Bachelet segir dóm yfir Sýrlendingi sögulegan

0
610

 Mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna, Michelle Bachelet, telur að dómur þýsks dómstóls í dag yfir sýrlenskum leyniþjónustumanni sé “sögulegur”.

Anwar Raslan, 58 ára,fyrrverandi höfuðsmaður var dæmdur í ævilangt fangelsi fyrir glæpi gegn mannkyninu. Honum hafði verið gefið að sök að bera ábyrgð á 58 morðum, pyntingum á alls 4 þúsund manns, frelsissviptingum, nauðgun, kynferðisafbrotum og gíslatöku.  Afbrotin voru framin í Al-Khatib fangelsinu á árunum 2011 til 2012.

Raslan hafði sótt um og fengið hæli í Þýskalandi. Hann neitaði sök og sagðist þvert á móti hafa hjálpað sumum fanganna.

Mörg fórnarlamba báru vitni fyrir dómstólnum í Koblenz í Þýskalandi.

Bachelet mannréttindastjóri segir dóminn sögulegan og hvatti önnur ríki til að fara að dæmi Þýskalands og rannsaka og saksækja þá sem gerst hafi sekir um alvarleg mannréttindabrot í krafti alþjóðlegrar lögsögu.

“Réttarhöldin hafa varpað kastljósi að nýju á hrikalegar pyntingar, grimmilega og ómannúðlega meðferð, þar á meðal kynferðisleg afbrot, sem fjöldi Sýrlendinga hefur mátt sæta,” sagði Bachelet æðsti yfirmaður mannréttindamála hjá Sameinuðu þjóðunum.