Finnland braut réttindi finnskra barna í Sýrlandi

0
351
Barn í flóttamannabúðum í Sýrlandi
Barn í flóttamannabúðum í Sýrlandi. Mynd: UN News

Réttindi barna. Finnland braut rétt barna til lífs með því að láta undir höfuð leggjast að flytja þau úr lífshættulegum aðstæðum í búðum í Sýrlandi. Að sama skapi var réttur þeirra til frelsis frá ómannúðlegri og niðurlægjandi meðferð brotinn, að mati Nefndar Sameinuðu þjóðanna um réttindi barns.

Nefndin (The UN Child Rights Committee) birti niðurstöðu sína í dag en í henni er fjallað um mál sex finnskra barna sem hafa verið í haldi í Al-Hol búðunum í norðausturhluta Sýrlands. Þær eru undir stjórn sýrlensku lýðræðissveitanna. Börnin eru fædd í Sýrlandi en foreldrarnir eru taldir hafa verið í slagtogi við hryðjuverkasamtökin Da’esh, sem kenna sig við íslamskt ríki.

Barn borið í tösku á flótta foreldra 2018. ©
Barn borið í tösku á flótta foreldra 2018. © UNICEF/UN0185401/Sanadiki

Frá því ættingjar barnanna skutu máli þeirra til nefndarinnar 2019 hefur þremur barnanna og móður þeirra verið leyft að yfirghefa Al-Hol búðirnar og komust þau um síðir til Finnlands.

Þrjú börn eru hins vegar enn í búðunum en þau eru á aldrinum fimm til sex ára gömul.

Finnland ber ábyrgð

Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að Finnland bæri hvort tveggja ábyrgð á og hefði vald til þess að vernda finnsku bornin í sýrlensku búðunum gegn yfirvofandi hættu með því að flytja þau heim.

Nefndin komst einnig að þeirri niðurstöðu að langvinnt varðhald barna sem væru fórnarlömb í lífshættulegum aðstæðum fæli í sér ómannúðlega og lítillækkandi meðferð eða refsingu.

UNICEF úthlutar vetrarfötum í Al-Hol búðunum.
UNICEF úthlutar vetrarfötum í Al-Hol búðunum. Mynd: . ©UNICEF/Delil Souleiman

Enn taldi nefndin að Finnland hafi ekki sýnt fram á að nægt tillit hafi verið tekið til þess hvað væri þessum fórnarlömbum á barnsaldir fyrir bestu þegar óskir ættingja um flutning til heimalandsins, voru teknar til umfjöllunar.

Nefndin hvetur Finnland til að grípa til tafarlausra aðgerða til að flytja börnin þrjú heim. Í millitíðinni ber Finnlandi að grípa til aðgerða til að draga úr þeirri hættu sem líf þeirra og þroski eru í á meðan þau dvelja enn í norðausturhluta Sýrlands.

Frakkar áður átaldir

Þetta er í annað skipti sem nefndin hefur tekið til umfjöllunar ástand barna í flóttamannabúðum í norðaustur Sýrlandi. Áður hafði hún komist að þeirri niðurstöðu að ákvæði Barnasáttmálans hefðu verið brotin í máli gegn Frakklandi.

„Frásagnir af ástandi barna í búðunum benda til að það sé ómannúðlegt og þar skorti grundvallarnauðsynjar eins og vatn, mat og heilsugæslu og bráður bani kunni að bíða þeirra,” sagði nefndarmaðurinn Ann Skelton. „Við hvetjum Finnland til að grípa til tafarlausra og ákveðinna aðgerða til að vernda líf þessara barna og koma þeim heim til fjölskyldna sinna.“

Sjá einnig hér.