A-Ö Efnisyfirlit

Úr fangelsi í Sýrlandi til Hvíta hússins   

Omar Alshogre mátti þola þriggja ára barsmíðar, hungur og þorsta í fangelsi í Sýrlandi. Hann sætti pyntingum, bæði andlegum sem líkamlegum. Hann var á köflum sannfærður um að hann myndi ekki lifa fangavistina af, en það gerði hann engu að síður. Hann losnaði úr fangelsi og eins og fjöldi flóttamanna fékk hann landvist í Svíþjóð. Nú býr hann í Stokkhólmi og helgar líf sitt mannréttindum og baráttu í þágu landa sinna sem enn eiga undir högg að sækja í heimalandinu. 

Sýraland flóttamenn
Omar í dag.

Í ársskýrslu Flóttamannastjóra Saeminuðu þjóðanna  (United Nations High Commissioner for Refugees (UNHCR)), hefur 1 % mannkyns flosnað upp frá heimilum sínum. Tveir þriðju hlutar allra þeirra sem hafa orðið að flýja land í heiminum koma frá Sýrlandi og fjórum öðrum ríkjum. Meir en 5.6 milljónir hafa flúið Sýrland frá 2011 og 13.1 milljón líður skort í landinu. Ástandið er talið alvarlegasta flóttamannamál okkar tíma. Að baki talnanna er fólk af holdi og blóði.

Vefsíða UNRIC ræddi við Omar sem flúði land eftir margra ára fangelsisvist. Hann er nú 25 ára og við hittum hann í stofunni heima hjá honum og á veggnum að baki honum er málverk þar sem greina má orðið “Everything is the attitude”.  Um dagana hefur hann mátt þola mikið ofbeldi og mörg ár í alræmdustu fangelsum Sýrlands. Hugarfar hans hefur bjargað honum marg sinnis.

Stigmögnum sem leiddi til átaka

Sýrland flóttamenn
Omar var 34 kíló og berklaveikur þegar móður hans tókst að fá hann lausan gegn mútugreiðslu.

Omar ólst upp í Baniyas á Miðjarðarhafsströnd Sýrlands. Æska hans var eins og gerist og gengur og ólst hann upp með foreldrum og systkinum; horfði á barnaefni í sjónvarpinu, sinnti heimavinnunni og umgekkst vini og fjölskyldu.

Hann tók þátt í friðsamlegum mótmælum á svokölluðu Arabíska vorinu 2011. Breytingar á samfélaginu fóru ekki framhjá honum þegar mótmælin hófust því lögregla varð sífellt meira áberandi og ofbeldi fór í vöxt. Hann var barn en kunni að meta og tók þátt í mótmælum.

„Ég var venjulegt barn og taldi lögregluna gegna því hlutverki að vernda okkur. Þegar glæpur var framinn handtók lögregla hinn seka. Mér datt aldrei í hug að hún handtæki saklaust fólk,“ segir Omar.

„Mótmælin voru í mínum barnsaugum hátíð. Við þrömmuðum um götur, öll börnin og fjölskyldur þeirra fylktu liði, við hlustuðum á tónlist og dönsuðum. Þetta var fjör – eins og á tónleikum.“

En það leið ekki á löngu þar til Omar áttaði sig á því að hrottaskapur lögreglu færðist í vöxt.

„Lögregla spurði mig hve marga hermenn ég hefði drepið og ég fór að hlæja. Ég var fimmtán ára og móðir mín lét mig ekki einu sinni flysja kartöflur því hún var svo hrædd um að ég myndi meiða mig með hnífnum. Þeir vissu að ég hefði ekki gert neitt, ég var bara barn.“

Omar segist hafa verið mjög ringlaðan enda sannfærður um að lögreglan ynni í þágu hins góða.

„Þegar átökin stigmögnuðust hugsaði ég fyrst um það eitt að ég gæti ekki lengur gengið í skóla. Án skólans myndi ég heltast úr lestinni og stelpan sem ég var skotinn í myndi sjá að mér gengi ekki vel. Þetta voru aðaláhyggjur mínar,“ segir Omar brosandi. En hann vissi ekki hve lengi átökin myndu standa og hversu mikinn sársauka og mótlæti hann ætti eftir að þola.

