Erindreki SÞ krefst lausnar Assange

0
1068
Assange
Julaian Assange. CC BY-SA 2.0

Sérstakur erindreki Sameinuðu þjóðanna um pyntingar hefur hvatt bresk yfirvöld til að sleppa Julian Assange úr fangelsi eða setja hann í stofufangelsi á meðan fjallað er um framsal hans til Bandaríkjanna.

Erindrekinn  Nils Melzer birti yfirlýsingu vegna þess að nú eru 10 ár frá því Assange var fyrst handtekinn 7.desember 2010. Auk þess er  COVID-19 faraldur nú í Belmarsh fangelsinu. Fréttir herma að 65 af 160 föngum hafi greinst með veiruna, þar á meðal fjölmargir í sömu álmu og Assange er í haldi.

Vinnuhópur Sameinuðu þjóðanna um geðþótta fangelsanir komst að þeirri niðurstöðu 2015 að Assange hefði verið sviptur frelsi af geðþótta nokkrum sinnum. Þannig var hann í haldi í tíu daga í Wandsworth fangelsi, 550 daga í stofufangelsi. Þá var hann sviptur frelsi í sendiráði Ekvador í nærri sjö ár. Frá 11.april 2019 hefur Assange verið í nærri algjörri einangrun í Belmarsh fangelsinu.

„Upphaflega hnepptu bresk yfirvöld Assange í varðhald á grundvelli framsalskröfu frá Svíþjóð í tengslum við meinta ósæmilega kynferðislega hegðun. Það mál hefur verið felt niður vegna skorts á sönnunagrgögnum. Í dag er hann hins vegar í haldi í forvarnarskyni til að tryggja að hann sé viðstaddur réttarhöld vegna framsalskröfu Bandaríkjanna. Það mál gæti tekið mörg ár,” segir Melzer.

Pyntingar, ómannúðleg refsing

„Assange hefur ekki verið dæmdur fyrir glæp og engum stafar hætta af honum. Áframhaldandi vistun hans í einangrun í há-öryggisfangelsi er hvorki nauðsynleg né hófsamleg og skortir allan lagagrundvöll.”

Melzer segir að ekki felist aðeins handahófs fangelsun í varðhaldi Assange. Í þeim felist einnig pyntingar og annars konar ómannúðleg og niðurlægjandi meðferð eða refsing vegna þeirra sívaxandi þjáninga sem hann þurfi að líða.

Hann lýsti sérstsaklega áhyggjum sínum vegna þess að Assange sé útsettur fyrir COVID-19 smiti vegna undirliggjandi heilbrigðisástands hans.

Réttindi brotin

„Réttindi Assange hafa verið alvarlega brotin í meir en áratug. Leyfa ber honum að njota venjulega fjölskyldu- félags- og atvinnulífs; leyfa ber honum að ná fullri heilsu og undirbúa vörn sína gegn framsalskröfu Bandaríkjanna.”

Búast má við að dragi til tíðinda í næsta réttarhaldi 4.janúar og hvatti sérfræðingurinn bresu stjórnina til að framselja Assange ekki af mannréttindaástæðum.

Sérstaki erindrekinn Nils Melzer, er sérfræðingur skipaður af Mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna. Hann fjallar um pyntingar og aðra grimmilega, ómannúðlegar eða lítillækkandi meðferð eða refsingu.

Mannréttindaerindrekar Sameinuðu þjóðanna starfa sjálfstætt og í eigin nafni.