Til hamingju með Vesak!

0
804

Búddistar víða um heim halda í dag upp á „Vesak“ fæðingardag Búdda. Daginn ber ýmist upp á dag fulls tungs í apríl eða maí samkvæmt okkar tímatali. Þennan dag fyrir um tvö þúsund og fimm hundruð árum, 623 fyrir Krist, fæddist Gautama Búdda. Sama dag öðlaðist hann uppljómun og lést síðan á áttugasta aldursári.

Frá árinu 1999 hafa Sameinuðu þjóðirnar haldið alþjóðlegan dag Vesak í virðingarskyni við búddisma, ein elstu trúarbrögð heims.

Búddismi er í senn trúarkenning og heimspeki sem felur í sér að allt í heiminum sé hverfult. Á vísindavef Háskóla Íslands er lífspeki búddisma lýst á þann veg að í veröldinni sé allt síbreytilegt, ekki bara maðurinn. Allt komi og fari, verði til og hverfi. Þess vegna sé mannleg tilvist sársaukafull.

Gautama Búdda hafi hins vegar kennt að til væri lausn frá áþján heimsins, til þess sem meðal annars er nefnt nirvana. “Lausnin er fólgin í hinum áttfalda vegi. Hann felst í eftirfarandi atriðum: Réttum viðhorfum, réttum ásetningi, réttri ræðu, réttri breytni, réttu líferni, réttri áreynslu, réttu hugarfari og réttri hugleiðslu,” segir á vísindavefnum.

Innblástur í kenningar Búdda

Talið er að hátt í 400 milljónir manna í heiminum séu búddistar. Flestir þeirra eru í Asíu en búddatrúa á rætur að rekja til Indlands.

António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna sendi búddistum um allan heim bestu kveðjur í ávarpi í tilefni dagsins. “Hvort sem við erum búddistar eða ekki, getum við öll sótt innblástur í kenningar Búdda um heiðarleika, samkennd og virðingu fyrir öllu því sem lifandi er. Nú þegar við horfumst í augu við varanleg áhrif COVID-19 er okkur enn ljósara en ella að auðmýkt og samkennd eru lykill að velferð okkar og plánetunnar okkar.”