efnahagsleg viðreisn, heilsugæsla eða friður og öryggi,” sagði Bachelet.