Flóð í Evrópu: fyrirboði um það sem koma skal

0
1215
Unsplash/Claudio Schwarz

Stórrigningar og flóð í vestur-Evrópurikjum undanfarna daga eru enn ein viðvörun um að ríki verði að búa sig undir hamfarir sem rekja megi til loftslagsbreytinga. Þetta er álit Alþjóða veðurfræðistofnunarinnar (World Meteorological Organization (WMO) á vatnavöxtum sem orðið hafa í Þýskalandi, Belgíu, Lúxemborg og Hollandi undanfarna daga.

Stofnunin bendir á að tveggja mánaða úrkoma hafi rignt yfir ríkin á aðeins tveimur dögum, 14.og 15.júlí.

Meir en hundrað manns hafa látist í Þýskalandi og Belgíu. António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hefur sent samúðarkveðjur vegna manntjónsins og eignaspjalla. Í yfirlýsingu talsmanns hans segir að hann sendi fjölskyldum samúðarkveðjur og lýsi samstöðu með ríkisstjórnum og þjóðum sem orðið hafa fyrir barðinu á flóðunum.

Hiti á Norðurlöndum

Á sama tíma hafa hitar og þurrkar herjað á Skandinavíu og Finnland. Hiti hefur þannig mælst yfir 25 stigum á Celsius í 27 daga í röð í bænum Kouvola Anjala í Finnlandi.

„Þetta er að gerast í Finnlandi, ekki Spáni eða norður Afríku,“ sagði Claire Nullis talsmaður WMO á blaðmannafundi í Genf. „Óneitanlega eru myndirnar sem við höfum séð frá Þýskalandi, Belgíu og Hollandi svakalegar. Þetta er hins vegar það sem við eigum eftir að sjá í sívaxandi mæli. Allar spár og sviðsmyndir um loftslagsbreytingar gera ráð fyrir sívaxandi öfgaveðurfari, sérstaklega háu hitastigi.“