Aukið kynferðislegt ofbeldi í Úkraínu

0
519
Stúlka á sjúkrahúsi í Kiyv.
Stúlka á sjúkrahúsi í Kiyv. © WHO/Anastasia Vlasova

 Sima Bahous forstjóri Jafnréttisstofnunar Sameinuðu þjóðanna segir að stofnuninni berist sífellt fleiri frásagnir af nauðgunum og kynferðislegu ofbeldi í Úkraínu.

Hún sagði í ávarpi á fundi Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna að hætta á mansali, sérstaklega ungra kvenna og fylgdarlausra unglinga, væru einnig mikið áhyggjuefni.

Sima Bahous, forstjóri UN Women, á fundi Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna í gær.
Sima Bahous, forstjóri UN Women, á fundi Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna í gær. Mynd: UN Photo/Manuel Elías.

Bahous sagði að frásagnir um nauðganir og aðra glæpi bærust nú þegar Úkraínubúar flýðu heimili sín í stríðum straumum. Á sama tíma og fjöldi fólks væri á vergangi réðu hermenn og málaliðar lögum og lofum og óbreytir borgarar væru drepnir á villimannlegan hátt.

 Margir háttsettir embættismenn Sameinuð þjóðanna hvöttu til rannsóknar á ofbeldi gegn konum samfara innrás Rússlands í Úkraínu á fundi ráðsins sem haldinn var í gær að frumkvæði Albaníu og Bandaríkjanna.

UNFPA aðstoðar konur

Önnur stofnun Sameinuðu þjóðanna, UNFPA; Mannfjöldastofnun samtakanna, hefur áður hvatt til rannsóknar á kynferðislegu ofbeldi í Úkraínu.

“Nauðgun og annars konar kynferðislegt ofbeldi eru alvarleg brot á alþjóðlegum mannúðar- og mannréttindalögum og fela í sér stríðsglæpi,“ sagði Natalia Kanem forstjóri UNFPA í yfirlysingu.

Látnar eru í ljós áhyggjur eru af afdrifum fylgdarlausra unglinga.
Látnar eru í ljós áhyggjur eru af afdrifum fylgdarlausra unglinga. Mynd: WHO.

UNFPA hefur ásamt samstarfsaðilum sínum náð til einnar milljónar, aðallega kvenna, með upplýsingum um vernd gegn kynbundnu ofbeldi og heilsugæslu á sviði kynferðis- og frjósemi, auk sálfræðilegrar aðstoðar. UNFPA hefur flutt 13 tonn af hjúkrunargögnum, sérstaklega ætluð konum, lyf og bunað til sjúkrahúsa í Úkraíunu og hreyfanlegra teyma. Þá styður stofnunin tugi öruggra svæða, athvarfa og neyðarmiðstöðva, auk þess að útvega bágstöddum konum tíðavörur.

„Það kemur ekki til greina að nauðganir og annað kynferðislegt ofbeldi líðist og gerendur mega ekki njóta refsileysi,“ sagði Kanem.