Vísitala fjölmiðlafrelsis: 4 Norðurlönd efst en Ísland er í 18.sæti

0
151

Fjölmiðlafrelsi. Noregur trónir á toppnum sjöunda árið í röð í vísitölu fjölmiðlafrelsis, sem Fréttamenn án landamæra (RSF) taka saman árlega. Fjögur Norðurlandanna; Danmörk, Finnland og Svíþjóð, auk Noregs, eru á meðal fimm efstu.

Ísland var í efsta sæti listans fyrir hrun 2008, en hefur undanfarin ár verið í kringum fimmtánda sæti. Enn sígur á ógæfuhliðina því að að þessu sinni fellur landið um þrjú sæti og situr í því átjánda.

Að mati RSF njóta fjölmiðlar á Íslandi hvort tveggja öflugrar lagalegrar verndar og mikils trausts almennings. Hins vegar er sjálfstæði þeirra, sem þegar er skert vegna smæðar markaðarins, ógnað af sjávarútveginum.

Vísitalan 2023 ber þess merki að falsfrétta-framleiðsla hefur aldrei verið meiri og áróður og upplýsingaóreiða grafa undan fréttaþjónustu og fjölmiðlafrelsi. Magn rangra og misvísandi upplýsinga, falsfrétta, áróðurs, þróun gervigreindar, auk vaxandi tilhneigingar til að hafa áhrif á innihald, ógna fjölmiðlarfrelsi.

Starfsumhverfi blaðamennsku erfiðara

Mynd: Michal Matlon/Unsplash

Við gerð vísitölunnar er starfsumhverfi blaðamennsku í 180 ríkjum og svæðum krufið til mergjar. Ástandið er talið mjög alvarlegt í 31 ríki, erfitt í 42, vandasamt í 55, gott eða viðunandi í 52.

Til að gera langa sögu stutta er starfsumhverfi blaðamanna slæmt í sjö af hverjum tíu ríkjum.

Írland skýtur sér á milli skandinavísku ríkjanna Noregs og Danmerkur á toppnum, en í fjórða sæti er Svíþjóð og svo Finnland.

Ísland er sem fyrr segir í átjánda sæti en neðar eru ýmis nágrannaríki okkar til dæmis Þýskaland (21), Frakkland (24) og Bretland (26).

Sérstaka athygli vekur svo að Bandaríkin eru heldur aftarlega á merinni eða í fertugasta og fimmta sæti á milli Gambíu og Tonga. Rússland er svo númer 164.

 Asíuríki á botninum

Athygli vekur að Indland, nýbakað fjölmennasta ríki heims fellur úr 150.sæti í það 161. Asíuríki eru í þremur neðstu sætanna. Víetnam er í þriðja neðsta sæti en næstneðst er næstfjölmennasta ríki heims, Kína. Hvergi eru jafnmargir blaðamenn fangelsaðir og þar. Botninn vermir svo Norður-Kórea.

Þetta er í tuttugasta og fyrsta skpti sem Fréttamenn án landamæra (RSF) taka saman fjölmiðlarfrelsis-vísitöluna (World Press Freedom Index) á Alþjóðlegum degi fjölmiðlafrelsis 3.maí. Þetta er í annað skipti sem fimm atriði eru sérstaklega gaumgæfð: pólitískt samhengi, lagalegur rammi, efnahagslegt samhengi, félags-menningarlegt samhengi og öryggi.

Sjá má listann í heild hér. 

Sjá einnig hér og hér