Leiðir til að lifa lengur

Omar var handtekinn og stungið í fangelsi 2012 ásamt þremur frændum sínum Bashir, Rashad, og Nour, en Omar er sá eini sem er til frásagnar. Elsti frændinn Bashir dó í fangi hans í fangelsinu.

„Þegar Bashir lést hafði ég tapað öllu. Það hafði verið blóðbað í heimabæ mínum, margir frændur voru látnir í fangelsi, margir vinna minna létust þegar þeir sprengdju skólann minn, og alla borgina. Ég hafði að engu að hverfa utan fangelsisins og var tómur að innan,“ segir Omar.

Hann var afar vondaufur svo mánuðum skipti í fangavistinni, honum fannst hann hafa lítið til að lifa fyrir og að með dauðanum væri endi bundinn á þjáningar. En einn daginn ákvað hann að streitast á móti og hafa eitthvað fyrir stafni.

„Það var afar þröngt á þingi og við gátum varla hreyft okkur. Ég byrjaði á að teygja úr handleggjunum. Ég vissi að ég myndi deyja, en með því einu að teygja mig hafði ég fundið haldreipi. Smátt og smátt fann ég vonina og og sætti mig við dvölina.“

Háskóli hvíslsins

Sýrland flóttamenn
Omar sýnir hvernig hann varð að sitja í fangaklefanum – nakinn

Eftir því sem hann sættist á tilveru sína fór hann að líta öðrum augum á hlutina og hugsa á nýjan hátt. Smátt og smátt fór hann að færa sér í nyt þá þekkingu sem aðrir fangar höfðu.

„Annar fangi kenndi mér að búa um sárin þegar ég sneri aftur í klefann eftir pyntingar. Sá sem var vinstra megin við mig var verkfræðingur sem vissi allt um fangelsisbyggingar. Hægra megin var lögfræðingur sem talaði um enduruppbyggingu án einræðisherra. Fyrir aftan mig var sálfræðingur sem sagði mér frá því hvernig hægt væri að takast andlega á við erfiðleika. Allt þetta fólk var vel menntað. Ég hafði aldrei hugsað um þetta sjálfur en nú ákvað ég að læra af öðrum.“

Þessi gagnkvæma kennsla hófst og þeir kölluðu hana „hvísl-háskólann“. 

„Við töluðum ekki saman heldur hvísluðum, því okkur biðu enn meiri pyntingar ef við vorum staðnir að því að tala saman. Við völdum kennslunni nafn, „hvísl-háskólinn“, til að gæða hana merkingu og alvöru í okkar augum,“ segir Omar.

„Þetta snerist um að finna upp á einhverju sem hefði einhverja merkingu og gerði það þess virði að þola pyntignar og fangelsisvist. Það tók langan tíma að geta hugsað á þessum nótum, en það hófst að lokum.“

„Þekking kemur ekki til þín úr veggjunum heldur frá fólkinu í kringum þig. Hún á rætur að rekja til samskipta við annað fólk. Í krafti Hvísl-háskólans fundum við leiðir til þess að halda lengur út,“ heldur Omar áfram. „Þetta er það sem lífið snýst um, að finna merkingu og tilgang og að taka því sem að höndum ber með réttu hugarfari, þó svo að það sé erfitt.“

Leiðin langa til Svíþjóðar

Móðir hans mútaði spilltum lögregluþjóni og þökk sé 20.000 Bandaríkjadölum sem runnu í vasa hans, var aftaka sett á svið og honum síðan leyft að hverfa á braut í skjóli nætur.

Þá var Omar tvítugur, aðeins 34 kíló að þyngd og berklaveikur.

