Utanríkisráðherra: Með lögum skal land byggja

0
322
77.allsherjarþing SÞ
Forsætis- og utanríkisráðherra í fararbroddi sendinefndar Íslands á 77.allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Mynd: UN Photo/Loey Felipe

Allsherjarþingið. Sameiginleg ábyrgð þjóða heims á þeim gildum sem alþjóðakerfið hvílir á var leiðarstefið í ræðu Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Innrás Rússa í Úkraínu, umhverfis- og loftslagsmál og mannréttindi, meðal annars út frá máli ungrar konu sem lést í varðhaldi Íran, voru á meðal helstu umfjöllunarefna ræðunnar.

77.allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna.
Þórdís Kolbrún Reykfjörd Gylfadóttir flytur ræðu Íslands á 77.allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Mynd: UN Photo/Ariana Lindquist

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra flutti ræðu Íslands á 77. allherjarþingi Sameinuðu þjóðanna sem nú stendur yfir í New York. Í upphafi ávarpsins áréttaði hún að mikilvægi allsherjarþingsins og að þar stæðu öll ríki heims jöfn. „Hvort sem við erum fulltrúar risaveldis eða eins af þeim rúmlega sjötíu aðildarríkjum sem hafa, líkt og Ísland, innan við eina milljón íbúa þá eigum við öll jafn mörg sæti við borðið, hvert okkar hefur eitt atkvæði og við megum öll láta rödd okkar heyrast úr þessum ræðustól,“ sagði ráðherra í ræðunni.

Fundarhamar, gjöf Íslendinga

Í framhaldinu ræddi Þórdís Kolbrún fundarhamarinn sem Íslendingar gáfu Sameinuðu þjóðunum og notaður er í sal allsherjarþingsins. Sagði hún að þótt hann léti lítið yfir sér fylgdi honum dagskrárvald í umræðum valdamesta fólks heims og áletrunin „Með lögum skal land byggja“ minnti á þá reglu sem ríkja á í samskiptum þjóða. Eftir margra ára friðar- og uppbyggingartímabil væru nú blikur á lofti vegna styrjalda, náttúrhamfara og annarrar ógna. „Það er skylda okkar sem leiðtoga, ekki síst okkar sem tilheyrum yngri kynslóðum, að sofna ekki á verðinum í skjóli þess sem hefur áunnist undanfarna áratugi. Við verðum að láta einskis ófreistað að styðja við hið alþjóðlega kerfi og sannfæra íbúa heims um að þrátt fyrir vankanta sé það miklu betra en nokkur önnur leið til þess að leysa úr ágreiningi milli ríkja,“ sagði hún.

Úkraína

Þórdís Kolbrún á 77.allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna.
Þórdís Kolbrún á 77.allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna. Mynd: UN Photo/Mark Garten

Stríðið í Úkraínu var ráðherra ofarlega í huga í ræðunni, sem hún sagði hrollvekjandi áminningu um hvernig heimurinn liti út ef eyðileggingaröfl fengju að ráða örlögum þjóða frekar en sköpunargeta. „Því vil ég árétta áður en ég fjalla um alþjóðamálin að öðru leyti að í þágu mannkyns verður Úkraína að sigra. Árás Rússlands verður að hrinda og þeim sem bera ábyrgð á voðaverkum í skjóli innrásarinnar verður að refsa.”

(Stjórnarráðið)