Undirbúningur leiðtogafundar um framtíðina kominn á skrið

0
33

Leiðtogafundur um framtíðina. Fyrsta grein. Sjálfbær þróun. Undirbúningur fyrir Leiðtogafund Sameinuðu þjóðanna um framtíðina stendur nú yfir.  Ráðstefna fulltrúa borgaralegs samfélags um efni leiðtogafundarins var haldin í Nairobi í Kenía 9.-10.maí. Oddvitar þingheims munu í dag kynna sjónarmið sem þar komu fram fyrir sendiherrum Þýskalands og Namibíu. Þeir hafa tekið að sér að stýra viðræðum um lokaskjal fundarins. Fyrstu endurskoðuðu drög Sáttmála framtíðarinnar liggja nú fyrir.

Leiðtogafundur um framtíðina
Leiðtogafundur um framtíðina

Sáttmáli, samningur og yfirlýsing

Stefnt er að því að samþykkja Sáttmála framtíðarinnar, yfirlýsingu um framtíðina og samning um stafræna tækni á leiðtogafundinum.

António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðana hefur sagt að leiðtogafundurinn sé tækifæri fyrir veraldarleiðtoga til að móta skilvirkari og opnari milliríkjasamskipti í fjölpóla heimi.

Til þess þurfi að koma á endurbótum á alþjóðlega fjármálakerfinu og Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Auka beri hlut ungmenna í ákvarðanatöku. Samþykkja þurfi neyðaráætlun um viðbrögð við óvæntum hamförum á borð við farsóttir sem snerta alla heimsbyggðina.

Leiðtogafundur um framtíðina
Leiðtogafundur um framtíðina

Aðlaga milliríkjasamskipti að nútíð og framtíð

Leiðtogafundinum er ætlað að blása nýju lífi í milliríkjasamskipti. Það skal gert með því að aðlaga þau kröfum samtímans og framtíðarinnar. Í aðdraganda hans hefur verið lögð áhersla á samráð við borgaralegt samfélag, ekki síst ungt fólk.

Þýskaland og Namibía hafa í sameiningu leitt viðræður um framtíðarsáttmálann – lokayfirlýsingu fundarins. Hún hefur verið rædd á vettvangi diplómata og borgaralegt samfélag hefur haft tækifæri til að koma með innlegg, sem sjá má td. hér.

Leiðtogafundur um framtíðina
Leiðtogafundur um framtíðina

Fimm kaflar

Sáttmálanum verður skipt í fimm svið auk formála.

Þau eru sjálfbær þróun og fjármögnun þróunar, alþjóðleg friðar- og öryggismál, vísindi, tækni og nýsköpun og stafræn samvinna, æskan og komandi kynslóðir og umbreyting á alþjóðlegum stjórnarháttum. Jafnrétti kynjanna og mannréttindi ganga svo þvert á alla málaflokka.

Þýskaland og Namibía skiluðu af sér drögum að sáttmála um miðjan maí-mánuð og er hann lagður til grundvallar samningaviðræðum fram að fundinum. Sjá má drögin í heild hér.

Við munum á næstu dögum fara yfir helstu atriði draganna og byrjum á fyrsta kaflanum.

COP26
Heimsmarkmiðin

Sjálfbær þróun og fjármögnun þróunar

Viðurkennt er að Heimsmarkmiðin um sjálfbæra þróun séu í hættu og að fátækt og ójöfnuður í heiminum hafi aukist.

Í drögunum eru lagðar til eftirfarandi aðgerðir:

  • 1) Við munum grípa til djarfra, metnaðarfullra, skjótra, rétttlátra og umbreytandi aðgerða til að hrinda Áætlun 2030 (Heimsmarkmiðunum) í framkvæmd.
  • 2) Brúa þarf fjárhagslegt bil í framkvæmd Heimsmarkmiðanna með því að tryggja varanlegt, aðgengilegt, ódýrt og fyrirsjáanlegt þróunarfjármagn. Einnig þarf að skilgreina  skilvirkar leiðir til að hrinda þeim í framkvæmd.

    Saint-Louis í Senegal.
    Saint-Louis í Senegal. Mynd: Árni Snævarr

Enn eru ítrekuð fyrri fyrirheit um að þróuð ríki verji 0.7% þjóðarframleiðslu til þróunarsamvinnu. Þá er hvatt til baráttu gegn ólöglegum fjármagnsflutningum, skattsvikum og spillingu. Stefnt er að öflugri og nánari samvinnu í skattamálum og að lokið verði við Skattasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Sem dæmi um hve brýnt er að koma til móts við fátækustu ríki heims má nefna að á þessu ári þurfa þessi ríki að greiða meira af lánum en sem samsvarar samanlögðum útgjöldum til heilbrigðis, menntunar og innviða.

  • 3) Tryggja ber að alþjóðlega viðskiptakerfið verði drifkraftur fyrir sjálfbæra þróun.
  • 4) Fjárfesta skal í fólki, og félags- og efnahagslegri þróun þeirra, til að binda enda á fáækt og efla traust og félagslega samheldni.

Lýst er áhyggjum af þrálátum ójöfnuði innan og á milli ríkja. Framfarir á sviði félagslegrar verndar, gæðamenntunar og heilsugæslu sem nái til allra og sómasamlegrar atvinnu séu of hægar. Einnig er lögð áhersla á nauðsyn vatns-, hreinlætis- og salernisaðstöðu fyrir alla.

  • 5) Efla ber viðleitni til að þróa friðsæl, réttlát og opin samfélög. Tryggja skal öllum réttlæti og virðingu fyrir mannréttindum.
  • 6) Jafnrétti kynjanna og valdefling kvenna skulu efld. Vernd kvenna og stúlkna er þýðingarmikil forsenda þess að Heimsmarkmiðunum um sjálfbæra þróun verði hrint í framkvæmd.

Sérstaklega er kveðið á um að uppræta ofbeldi gegn konum.

Listmunur fra hinu gamla konungdæmi Benín úr bresku safni
Listmunur fra hinu gamla konungdæmi Benín úr bresku safni. Mynd: Sailko/Creative Commons Attribution-Share Alike 3.0
  • 7) Líta ber á vernd og eflingu menningar sem óaðskiljanlegan hluta sjálfbærrar þróunar.

Hér má sérstaklega nefna að kveðið er á um að „uppbyggilega þátttöku í tvíhliða viðræðum“ um að skila eða afhenda upprunaríkjum menningarlegum eignum sem hafa trúarlega, sögulega eða menningarlega þýðingu og efla alþjóðlega samvinnu um þetta efni.

  • 8) Við munum berjast gegn loftslagsbreytingum, styðja þróunarríki í viðleitni til að aðlagast áhrifum þeirra og tryggja að þau fái það fjármagn sem þau þurfa.
  • 9) Hraða aðgerðum til að vernda umhverfið.

 Hér er sérstaklega kveðið á um að takast á við innbyrðis tengd vandamál á borð við afleiðingar loftslagsbreytinga, tap fjölbreytni lífríkisins, mengun, vatnsskort, flóð og eyðimerkurmyndun, svo eitthvað sé nefnt.

  • 10.) Við munum semja áætlanir til að búa okkur undir framtíðina og efla sameiginlega viðleitni til að draga úr ójöfnuði og halda áfram sjálfbæru þróunarstarfi eftir 2030.
  • Nálgast má samningsdrögin eins og þau voru um miðjan maí hér.
  • Nánari upplýsingar um fundinn má finna hér, hér og hér.