Omar varð að leita sér lækninga og það gat hann ekki gert í Sýrlandi. Hann og litli bróðir hans Ali flúðu til Evrópu. Þeir komust yfir Miðjarðarhafið um borð í bátskænu frá Tyrkalndi sem sökk næstum því áður en komið var til áfangastaður í Grikklandi.

Frá Grikklandi héldu þeir þvert fyrir meginland Evrópu þar til þeir komu til Malmö í Svíþjóð. Þar fékk Omar loks þá umönnun sem hann þurfti á að halda og náði fullri heilsu. Hann og bróðir hans voru á meða næstum því 163 þusund flóttamanna sem komu til Svíþjóðar 2015. Hann var fljótur að skjóta rótum eftir að hann náði heilsu og fékk fyrst starf sitt við að búa til ís.

Í dag starfar Omar við að halda opinbera fyrirlestra og vekja fólk til vitundar um fanga í Sýrlandi og talar um sína eigin fangavist. Hann talar bæði sænsku og ensku reiprennandi og hefur haldið fyrirlestra á stöðum á borð við Hvíta húsið auk þess sem hann hefur kynnt málstað sinn fyrir fjölda bandarískra þingmanna, hjá New York Times og í Brown háskóla.

Hann hefur verið verðlaunaður af Svía-konungi fyrir sterka samkennd, hugrekki og gott gildismat. Markmið hans er nú að vinna að því að sýrlensk stjórnvöld þurfi að sæta ábyrgð fyrir gjörðir sínar. Hann segir að sá hugsanagangur sem hann tamdi sér í fangelis muni verða honum veganesti það sem hann á eftir ólifað.

„Þess vegna lifi ég svo hamingjusömu lífi í dag.“

Omar telur að alþjóðasamtökum beri að einbeita sér fremur að mannúðarmálum en stjórnmálum til að hjálpa fólki sem á um sárt að binda í Sýrlandi og leysa deilurnar.

„Það er kominn tími til að forystusveitin taki mannúð fram yfir pólitíska refskák. Öllu hefur verið snúið upp í pólítik núorðið, við verðum að breyta því og sjá til þess að aðgerðir miði fremur við þarfir fólksins en hagsmuni einstakra ríkja,“ segir hann að lokum.

Fréttir

Frumbyggjar: Sanneiksnefndir og aukinn áhugi

Áhugi á frumbyggjum Norðurlanda hefur aukist verulega jafnt í alþjóðamálum sem menningum og listum á undanförnum áratugum. Annars vegar Inúitar á Grænlandi og hins vegar Samar í Finnlandi, Noregi og Svíþjóð og raunar einnig Rússlandi teljast til frumbyggja. Stjórn Grænlendinga í eigin málum hefur farið vaxandi og sannleiks- og sáttanefndir hafa verið stofnaðar eða eru í undirbúningi um málefni Sama í öllum þremur Norðurlanda þar sem þeir búa. 9.ágúst er alþjóðlegur dagur frumbyggja.

SÞ taka virkan þátt í hjálparstarfi í Líbanon

Sameinuðu þjóðirnar vinna náið með yfirvöldum í Líbanon við að takast á við afleiðingar...

Tími kominn til að binda enda á kjarnorkuvána

Þess er minnst á vettvangi Sameinuðu þjóðanna að 75 ár eru liðin frá kjarnorkuárásunum á japönsku borgirnar Hiroshima og Nagasaki. Í myndbands-ávarpi í dag vottaði António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna fórnarlömbum árásanna virðingu sína og lauk lofsorði á eftirlifendur og baráttu þeirra gegn kjarnorkuvopnum.

Þurfum meira á menntun að halda en nokkru sinni...

Skólar voru lokaðir í 160 ríkjum um miðjan síðasta mánuð og meir en 1 milljarður námsmanna naut ekki kennslu vegna COVID 19 faraldursins. „COVID-19 faraldurinn hefur haft í för með sér mestu truflun í sögu menntunar,” sagði António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna þegar hann fylgdi úr hlaði stefnumótunarskýrslu um stöðu  mennntunar á tímum faraldursins.

Álit framkvæmdastjóra