Zeid: lýðskrumarar nota aðferðir Daesh

0
483
Zeid picture resized 2

Zeid picture resized 2

6.september 2016. Mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna hefur sakað lýðskrumara í evrópskum og bandarískum stjórnmálum um að nota sömu aðferðir og hryðjverkasamtökin Daesh.

Í ræðu sem mannréttindastjórinn Zeid Ra’ad al-Hussein hélt í gær í Haag í Hollandi beindi hann sérstaklega spjótum sínum að Geert Wilders, leiðtoga PVV flokksins sem er talinn lengst til hægri í hollenskum stjórnmálum og sakaði hann um að nota fordóma sem pólitískt vopn.

Hann sagði að hann og stjórnmálamenn á borð við bandaríska forsetaframbjóðandann Donald Trump og Nigel Farage, baráttumanninn fyrir úrsögn Breta úr Evrópusambandinu,notuðu sömu aðferðir og Daesh, eða hið svokallaða Íslamska ríki.

Að sögn BBC hefur Wilders sagst munu loka öllum moskum og banna kóraninn og íslamska innflytjendur. Flokkur hans hefur forystu í skoðanakönnunum en kosið verður í Hollandi á næsta ári.

Zeid sagði í ræðu sinni að hann beindi máli sínu til Geert Wilders, áhangenda hans og „allra slíkra lýðskrumara.” 

Mannréttindastjórinn sagði að það sem Wilders ætti sameinlegt með Trump og Farage og Victor Orban, forsætisráðherra Ungverjarlands, Miloš Zeman, forseta Tékklands, Robert Fico, forsætisráðherra Slóvakíu og hægriöfgamönnum á borð við Marine Le Pení Frakklandi og Norbert Hofer í Austurríki; „ætti hann líka sameiginlegt með Daesh”.

Hann sagðist þar eiga við hugmyndafræði hryðjuverkasamtakanna.

HCSpeech5Sept„Enginn skyldi velkjast í vafa um það að ég er alls ekki að líkja athöfnum lýðskrumara við ódæði Daesh. En Daesh notar í samskiptaaðferðum sínum; notkun hálfsannleika og ofur-einfaldanna, sömu áróðursaðferðir og lýðskrumararnir.”

Hann sagði að bæði Daesh og þessir stjórnmálamenn töluðu um að endurheimta glæsta fortíð, þar sem „fólk bjó saman við frið og laust við glæpi, erlenda íhlutun og stríð…Fortíð sem var nánast örugglega hvergi nokkru sinni til. Fortíð Evrópu var eins og við vitum öldum saman svo sannarlega ekki neitt þessu lík.”

„Uppskriftin er einföld: að láta fólki sem er þegar uggandi, líða hræðilega og halda því svo fram að það sé vegna þess að hópur hafi smyglað sér inn í raðir þess; útlendur og ógnandi. Því næst er markhópnum strokið með því að bjóða þeim lausn sem er þeim draumaheimur en er öðrum hroðalegt óréttlæti. Að espa fólk upp og sefa reiðina til skiptis og endurtaka þetta nógu oft þar til kvíði er orðinn að hatri,” sagði mannréttindastjórinn í ræðu sinni í Haag í gær.

Hér má lesa ræðu Mannréttindastjórans í heild. 

Mynd: UN Photo/Rick Bajornas.