Alþjóðlegur dagur ferskvatns: Hvert fer rigningin?

0
213
Vatn
Framkvæmdir við Thames.Mynd: © Tideway

Alþjóðlegur dagur ferskvatns. Mikil úrkoma getur valdið miklu álagi á afrennsliskerfi borga. Stundum veldur það flóðum og að skolp flæðir yfir. Búist er við öfgakenndara veðri vegna loftslagsbreytinga og því er aðgerða þörf á þessu sviði.  22.mars er Alþjóðlegur dagur ferskvatns og sama dag hefst Vatnsráðstefna Sameinuðu þjóðanna.

Víða eru borgir að þróa áætlanir til að bæta gæði neysluvatns og efla þolgæði þegar loftslagið er annars vegar. Þetta var til umfjöllunar nýlega á ráðstefnu í Brussel þar sem fulltrúar Kaupmannahafnar, Lundúna og Parísar, auk belgísku höfuðborgarinnar sögðu frá viðleitni sinni á þessu sviði.

 Ofurræsi Lundúna

Vatn
Lundúnarigning. Mynd Raimond Klavins/Unsplash

Lundúnir treysta á hundrað og fimmtíu ára ræsakerfi frá Viktoríutímanum. Þá var íbúafjöldinn innan við helmingur af því sem nú er: nærri 9 milljónir íbúa. Jafnvel í létt úrkoma getur valdið því að ræsi flæða yfir og milljónir tonna af óhreinsuðu skólpi rennur út í ána Thames af þeim völdum árlega.

Til þess að halda ánni hreinni er verið að leggja 25 kilómetra langa skólpleiðslu til að taka við, hýsa og flytja skólp um langan veg. Þetta er engin venjulega leiðsla því hún er álíka breið og þrír strætisvagnar.

Verkefnið í Lundúnum er talið munu kosta andvirði 4.9 milljarða evra. Fjármögnunin er háð því að framkvæmdin uppfylli sjálfbærnistaðla. Þar má nefna Heimsmarkmiðin um sjálfbæra þróun, sérstaklega markmiðin um hreint vatn og hreinlæti (númer sex) og sjálfbærar borgir (númer ellefu)

Einnig er vonast til að framkvæmdin stuðli að því að bæta líffræðilegan fjölbreytileika í ánni. Ekki er tjaldað til einnar nætur því vonir standa til að frá því að verkið verði klárað 2025 muni það vernda ána í næstu hundrað ár.

Skýfall í Kaupmannahöfn

Vatn
Kaupmannahöfn: Maksym Potapenko

Árið 2011 urðu flóð í Kaupmannahöfn eftir skýfall, eða öfgakennda en skammvinna rigningarskúr. Á tveimur tímum féllu 150 millimetrar af úrkomu, og urðu skemmdir sem metnar eru á nærri eina milljón evra.

„Þetta sýndi okkur hve viðkvæm borgin er þegar loftslagsbreytingar eru annars vegar og að því leyti markaði þetta þáttaskil í borginni,“ sagði Lykke Leonardsen forstöðumaður þolgæðis og sjálfbærrar borgar í Kaupmannahöfn.

Kaupmannahöfn þróaði áætlun um að stýra regnvatni. Um er að ræða 350 vekefni sem talin eru munu kosta 1.6 milljarð evra.

Talið var of kostnaðarsamt að bæta við núverandi afrennsliskerfi. Þess í stað var ákveðið að byggja á fyrirliggjandi innviðum á yfirborði sem nota mætti til að taka á móti eða flytja vatn.

Vatn
Mynd: Tideway.

