Við verðum að þora að tala um kúk

0
488

 klósett

28.maí 2014. Eitt barn deyr á hverri mínútu, sextíu á klukkustund, 1,440 á hverjum degi vegna skorts á almennilegu klósetti.

Þriðjungur mannkyns hefur ekki aðgang að salerni.Samt sem áður á fólk hvarvetna í heiminum erfitt með að tala um kúk og skít vegna þess að bannhelgi hvílir á þessu. Í besta falli er þetta notað sem skammaryrði.
Verst er þó þegar menn þora ekki að nefna hlutina réttum nöfnum þegar þróunarstarf er annars vegar.
620 milljónir Indverjar verða að gera sér að góðu að kúka undir berum himni. Þetta er uppspretta sjúkdóma enda er uppskeran 65 milljón kíló úrgangs á hverjum degi.

 

Tveir og hálfur milljarður manna hefur engan stað til að ganga örna sinna. Sameinuðu þjóðirnar hafa ákveðið að láta til sín taka enda er tómt mál að tala um að útrýma sjúkdómum eins og gert er ráð fyrir í Þúsaldarmarkmiðunum um þróun, ef þetta er látið ógert.
Herferðin miðar að því að rjúfa bannhelgina sem hvílir á því að stór hluti jarðarbúa kúkar á víðavangi. Og að rjúfa þögnina um það að fólk, aðallega börn, deyr af völdum þessa hvimleiða ósiðs.

Nú þegar hefur alþjóðasamfélagið nýverið tekið upp á arma sína Alþjóðlega klósettdaginn, 19.nóvember. Jan Eliasson, varaframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hefur beitt sér í þessu máli. Hann segir : „Það er kominn tími til að tala um að fólk þurfi að kúka á víðavangi, utandyra. „Við þurfum að ræða staðreyndir, lausnir og afleiðingar“.