„Það þarf að hugsa snjallt. Við búum yfir görðum og torgum. Það má nota þetta til þess að hýsa vatnið,“ segir Lykke Leonardsen. „Þegar það rignir ekki þjóna þessi svæði því hlutverki að vera ný opin svæði fyrir almenning og bæta fjölbreytileika lífríkisins.“

Í Enghave-garðinum hefur verið hlaðinn múr, sem getur haldið aftur af 23 þúsund rúmmetrum af vatni í sólarhring. Þegar þurrt er, er múrinn einungis til prýði í garðinum. Garðar víðar í borginni þjóna einnig sem vatnsþrór. Þá eru neðanjarðargöng einnig notuð sums staðar sem afrennsli.

Talið er að það taki 20 til 30 ár að ljúka öllum verkefnum.

 Að synda í Signu  

Signa
París. Mynd: J Shim/Unsplash

Parísarborg hefur sett sér það markmið að hægt verði að synda í Signu árið 2025. Betur má ef duga skal því í dag renna tvær milljónir rúmmetra af menguðu vatni í ánna þegar ræsin flæða yfir. Reyndar er þetta mikil minnkun frá níunda áratug síðustu aldar þegar 20 milljónir rúmmetra mengaðs vatns runnu í ána í ofsaveðrum.  París hefur tekið saman áætlun, sem kostar 1.2 milljarð evra að framkvæma, til þess að uppræta algjörlega slíkan leka mengaðs vatns í Signu.

Hluti áætlunarinnar er að byggja vatnsþró undir Marie Curie garðinum í suðausturhluta borgarinnar. Þar má safna álíka miklu regnvatni og kæmust fyrir í 20 ólympískum sundlaugum. Með því móti má koma í veg fyrir að ræsi flæði yfir og vatnið lendi í ánni.  Þá er einnig verið að laga skólp frá heimilum til að vatnið lendi ekki í ánni. Sama gegnir um báta sem liggja við akkeri í ánni.

Signa
Signa © Unsplash/John Towne

 „Ólympíuleikarnir og leikar fatlaðra voru helstu hvati aðgerða,” segir Anita Ravlic hjá Parísarborg.

Vonast er til að sumar keppnisgreinar Ólympíuleikanna fari fram á ánni. Borgin vonast til að Signa verði öllum aðgengileg frá og með 2025, en þá er stefnt að því að fimm baðsvæði verði opnuð innan borgarmarkanna.

Vatnsstjórnun í Brussel

Í Brussel renna tíu milljónir rúmmetra skolps í ánna Senne og síki borgarinnar.  Þetta stendur til bóta og er unnið eftir fimm ára áætlun til að stemma stigu við menguninni. Verið er að hreinsa burtu hindranir fyrir fiskgengd, laga bakkana og auka skilvirkni vatnshreinsunarstöðva. Sérstaklega er reynt að hindra rennsli mengaðs vatns í ána og yfirflæði skolps. Engin tímamörk eru á hvenær tekið verður fyrir rennsli tíu milljón rúmmetranna í ána.

Vatnsráðstefna Sameinuðu þjóðanna

Vatnsráðstefnan stendur yfir í New York 22.-24.mars
Vatnsráðstefnan stendur yfir í New York 22.-24.mars

Á Vatnsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna gefst tækifæri sem gefst einu sinni á líftíma hverrar kynslóðar til að fylkja liði um málefni vatns.

Ríkisstjórnir og hlutaðeigandi aðilar frá öllum stigum samfélagsins  koma saman til funda og skuldbinda sig til aðgerða. Á ráðstefnunni verður ýtt úr vör Vatnsaðgerða-áætlun, sem inniheldur skuldbindingar fólks úr öllum heimshornum.

Í ávarpi sínu á Alþjóðlega ferksvatnsdagsins segir António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna að vatn sé „lífsblóð veraldarinnar” og minnti á hlutverk einstaklinga og samfélaga við að vernda vatn og nota á sjálfbæran hátt.

„Við megum engan tíma missa. 2023 ætti að vera árið þegar við umbyltum og fjárfestum í lífsblóði mannkynsins.“

Sjá nánar um Vatnsráðstefnuna hér.